08.04.1936
Neðri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 944 í B-deild Alþingistíðinda. (1466)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Sigurður Kristjánsson:

Það er kunnugt, að á þessu jarðakaupamáli var gerð skipun á síðasta þingi, en þetta er eitt af þeim málum, sem núv. stjórnarflokkar gerðu samning um, þegar stj. var síðast mynduð, á þann hátt, að þeir virðast hafa skuldbundið sig til þess að ná jarðeignum í landinu yfirleitt undir ríkið. Það er líka kunnugt, að út af þessu hafa risið miklar umr. víða úti um land, og eins í blöðunum. Sjálfstfl. hefir haldið því fram, að yfirleitt væri heppilegast, að jarðirnar séu í sjálfsábúð, og auk þess hafa margir haldið því fram, að það hefði stórkostlega þjóðfélagslega þýðingu að viðhalda óðalsrétti og sjálfsábúð á óðulum landsins, og helzt að auka sjálfsábúðina þannig, að hver maður eigi þá jörð, sem hann situr á og ræktar. Það er áreiðanlegt, að við þær umr., sem fram hafa farið um þetta mál utan þings, og jafnvel á þingi, hefir það greinilega komið í ljós, að menn hallast mjög að sjálfsábúðarstefnunni, og má telja víst, að hún hafi þegar gersigrað meðal bændastéttarinnar, og að það séu ekki nema fáir menn, sem hafa þann hugsunarhátt að vilja heldur vera leiguliðar en sjálfseignarbændur.

Það er áreiðanlegt, að Framsfl. hefir skilið, hvernig ástatt er í þessum efnum, og af þeirri ástæðu ætla ég, að það hafi verið, sem Framsfl. hér á þingi gekk mjög frá þessum samningi stjórnarflokkanna í framkvæmdinni, þegar hann gekk inn á frv. um óðalsrélt og erfðafestuábúð í fyrra. Það er líka minnisstætt, hvernig þá þaut í Alþfl.-skjánum, því að þm. þess flokks hér í þessari hv. d. vilja telja þetta samningsrof af hálfu bandalagsflokksins, og ég vil ekki alveg neita því, að það hafi nálgazt það. Nú er auðséð, að þessum draug er að aukast ásmegin, og hann er að ná gamla takinu fastara og fastara á þessum vesala bandalagsflokki, sem er líklega í andarslitrunum, því að þetta frv., sem hér liggur fyrir, sýnir, að Framsfl. hefir ekki aðeins verið beygður í þessu máli, heldur hefir hann verið svínbeygður.

Um einstakar gr. frv. skal ég ekki ræða að þessu sinni, af því að þetta er 1. umr. málsins, en þó vil ég víkja nokkuð að því, sem stendur í e-lið 4. gr. frv., sem sé því, að það skuli kaupa jarðirnar yfirleitt fyrir það, sem á þeim hvílir. Eins og kunnugt er, stendur svo á með landbúnaðinn eins og aðra atvinnuvegi, að hann hefir átt við mikla erfiðleika að stríða undanfarið, en það er öllum kunnugt, að þolleysi manna verður því meira í baslinu með atvinnureksturinn, því fleiri ár sem hann er rekinn með tapi, og þegar búskapurinn gengur mjög illa, vilja fleiri selja jarðir sínar en í góðu árunum, en svo þegar betur borgar sig að reka búskap, þá vilja margir kaupa jarðir.

Þeir, sem vilja svipta menn yfirráðarétti jarðanna, eru því að bíta bakfiskinn úr íslenzkri bændastétt og koma henni undir þrældómshugsunarhátt sósíalista, því að þeir svíkjast aftan að mönnum á þeim tíma, sem bændurnir eru mest beygðir af erfiðleikunum. Ég tel þetta bæði fávíslegt og miður drengilegt, og það er sýnilegt, hvaða hagnað bændur eiga að hafa af því að losna við jarðirnar, þegar þeir eiga aðallega að afhenda þær fyrir áhvílandi skuldir. Mér dettur í hug saga af Íslendingi einum í sambandi við þetta. Hann hafði varið öllum sínum eignum í að eignast taminn hvítabjörn, og ætlaði hann að gefa dýrið, en á leiðinni til þess, sem gjöfin var ætluð, varð hann fyrir því óhappi að skorta fóður handa dýrinu. Fór hann þá á fund ármanns konungs, sem var Sveinn konungur í Danmörku — en hann átti að fá dýrgripinn — til þess að fá keypta fæðu handa dýrinu, en ármaðurinn notaði sér vandræði Íslendingsins og heimtaði hálft dýrið að launum fyrir greiðann. Þegar konungur spurði ódrengskap trúnaðarmanns síns, fékk ármaðurinn að sjálfsögðu maklega málagjöld.

Þeim mönnum. sem ætla að nota sér illt árferði til þess að þvinga bændastéttin, til að afsala sér sjálfseignarjörðum sínum, fer líkt og ármanni konungs. Bændurnir fá ekkert í staðinn fyrir jarðirnar, sem taka á af þeim. Þeir sitja sömu jörðina og áður með engan eyri í höndunum, þeir verða leiguliðar og hafa látið kúga sig til þess að bregðast skyldu sinni gagnvart eftirkomendum sínum og erfingjum.

Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi orð mín hafi nokkur áhrif á atkv. manna, en mér þykir rétt að láta skjalfesta þessa skoðun mína.

Ég tel rétt að mótmæla þessu frv., sem ég álít mesta gerræði, og ég vænti þess, að þegar við, sem erum á móti þessari jarðránsstefnu, komum skoðun okkar fyrir augu og eyru almennings í landinu, þá muni verða þungur róðurinn fyrir kommúnistana, hvort sem þeir eru í líki framsóknarmanna eða sósíalista, að koma sínu gerræði fram í þessu máli.