21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1473)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Pétur Ottesen:

Ég hafði búizt við, að hv. frsm. meiri hl. fyndi ástæðu til að svara hv. frsm. minni hl., eftir að hann hafði haldið hina röggsamlegu ræðu sína, þar sem hann fletti svo gersamlega ofan af þeirri kórvillu. sem liggur til grundvallar fyrir þessu frv., að það sé bændum til uppbyggingar og bjargar nú í kreppunni, að ríkisvaldið sé látið lokka frá þeim eignarhaldið á jörðunum.

En hv. frsm. meiri hl. hefir ekki fundið ástæðu til þess. Má vera, að það stafi af því, að hann þykist standa svo föstum fótum hér í þd. til að koma þessu máli fram, að hann þurfi ekki að eyða orðum að því. Það sé því óhætt að reiða sig á þau bönd, sem sósíalistar hafa reyrt að Framsfl. í þessu máli. Hann þykist víst mega treysta því, að ekki verði slakað á þeim helfjötrum, sem sósíalistar eru nú, með atbeina Framsfl., að leggja á bændur til þess að kippa fótunum undan sjálfstæðum atvinnurekstri í sveitum þessa lands.

Að því er stefnu þessa frv. snertir, þá er það að segja, að hún miðar að því, að allar jarðir verði þjóðnýttar og að bændurnir verði ósjálfstæð leiguþý þess opinbera, hafi ekkert hjá sjálfum sér að taka, en verði að bukta sig og beygja fyrir valdi og ofríki sósíalista í landinu. — Sumir voru orðnir svo barnalega bjartsýnir, að þeir voru farnir að ala þá von í brjósti, áður en þetta þing var sett, að Framsfl. myndi fá því framgengt, að slakað yrði á þessu atriði samningsins á milli Alþfl. og Framsfl. Þetta skilyrði samningsins, um að sett væru lög, er heimiluðu stj. að láta ríkissjóð kaupa jarðirnar af bændum, var eftir að uppfylla. Mér er persónulega kunnugt um, að ýmsir bændur í Framsfl., er voru sérstaklega óánægðir með þetta atriði í samningnum, voru nú farnir að hugga sig við það, að sú óhamingja, er af samningnum stafaði, mundi þó ekki renna sitt skeið á enda, ef frestur fengist á því, að þessu atriði yrði fullnægt.

En það er nú komið í ljós, að sósíalistar hafa ekki linnt svipuhöggunum á baki þm. Framsfl., fyrr en þeir voru barðir til hlýðni um að fullnægja líka þessu atriði samningsins. Þegar leið á þingið og fylling tímans var komin, var þm. sýnt framan í þetta frv. Það var þá ekki heldur lítil gleidd á Alþýðublaðinu, málgagni sósíalista, þann daginn, er þetta frv. var komið fram til fullnægju því atriði samningsins, sem þeim var svo mikið í mun að fá tekið í lög. Það var líka ekkert annað en upptugga úr Alþbl., sem hv. 2. þm. N.-M. flutti hér í sinni framsöguræðu, að með þessu frv. væri leystur allur vandi fyrir landbúnaðinn, þar sem nú á að skera á þá taug, sem seigust hefir reynzt og mikilvægust fyrir framfarir í íslenzkum landbúnaði. Framfarir í íslenzkum landbúnaði hafa aukizt í réttu hlutfalli við það, er fleiri og fleiri bændur í sveitum landsins hafa náð eignarhaldi á býlum sínum. Má rekja ferilinn þessu til sönnunar um allt land, og hvar sem vera skal, að samtímis því, sem jarðirnar hafa komizt í sjálfsábúð, hefir ræktun aukizt á jörðunum húsin verið endurreist. Aðalundirstaðan að þróun landbúnaðarins á síðari tímum er sú, að jarðirnar kæmust í sjálfsábúð. En það er þessi þróun, sem nú á að stöðva. Og það níðingslegasta og í mínum augum andstyggilegasta í þessu máli er það, að nú á að nota, það erfiðleikaástand, sem ríkir í sveitunum fyrir óáran í sauðfénu, örðugleika á sölu landbúnaðarafurða í markaðslöndunum, fádæma harðindi í sumum landshlutum — það á að nota sér þessa neyð bænda til að knýja fram þetta spellvirkismál. Og svo er því haldið fram, að þetta frv. sé björg fyrir bændastéttina.

