04.04.1936
Neðri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Guðbrandur Ísberg:

Það er e. t. v. ekki ástæða til að fjölyrða um þetta frv. þegar við þess, umr., en þó finnst mér rétt að fara um það nokkrum orðum. Hv. frsm. hefir nú gert grein fyrir því, hver væri tilgangurinn með flutning þess. Í fyrsta lagi sem sé sá, að ná sem fyrst því fyrirkomulagi, að allar jarðir séu ríkiseign, og í annan stað að hjálpa þeim bændum, eins og hann orðaði það, sem erfiðast eiga nú þeim bændum, sem skulda svo mikið út á jarðir sínar, að þeir rísa ekki undir því.

Sá tilgangur hv. flm., að ná öllum jarðeignum í landinu undir ríkið, er sannarlega ekki nýr, ekki heldur hér í þessari hv. d. Það hefir verið klifað á þessu þing eftir þing, og annar þeirra flokka, sem nú fara með völdin, sósíalistar, hafa fyrir löngu lýst yfir því sem sinni stefnu, að svona ætti þetta að verða. Mér var nú kunnugt, að hv. 2. þm. N.-M. hallaðist að þessari skoðun, en mér kemur það hinsvegar á óvart, að hv. þm. Mýr. skuli nú vera í þessari fylkingu, nema svo sé að hitt atriðið, að koma nauðstöddum, skuldugum bændum til hjálpar, hafi glapið honum sýn og dregið hann til fylgis við málið, þó hann sé e. t. v. í hjarta sínu höfuð atriðinu mótfallinn.

Ég get tekið undir það með hv. 7. landsk., að mér finnst dálítið harkalegt að nota sér þá neyðaraðstöðu, sem margir bændur eru nú í, til þess að reyna að ná jörðunum af þeim. Því það er vitanlegt, að enginn bóndi, sem á þess kost að velja um að búa á sjálfseign eða leigujörð, kýs leiguábúðina. Hinsvegar má gera ráð fyrir, að margir bændur myndu nú grípa þetta tækifæri til þess að reyna að losna við jarðirnar. Það er nú svo, að þó þessi tilgangur sé að mínu áliti illur, þá er frv. þetta eins og það liggur fyrir e. t. v. ekki eins hættulegt eins og hefði mátt halda og e. t. v. er ætlazt til. Hv. þm. benti á það, að þrátt fyrir alla örðugleikana væri þó til nokkur eftirspurn eftir jörðum, þannig að einstakir menn mundu kaupa jarðir jafnvel hærra verði heldur en þær eru metnar að fasteignamati. Sem betur fer, er þetta rétt, en það gildir bara um þær jarðir, sem menn almennt telja sæmilegar ábúðarjarðir. Svo er hópur jarða, sem ekki mundu seljast nema fyrir neðan fasteignamat til einstaklinga og það eru þá fyrst og fremst þessar jarðir, sem menn mundu vilja selja ríkinu. Þetta eru jarðir, sem ýmsar eru komnar að því að leggjast í eyði. Ég veit t. d. um eina jörð, sem búið er á góðu búi nú og bóndinn á skuldlausa, en hann getur ekki selt hana, þó hann af sérstökum á stæðum vilji og þurfi að komast í burtu. Það er búið að gera þarna talsverðar jarðabætur en jörðin er afskekkt og mundi leggjast í eyði, ef bóndinn, sem þar er nú, flytti burtu. Það væri tilvalið að selja ríkissjóði þessa jörð og aðrar, sem svipað er ástatt um. En hverju ríkissjóður væri bættari að eiga þessa skika fram um allar heiðar, er mér ekki ljóst. Virðast þeir, sem að þessu máli standa, a. m. k. ekki telja ríkissjóð eiga svo erfitt, að hann geti ekki lagt fé í eitthvað, fyrst þeir telja honum mögulegt að kaupa slíkar jarðir, er ég nú lýsti. Að vísu er sagt hér, að ekki eigi að kaupa þær jarðir, sem hætta er á, að leggist í eyði í náinni framtíð. En hvað ætli menn fari að greina frá því, hvort mönnum þykir líklegt, að þær jarðir leggist í eyði, sem menn vilja selja ríkinu, og hvað vita þeir menn, sem jarðakaupunum eiga að stjórna hér í Reykjavík, um þetta? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Þeir vita hvort jarðirnar eru komnar í eyði, en hvort þær eru á leiðinni að fara í eyði, um það verða þeir að hlíta umsögn manna úr viðkomandi sveit, sem varla mundu vilja spilla fyrir því, að nágrannar þeirra geti selt ríkinu jarðir sínar. Það er þannig útilokað með sumum ákvæðum frv., að ríkið geti eignazt aðrar jarðir en þær, sem fæstir einstaklingar vilja eiga, og má þá segja, að minni skaði sé, þó þar lendi í eign ríkisins fyrir það fé, sem menn vilja fyrir þær fórna.

Þetta er 1. umr. málsins, og vil ég því ekki fara út í einstakar gr. frv. Ég vil aðeins benda á, að það er rétt, sem hv. 7. landsk. hélt fram, að bændur eru nú einu sinni þannig gerðir, að þeir vilja heldur eiga sínar jarðir en vera leiguliðar, og þegar batnar í ári, er það víst, að ef bændur annars hafa með sér nokkurn félagsskap um þessa hluti, eru þeir þess megnugir að fá breytt þeim 1., sem kunna að vera beint til tjóns á þessu sviði. Svo ég er ekkert hræddur við það, þó svona löggjöf verði knúin í gegn. Hún er gagnslaus og heimskuleg og þeim einungis til háðungar, sem að henni standa.