21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1476)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Pétur Ottesen:

Hv. 2. þm. N.-M. þótti ég hafa lítið lesið af því, sem skrifað hefði verið um landbúnaðarmál. Ég gerði strax þá afsökun, að ég hefði lítið lesið af því, sem hann hefði skrifað, sérstaklega upp á síðkastið, og ég ætla, að þetta eigi ekki eingöngu við mig, þegar miðað er við menn í bændastétt yfirleitt. Það skyldi nú ekki vera af þeim rótum runnið, skrifum hv. 2. þm. N.-M., að í frv. því til breyt. á jarðræktarlögunum, sem útbýtt var í dag, er það gert að skilyrði fyrir jarðræktarstyrk, að menn kaupi það tímarit, sem búnaðarfélag Íslands gefur út og kallað er Freyr. Það skyldi ekki vera svo komið, að skrif hv. þm. væru búin að kippa svo rótunum undan fjárhagslegu sjálfstæði þessa tímarits, að það verði að leggja þessa kvöð á þá, sem fá jarðræktarstyrk, að þeir kaupi þetta tímarit. En menn þurfa náttúrlega ekki að lesa það, eða a. m. k. munu menn hlaupa yfir þær greinar. sem P. Z. stendur undir.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta atriði, og yfirleitt mun ég minnast á fátt eitt af því, sem hv. þm. sagði, því hv. 7. landsk. hefir gert það svo rækilega. En það eru tvö atriði, sem ég ætla að minnast á. Það er ef til vill ekki tilviljun, að nú skuli fyrst lagt til að framkvæma þetta atriði í samningunum milli jafnaðarmanna og framsóknarmanna, og ef það er ekki tilviljun, þá er það sönnun þess, að það hefir ekki þótt fýsilegt að bjóða íslenzkri bændastétt upp á þetta fyrr. En nú þegar harðindi og illt árferði og aðrir erfiðleikar steðja að, þá þykir kominn hinn rétti tíma til þess að sýna bændum framan í þennan ófögnuð. Það eru réttu orsakirnar fyrir því, að þetta atriði í samkomulaginu var ekki framkvæmt á fyrra helmingi sambúðartímabilsins. Þetta hefir verið dregið þangað til núna. Nú þykir fært að setja þessa spennu um háls íslenzkrar bændastéttar. Nú þykir nóg að þeim kreppt til þess að setja þá í þennan gapastokk. Þetta sýnir tilganginn, sem á bak við þetta er.

Hv. þm. talaði um það, að þeir, sem væru á annari skoðun, hefðu hlaupið framhjá einu atriði, og það væri flutningur fjármagnsins úr sveitunum og í kaupstaðina samfara sjálfseignarskipulaginu. Ég hefi bent á það, að grundvöllurinn undir því, að menn geti staðnæmzt í sveitunum, er það, að hægt sé að reka búskapinn þannig, að hann beri sig.

Ég hefi líka sýnt fram á, að sterkur þáttur í því, að þetta geti orðið, þó að fleiri komi þar til greina, er einmitt þetta sjálfsábúðarfyrirkomulag. En er nú girt fyrir það, þó farið sé inn á þá braut að gera alla að leiguliðum í landinu? Hvað verður um þau verðmæti, sem byggð hafa verið upp með íslenzkum sveitabúskap, ef jarðirnar leggjast í eyði og enginn býr á þeim og fólkið, sem þar hefir búið, flytur í burtu? Hvað skapar íslenzkri gróðurmold verðmæti? En ef afleiðingin af þessari breyt. verður sú, að svo og svo mikið af jörðunum leggst í eyði, sem annars mundi haldast í ábúð með því fyrirkomulagi, sem nú er, er þá girt fyrir fjárflóttann í kaupstaðina? Nei, það er ýtt undir hann.