05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 930 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Þorsteinn Briem:

Ég hefi veitt því eftirtekt, að 1. gr. frv. hefir verið breytt frá því, sem hún var í frv. upphaflega, eins og það var flutt í Nd. Þá var hún orðuð á þessa leið:

„Stofna skal garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi eða þeim öðrum jarðbitastað, er jafnhentugur kynni að þykja.“

Þessu var breytt svo í Nd., að nú er 1. þannig:

„Stofna skal garðyrkjuskóla, ríkisins að Reykjum í Ölfusi.“

Það virðist hafa vakað fyrir hv. flm. frv., að ekki væri fullvíst, hvort Reykir í Ölfusi væri bezti staðurinn fyrir þennan skóla. En Nd. hefir ekki gert neitt með þann fyrirvara hv. flm. Ég vi1 benda á þetta vegna þess, að fyrir nokkrum dögum var allshn. þessarar d. á ferð austur á Reykjum í Ölfusi og leitaði sér þar ýmsra upplýsinga um kosti og einkenni jarðarinnar. N. átti þar kost á að tala við fyrrv. búnaðarmálastjóra Sigurð Sigurðsson og bústjóra Reykjabúsins, og létu þeir það báðir ótvírætt í ljós, að landið þar væri óhentugt til garðyrkju, einkum jarðeplaræktar, og færðu þær ástæður fyrir því, að eðliseinkenni jarðvegsins væru þannig, að landið gæti tæplega talizt ræktanlegt. Af því að þetta kom fram frá þessum sérfróðu mönnum, vildi ég benda hv. d. og hv. landbn. á að taka þetta til meðferðar, þar eð hv. flm. hefir sýnilega ekki viljað halda fast við Reyki sem skólastað, heldur hvern þann stað, sem kynni að þykja hæfastur.