Á tveimur síðastl. árum hefir mest borið á því, að fólkið hefir streymt úr sveitunum í kaupstaðina. Það hefir líka ýmislegt verið gert til þess að laða fólkið þangað, m. a. með því að halda uppi hámarkskauptaxta í kaupstöðunum og skapa fólkinu þar önnur fríðindi, t. d. með atvinnubótavinnu, og nú á síðasta þingi með því að veita fé úr ríkissjóði og bæjarsjóðum kaupstaðanna til að greiða þeim, sem mynda þar atvinnuleysingjafélög, það er að segja, að með ákvæðum hinna nýju laga um atvinnuleysistryggingar, þá geta þessir menn fengið fé úr ríkissjóði og bæjarsjóðum gegn nokkrum framlögum frá þeim sjálfum í atvinnuleysissjóði þessara félaga.

Þar sem fólkið ber lítið úr býtum í sveitunum, hefir þetta þau áhrif þar, að fólkið hverfur í stríðum straumum úr sveitunnm og leitar til kaupstaðanna. En einn allrasterkasti þátturinn, sem heldur aftur af þessu öfugstreymi, er einmitt það, hversu margir menn eru enn bundnir sjálfseignarböndum við býli sín. Þeir hafa setið kyrrir á jörðum sínum, af því að þeir báru svo mikla rækt til framkvæmda sinna þar og báru hlýjan hug til jarðarinnar og vildu klífa þrítugan hamarinn til þess, að synir þeirra og dætur gætu tekið við óðalinu af þeim. Þar að auki hafa sumir bændur setið kyrrir af því að þeir kátu ekki losnað við jarðir sínar. Af þessum ástæðum sitja margir bændur enn í sveitunum, og hafa ekki safnazt í atvinnuleysingjahópinn í kaupstöðunum.

Þannig er það á þessum erfiðleikatímum, sem nú standa yfir, að sjálfseignartilfinningin er sterkasti þátturinn í eðli sveitafólksins. sem stendur fastast á móti þeirri byltingu, er veldur því, að fólkið flýr úr sveitunum í kaupstaðina. Það er einmitt þessi þáttur, sem heldur lengst jafnvægi á milli sjávar og sveita. Með frv. er verið að skera á þennan þátt, til þess að tryggja það, að sveitunum haldi áfram að blæða til ólífis. Sú er stefna þessara herra, sem að frv. standa, og er það blátt áfram gerræði eða ósvífið tilræði við sveitabúskapinn í landinu. Og ég verð að segja, að mér þykir það hart, þegar þeir menn, sem telja sig forsvarsmenn landbúnaðarins og sveitanna, þegar þeir láta þrælbinda sig svo á höndum og fótum til fylgis við þá rótlausu stefnu eða stefnuleysi sósíalistanna, að koma öllum jarðeignum og atvinnurekstri í landinu undir ríkið. Það er sannarlega hart, að slíkir menn skuli verða til þess að láta reyna sig fasta eins og þræla við þá óheillastefnu.

