21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 959 í B-deild Alþingistíðinda. (1475)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Jón Sigurðsson:

Ég skal ekki fjölyrða um málið að þessu sinni, en samt get ég ekki komizt hjá því að víkja nokkrum orðum að því, vegna þess að þetta er fyrst og fremst merkilegt mál, og svo finnst mér vera um viss, atriði að ræða, sem ekki hafa komið fyllilega fram í þessum umr. Ég ætla ekki að fara út í tölur, eins og hv. frsm. meiri hl. gerði, því að til þess hefi ég ekki nægileg gögn í höndunum. Ég get náttúrlega að svo stöddu ekki sagt um, á hve miklum rökum þessar tölur hv. frsm. eru reistar, en ég verð að segja, að því miður hefir það oft viljað vera svo, að tölur hans hafa reynzt óábyggilegar.

Við þessar umr. komu mér í hug gamlar endurminningar frá því, að ég var krakki. Ég heyrði talað um gamlan bónda, sem notaði sér neyð nágranna síns til þess að sölsa undir sig staðfestu hans. Ég heyrði engan minnast á þetta öðruvísi en með fyrirlitningu. Mér virðist hv. 2. þm. N.-M. fara líkt að eins og þessi bóndi. Nú, þegar bændur eiga við mestu örðugleika að stríða, þá sætir hann lagi til þess að reyna að ná frá þeim því, sem þeim er mörgum dýrmætast í eigu sinni. Og það er ekki svo að skilja, að þetta sé gert af umhyggju fyrir því að reyna að bjarga, sem hv. þm. þykist þó vera að gera, því að hvernig hefir það farið þegar reynt hefir verið að bjarga bændum? Ég man ekki betur en að þessi hv. þm. berðist með hnúum og hnefum á móti frv. um lækkun vaxta af fasteignalánum, sem ætla mætti, að bændur hefðu þó mjög mikla þörf fyrir.

Það væri drengilegra að létta undir með bændum heldur en að reyna að ná frá þeim staðfestu þeirra, á meðan þeir sjá enga aðra leið út úr ógöngunum. Ég tel hv. þm. sæmra að tala ekki mikið um það, að hann ætli að hjálpa bændum.

Hann talaði um það, að margir sjálfstæðismenn, þar á meðal í mínu héraði, vildu selja jarðir sínar. Ég þekki suma þessa menn og veit, af hvaða ástæðum þeir óska að selja jarðir sínar. Það er vegna þess, að þeir eru nú búnir, m. a. vegna framkomu þessa hv. þm., að missa trúna á því, að þeir geti reist rönd við erfiðleikunum, og kjósa þá heldur að láta jarðir sínar fara til þess að geta setið kyrrir, af því að þeir sjá ekki aðra leið út úr ógöngunum. Fyrir öðrum er það þannig, að þeir hugsa sér að losa sig við jarðirnar, og munu því gera það við fyrsta tækifæri. Þeir eru orðnir þreyttir á einyrkjabúskapnum, sem þessi hv. þm. og fleiri lofa hástöfum, og vilja því losna frá honum. Þeir telja sig ekki hafa hag af því að búa.

Það var svo á hv. þm. að heyra, að þeim mönnum væri gert sérstaklega létt undir fæti, sem hlytu þetta hnoss. Þeir, sem leigðu, yrðu þá bústólpar og björg sveitanna, ef svo mætti segja. Að nokkru leyti varð ekki annað skilið en að mikið af vanda sveitanna leystist, ef þetta kæmist í kring. En það vill nú svo vel til. að við höfum haft leiguliðaábúð fyrr en nú. þar sem hið opinbera hefir haft umráð yfir jörðunum, og þær hafa verið byggðar með hinum ákjósanlegustu kjörum. Þær hafa verið byggðar með gamalli ábúðarveitingu, sem ekkert haggast þrátt fyrir verðlagsbreytingar. En hvernig er þá útkoman? Ég vil spyrja hv. þm. að því, hvort þessir menn hafa verið öðrum fremur bústólpar eða staðið í fylkingarbrjósti fyrir þeim umbótum, sem gerðar hafa verið í sveitum landsins. Mér er ekki kunnugt um það. Það getur verið, að hann þekki þess dæmi einhversstaðar á landinu, en í mínu héraði hefir það ekki verið. Ég hygg, að það muni verða svo framvegis, eins og það hefir áður verið, og þó að hv. þm. sé að spá því, að það verði hér á breyt. við þessa nýju lögglöf, þá eru það aðeins gyllingar, sem hv. þm. er að varpa fram. Ég get þess vegna tekið undir það, sem hv. minni hl. landbn. segir, að hér er verið að vinna óhappaverk, sem áreiðanlega verður íslenzkum bændum til tjóns, þegar fram líða stundir.