05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

28. mál, garðyrkjuskóli ríkisins

*Þorsteinn Briem:

Það kemur nú í ljós, að þetta mál hefir ekki verið rannsakað sérstaklega. Hæstv. forsrb. bar ekki fram neina rannsókn til stuðnings máli sínu. Það að Sigurður Sigurðsson fyrrverandi búnaðarmálastjóri hefir valið sér og syni sínum stað þarna nálægt til sinnar jarðyrkju, sannar ekki neitt í þessu sambandi að því er snertir kartöflurækt, því hann mun aðallega stunda aðra garðyrkju en kartöflurækt, þó hann kunni kannske að hafa einhverja kartöflurækt jafnframt. En hann lét það í ljós, að aðstaða til kartöfluræktar væri örðug þarna vegna eðliseinkenna jarðvegsins, og hann hefði valið staðinn vegna annarar jarðyrkju, sem hann hefir þar, sérstaklega í gróðurskálum.

Mér er ekki kunnugt um það, að Sigurður Sigurðsson hafi sótzt eftir landi hinu megin árinnar í landi Reykja sérstaklega vegna kartöfluræktar. A. m. k. sáust þess ekki merki, að kartöflur hefðu verið ræktaðar þar. Þar voru kálgarður, en ekki kartöflugarðar, og sá maður það á jurtaleifunum, sem þar voru.

Hitt er ekki nema rétt, að á Reykjum er hafinn ýmiskonar undirbúningur, sem mundi, ef önnur skilyrði væru þar líka fyrir hendi, verða til ýmiskonar hagræðis, og að því leyti hafi Reykir í Ölfusi ýmsa kosti, bæði vegna legu sinnar og vegna þeirra framkvæmda, sem þar hafa þegar verið gerðar.

En ég vakti máls á þessu í þeim tilgangi, að hv. landbn. athugi þetta mál sérstaklega, og ég ætla, að það sé jafnmikil þörf á því þrátt fyrir þau ummæli, sem komu fram frá hæstv. forsrh.