Það er augljóst, að nú á að reyna að fullkomna þetta verk; það er annað og meira en viðleitnin. Þetta sýnir bezt, hversu gersamlega framsóknarmenn eru máttlausir í sambúðinni við sósíalistann, að þeir skuli hverfa svo vendilega frá þeirri braut, er þeir áður hafa fylgt gagnvart landbúnaðinum. Framsóknarmenn hafa oft talið sér það til gildis, að þeir hafi komið á stofn lánsstofnunum fyrir landbúnaðinn, t. d. ræktunarsjóði og byggingar- og landnámssjóði. Þessar lánsstofnanir hafa dyggilega stutt sjálfseignarstefnuna í landinu. Þær eru byggðar upp til þess atð geta varðveitt og fært út á víðara svið sjálfsábúðina í sveitunum. En hún tryggir það bezt, að ræktun jarðarinnar og aðrar umbætur verði auknar og nýjar byggingar reistar í sveitunum. Að þessu hafa ræktunarsjóður og byggingar- og landnámssjóður stuðlað með lánveitingum til bænda. Með þessu frv. á sýnilega að fullkomna þetta verk á þann hátt að ná eignarumráðum yfir jörðunum af bændum og koma, þeim undir ríkið, en jafnframt er lagt til, að grafnar verði ræturnar undan þessum lánsstofnunum, sem komið var á fót fyrir nokkrum árum sem höfuðstoðum landbúnaðarins. Það er beinlínis lagt til í frv., að teknar verði af ræktunarsjóði þær tekjur, sem hann er stofnaður af, og notaðar til þess að kaupa jarðirnar af bændum handa ríkinu. Það er svo sem ekki verið að fikra við þetta, heldur á umsvifalaust að fullnægja þeirri stefnu, að allir bændur verði gerðir að leiguþjónum þrælavalds sósíalista.

Þetta er ein grimmúðlegasta árás á sjálfstæði landsins að því leyti, sem það byggist á sjálfstæðum landbúnaði; það er árás á sveitabúskapinn. — Að vísu má segja, að ekki sé farið í stórum stíl á stað, en hér er þó verið að grafa ræturnar undan ræktunarsjóðnum, og hálfnað er verk þegar hafið er. Það verður hægra að halda því áfram og leiða það til fullkomnunar. — Að því leyti, sem það er talið nauðsynlegt, að hlaupa undir baggann með þeim bændum, sem ekki hafa getað staðið í skilum við lánsstofnanir um vexti og afborganir af lánum sínum, þá lægi nær, ef nauðsyn rekur til, að gera það með þeim hætti, sem ekki miðar að því að skerða framtíðarmöguleika landbúnaðarins. Og þá t. d. með því að veita þeim styrki eða lán til þess að standa straum af skuldbindingum sínum án þess að skerða eða lama þá taug, sem þeim er dýrmætust — sjálfseignarskipulagið. — Ég býst við, að miðað við þær fjárhæðir, sem ríkissjóður veltir, þá sé hér ekki um svo óskaplegar upphæðir að ræða, er þurfi til að hjálpa bændum að standa straum af lánum sínum, að það geti talizt ókleift. Sem betur fer, þá er það ekki nema á einstökum svæðum á landinu, og þá helzt í þeim héruðum, þar sem harðindin hafa dunið yfir í vetur, að bændur hafa ekki getað staðið straum af skuldbindingum sínum við lánsstofnanir.

Ég verð að segja, að mér þykir það í meira lagi napurt, að einmitt fulltrúar þeirra kjördæma, sem eru á harðindasvæðinu, þar sem bændur hafa orðið harðast fyrir barðinu á óáran í sauðfé og þeim harðindum, er nú ganga yfir, sem hefir valdið bændum svo miklum fóðurbætiskaupum, að þeir þurfa að verja miklum hluta af bústofni sínum til greiðslu á fóðurbætinum — það er napurt, að fulltrúi af þessu svæði skuli nota sér þetta neyðarástand bændanna þar og beita sér fyrir því að vinna þau spellvirki, sem þessu frv. er ætlað að koma fram, en það er að svipta bændur möguleikunum til þess að reka sjálfseignarbúskap á jörðunum. — Það er gott fyrir þá góðu menn, sem hafa valið þennan fulltrúa á þing — ég sný mér aðallega að honum, hv. 2. þm. N.-M. — að hann skuli vera málsvari þessa óþokkaverks hér á Alþingi, því að það er hann, sem mest beitir sér fyrir því. Það er gott fyrir kjósendur hans að minnast þess, hversu giftusamlega þeim tókst, þegar þeir völdu hann sem fulltrúa sinn á Alþingi.

