07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

1. mál, fjárlög 1937

*Þorsteinn Briem:

Ég vil fyrst segja nokkur orð fyrir brtt., sem ég á á þskj. 519,VII. nýr liður, þar sem farið er fram á 200 kr. til Laxárdalsvegar. Eg flutti till. í þessa átt við 2. umr.en því var farið fram á nokkru hærra tillag, og náði till. ekki samþ. Ég flyt nú till. um lægri upphæð. Ég lýsti við 2. umr. þörfinni á fjárveitingu til þessa vegar. Laxárdalsvegur liggur frá Búðardal inn Laxárdal í Dalasýslu á Laxárdalsheiðarveg og allt norður til Borðeyrar. Á síðari árum, allt þar til núverandi stj. tók við völdum, hefir verið varið nokkru fé til vegarins, vanalega með beinum fjárveitingum, en stundum af viðhaldsfé. Hefir fyrir þetta fé verið gerður vegur nokkuð inn fyrir Höskuldsstaði. — Þegar komið er inn í Dalina, tekur við veglaus kafli, allt að Laxsárdalsheiðarvegi. En þegar heiðinni sleppir, er allgóður vegur norður í Hrútafjörð. Er það bagalegt fyrir það fjölmenna byggðarlag sem þarna á hlut að máli, að vegkafli þessi skuli vera ófær vögnum, nema í allramestu þurrkum á sumrum. Kemur þetta sér ekki aðeins illa fyrir byggðarmenn sjálfa, heldur og alla ferðamenn, sem þarna fara um. Þar sem þetta er með búsældarlegustu byggðum á Vesturlandi, er ekki nema sanngjarnt, að þetta litla framlag sé veitt til vegarins. Er farið fram á þessa upphæð með það fyrir augum, að hægt sé að endurbæta veginn nokkuð án mikils kostnaðar, með því að leggja árlega til hans lítilsháttar upphæð. Yrði slíkt smáframlag árlega ekki tilfinnanlegur baggi fyrir ríkissjóð.

Þetta er nú eina brtt., sem ég flyt einn við þessa umr. En ég hefi ásamt hv. þm. V.-Húnv. flutt brtt. á sama þskj. við 22. gr. fjárl. 1. lið. Þessi 1. liður er um það, að verja skuli allt að 20 þús. kr. úr ríkissjóði til greiðslu launa tveggja dómara í hæstarétti, ef dómurum verður fjölgað. Við leggjum til, að ekki verði ráðizt í að fjölga dýrum embættismönnum, svo erfitt sem nú er heldur varið litlum parti af þessu fé til að létta bágindi þeirra bænda á harðindasvæðinu norðanlands, sem orðið hafa fyrir þyngstum búsifjum undanfarinn vetur vegna fóðurkaupa til bjargar búfé sinn. Ég flutti ásamt hv. þm. V.-Húnv. brtt. í þessa átt við 2. umr. fjárl., og gerði ég þá allrækilega grein fyrir till. okkar. Hinsvegar tók ég brtt. aftur til 3. umr. eftir tilmælum hæstv. fjmrh., því að mér skildist á orðum hans, að hann vildi taka þetta til velviljaðrar athugunar. Ég upplýsti þá, að samkvæmt varlegri áætlun myndu fóðurbætiskaup bænda á harðindasvæðinu nema að minnsta kosti 250 þús. kr. En auk þess hefir lagzt á bændur mikill kostnaður af flutningi fóðurbætisins, sérstaklegra í hinar afskekktari sveitir. Bóndi einn á Vesturlandi hefir t. d. orðið að borga fyrir 24 tunnur af fóðurbæti, að flutningskostnaði meðtöldum, 1062 kr. Flutningur varð svona afskaplega dýr vegna mikilla fannalaga, sem voru um þær mundir. Auk þessa gífurlega kostnaðar er viðbúið, að fjöldi bænda verði fyrir miklu afurðatapi á búfénaði, þó að ekki sé gert ráð fyrir miklum vanhöldum af því tægi, sem jafnan er talað lágt um, þegar orðið er. Má því gera ráð fyrir að á þessu svæði séu margir bændur komnir í fjárhagsþrot. Er því ljóst, að þetta mál varðar ekki einungis afkomu þessara manna einna og þeirra, sem þeir hafa á framfæri sínu, heldur einnig bankanna og annara stofnana, sem geyma almannafé. En mestu skiptir þó hitt, að hætta er á, að margir menn, sem haft haf, lífsbjargræði af sjálfstæðum atvinnurekstri, haldist ekki við bú sín og sjái sér ekki annað fært en flýja úr sveitinni í atvinnuleysið við sjávarsíðuna. Er ekki efnilegt að fá slíka skriðu ofan á það, sem fyrir er og mætti öllum hv. þm. vera það ljóst, að finna verður ráð til að koma í veg fyrir þetta.

Okkur flm. er ljóst, að þessar 100 þús., sem farið er fram á í till., er miklu of lágt. En við gerum ráð fyrir, að sumsstaðar geti viðkomandi sveitarfélag notið nokkurrar aðstoðar með því að fá lán úr bjargráðasjóði. Þó hafa mörg sveitarfélög einmitt á þessu svæði notað alla þá möguleika í því efni, sem fyrir eru. Hafa mörg þeirra tekið bjargráðasjóðslán allt að hámarki. og eru þessi lán nú innifrosin. Við flm. teljum sanngjarnt að veita þessa aðstoð. En við viðurkennum, að um leið og aðstoð er veitt, er sanngjarnt að gera nokkrar kröfur. Yrði þá að miða kröfurnar við það að fyrirbyggja, að til slíks ráðs yrði aftur að taka. Teljum við, að það yrði helzt fyrirbyggt með því að veita sveitum, sem þurfa á þessari aðstoð að balda, aðhald um það, að þær stofnuðu hjá sér fóðurbirgðafélög. Ef hæstv. stj. vill setja sveitunum þau skilyrði. er vel farið.

Sá liður 22. gr., sem við gerum brtt. við, hljóðar um heimild handa stj. til að verja allt að 20 þús. kr. á ári til að stofna tvö ný embætti. Við leggjum til, að þessi heimild verði niður felld, en í staðinn komi heimild til að veita þessa aðstoð. Um þetta tvennt er að velja, og vil ég ætla að Alþingi verði það val ekki erfitt.