21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (1435)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Aðeins örfá orð, og þá sérstaklega út af orðum hv. þm. Borgf. Ég skal segja honum það, þó að hann kannske trúi því ekki, að fyrir mér er kostnaðurinn alls ekki aukaatriði, og ef svo stæði á, að austur á Reykjum í Ölfusi þyrfti að reisa slíkan skóla frá grunni, þá mundi ég alls ekki leggja til, að skólinn yrði reistur nú á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. En þegar þannig vill til, að búið er að leggja tugi þúsunda í landkaup og aftur tugi þúsunda í framkvæmdir á þessum stað, sem alls ekki verða betur notaðar en í sambandi við garðyrkjuskóla, þá finnst mér rétt að reisa skólann þar. Ég er alveg sannfærður um, að það er rétt hjá hv. 9. landsk. þm., að ef við ætlum okkur að koma upp myndarlegum garðyrkjuskóla á búnaðar- skólasetri, þá mundi það verða ærið kostnaðarsamt. Ég hugsa, ef um það yrði að ræða, að þá yrði Hvanneyri fyrir valinu, en ekki Hólar. Eins og hv. þm. veit, hafa ekki allir komizt að Hvanneyri undanfarið, sem sótt hafa um skólavist og eiga þar aðgang sem bændaefni, svo að þar þyrfti að bæta við húsakost og sömuleiðis kennara í garðyrkju, sem í rauninni á að vera til taks fyrir austan sem starfsmaður við garðyrkjuna og gæti fallið þar inn í skólafyrirkomulagið.

Þá álít ég og nauðsynlegt að koma upp gróðrarhúsum og vermireitum, og ég tel því mjög vafasamt, hvort kostnaður við þetta yrði minni en sá viðbótarkostnaður, sem verður á Reykjum í Ölfusi við byggingu íbúðar- og skólahúss. Og einmitt þetta, að þar er til nægur jarðhiti, gerir mögulegt að byggja þar ódýrt. Það er því einmitt þetta atriði um kostnaðinn, sem vegur mest í mínum augum.

Þó að búið gefi ekki mikið af sér nú, þá stendur það til bóta; reksturinn er alltaf að aukast og afkoman að batna. Ég tel því víst, að áður en langt um líður geti það staðið undir rekstri skólans.

Ég held því, ef tekið er tillit til kostnaðarins, eins og hv. þm. var að benda á og eins og sjálfsagt er, þá hnigi öll rök að því, að fremur beri að reisa þennan skóla að Reykjum í Ölfusi en í sambandi við búðarskóla, því það verði í öllu ódýrara.