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði þessu máls. Hv. frsm. minni hl. hefir gert það, en ég vil aðeins benda á það, eins og hann gerði líka, að það kemur nokkuð fram í þessu frv., að þeir, sem að því standa, eru hræddir um, að nokkur hætta geti stafað af því, þegar þannig er breytt til um eigendur þessara jarða, því að það sé ef til villl ekki hlaupið að því að byggja þær. Það er sett sem skilyrði fyrir því, að kaup geti orðið, að það sé tryggt, að hægt sé að byggja þær. Þarna er fyrsti óttinn að skjóta upp höfðinu. En það á að fyrirbyggja þetta með frv. Það er líka gert, en ekki af því, að það sé á valdi neinnar löggjafar að fyrirbyggja slíkt. Það er ekki hægt að gera það, því að þótt jörð sé byggð til lífstíðar, eins og geri er ráð fyrir, þá er ákvæði núgildandi ábúðarlaga þannig, að hver ábúandi getur sagt upp ábúð, hvenær sem hann vill; hann þarf aðeins að hafa gert það fyrir jól ár hvert. Ekkert bindur hann við jörðina, þó að eigandi jarðarinnar sé bundinn fyrir langa framtíð gagnvart ábúandanum. Ætli það væri ekki hætta á því,þegar þessar jarðir væru komnar í eign ríkisins, að þær losnuðu árið eftir, og ætli það gæti ekki komið fyrir, að það vantaði ábúanda á jarðirnar? Og hvar er tryggingin þá? Nei, höfuðtryggingin fyrir íslenzkan sveitabúskap er náttúrlega fólgin í því, að hægt sé að reka hann þannig, að hann beri sig, en það gerir hann helzt með því, að jarðirnar séu sem mest í sjálfsábúð. Og þegar þessu er sleppt, þá er, eins og ég sagði áðan, hætt við því, að þegar erfiðleikaástand er og allir eru orðnir leiguliðar, þá verði það ekki lengur sjálfsábúð, sem bindur þá lengur við íslenzkan sveitabúskap. Þetta tryggingaratriði, sem þarna er sett, er því alveg haldlaust; það getur brostið eftir eitt ár.

Ég verð að segja, að það er hastarlegt, að á sama tíma, sem þingið stuðlar að því, að sem flestir í kaupstöðum landsins hafi þak yfir höfuðið, er róið að því öllum árum, að bændur verði sviptir þessum sömu frumskilyrðum. Við sjáum áður en langt um líður, hvað ofan á verður um þetta mál, en eftir því, sem í pottinn er búið, og eftir þeirri reynslu, sem við höfum fengið af uppfyllingu á hverju einstöku atriði samnings þess, sem gerður var á milli Framsfl. og Alþfl. við stjórnarmyndunina, má ganga út frá því sem vísu, að þetta verk verði líka fullkomnað.

Samkvæmt þessu frv. skilst mér, að þeir, sem kynnu að verða til þess að taka þessar jarðir á leigu, ættu að borga 4% af landverði og húsverði á þessum jörðum, og er það 1% hærra en gert er ráð fyrir, að þeir borgi, sem fá jarðir ríkisins byggðar samkvæmt lögum um erfðaábúð og óðalsrétt, en nú skilst mér, að samkvæmt þessu ákvæði gæti vel farið svo, og mundi fara svo í sumum tilfellum, að nokkuð meira hvíli á jörðunum heldur en sem nemur þessu afgjaldi, og yrði þá ríkissjóður vitanlega að greiða mismuninn. En það er það, sem mér virðist heppilegast, eins og ég tók fram áðan, að ríkið rétti fram höndina, eins og það hefir í rauninni gert áður, til íslenzks landbúnaðar og hjálpi bændum, sem ekki geta innt af hendi þessar greiðslur, til þess að gera það í eitt eða tvö ár a. m. k., og sjá svo, hvernig skipast, því að það er engin hjálp í því að þykjast vera að rétta þeim höndina um leið og tekinn er af þeim sterkur möguleiki til þess að komast út úr erfiðleikunum.