07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (145)

1. mál, fjárlög 1937

*Sigurður Kristjánsson:

Ég kvaddi mér hljóðs af því, að hv. þm. Hafnf. var að mæla fyrir till., sem að nokkru leyti á að koma í staðinn fyrir fjárveitingu til Landssambands iðnaðarmanna og ég hefi flutt um brtt. á þskj. 560. Landssambandið sótti um 20 þús. kr. til þess að geta hafið fyrir iðnaðinn svipaða starfsemi og búnaðarfélgið hefir með höndum fyrir landbúnaðinn og fiskifélagið fyrir sjávarútveginn. Þessi umsókn kom til iðnn., og mælti n. einróma með því, að till. yrði tekin til greina, og sendi hana til fjvn. Nú kom ekkert álit um þetta frá fjvn., og ég sá ekki, hvern endi þetta myndi fá í n. fyrr en nú fyrir stundu. Undrar mig, að n. skuli sjá sér fært að líta ekki á brtt. Ég segi ekki, að það væri óforsvaranlegt að minnka styrkupphæðina eitthvað, t. d. um helming, sem væri þó ekki vel gott, en hitt er ófært. Og till. hv. þm. Hafnf. bætir ekki úr þessu, því að hún felur aðeins í sér heimild fyrir stj. til að verja helmingi þessarar upphæðar til skrifstofuhalds fyrir iðnaðarmálin, en það er á engan hátt bundið við Landssamband iðnaðarmanna. En það er bersýnilegt, að eins og við fáum styrkinn til búnaðarmála í hendur búnaðarélaginu og styrk til fiskimála fiskifélaginu, eins ber að láta Landssamband iðnaðarmanna fá umráð yfir styrkjum til iðnaðarmála.

Af því að þetta er nú aðeins, byrjun, er ég fús til samkomulags við þá menn, sem vilja hlusta á mál landssambandsins um lækkun á upphæðinni, e. t. v. niður í helming þess, sem hér er geri ráð fyrir ef styrkurinn er þá fenginn landssambandinu sjálfu í hendur. Ég veit ekki, hvort hv. þm. hefir ætlazt til, að landssambandið fengi ekki umráð yfir styrknum. eða hvort hann hefir aðeins gleymt að setja ákvæði um það, en ef svo væri, mætti fljótlega kippa þessu í lag með skrifl. brtt. En þetta yrði þá að vera bein fjárveiting og beinlínis bundin við landssambandið. Geri ég ráð fyrir, að hv. þm. muni fús til samkomulags um þessi atriði.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. N.-Ísf. muni svara hæstv. fjmrh. út af ummælum hans og till. í sambandi við till. okkar á þskj. 519 um ábyrgð til handa S. Í. F. En fyrst ég stóð upp, vil ég taka það fram, að ummæli hæstv. ráðh. byggjast á misskilningi. Hann hefir ekki skilið till. okkar, af því að hann hefir ekki sett sig inn í málið. Er það leitt því að hann talaði um það með talsverðu yfirlæti. Hann sagði, að till. færi fram á að ábyrgjast, að kaupandinn væri fær um að borga vöruna. Þetta sýnir, að hann veit ekki, hvernig salan fer fram. Fiskurinn er afhentur einungis gegn greiðslu. Kaupanda er aldrei afhentur fiskurinn, nema hann greiði hann. Ef ætlazt er til, að varan sé greidd í sterlingspundum, þá fer sú greiðsla fram áður en fiskurinn er afhentur. En ef greiðslan fer fram með innborgun í banka í því landi, sem fiskurinn er seldur til, gegn því að vörur séu keyptar fyrir peningana í því sama landi, þá er hann ekki heldur afhentur fyrr en greiðslan er komin í lag. En í þessu sambandi er í fyrsta lagi það að athuga, að greiðsla getur dregizt, í öðru lagi getur farið fram gengisbreyting, og í þriðja lagi getur komið fyrir, að vörur frá hlutaðeigandi landi fáist ekki strax; það getur verið sett útflutningsbann á vöruna o. s. frv.

Hæstv. ráðh. sagði, að farið væri fram á, að ríkið tæki á sig alla áhættuna af fisksölunni. Þetta er misskilningur. Áhættan er mest í því fólgin að ekki sé hægt að selja fiskinn fyrir kostnaðarverði. Áhættan hvílir eftir sem áður nær öll á fiskframleiðendunum og er fólgin í því, að ekki fáist tilboð í fiskinn, nema þá svo lág, að tap verði á.

Þá sagði hæstv. ráðh., að frágangur á till. væri þannig, að ekki væri hægt að taka hana til greina. Ég veit ekki, hvað hann meinar með því. Ég vil bara minna hæstv. ráðh. á, að hér er ekki farið fram á fríðindi án þess að nokkuð komi í móti. Hér er bara farið fram á lítilsháttar endurgreiðslu á því, sem sjávarútvegurinn leggur fram. Hann flytur allt inn í landið svo að segja, sem inn er flutt, og hefir því unnið til þessa. — Annars ætla ég að láta hv. þm. N.-Ísf., aðalflm. till., eftir að svara hæstv. ráðh.