21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (1478)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Jónas Guðmundsson:

Mér þykir það næstu ójafn leikur, sem hér hefir verið leikinn, þar sem hv. 2. þm. N.-M. hefir verið einn til andsvara gegn mörgum ræðumönnum sjálfstæðismanna. Og þar sem ég sé, að hér er ekki viðstaddur sá fulltrúi Alþfl., sem er annar flm. að frv., þá þykir mér, að ekki megi undir höfuð leggjast, að Alþfl. eigi þó eina ræðu í málinu í þingtíðindunum, þar sem sérstaklega hefir verið veitzt að hv. 2. þm. N.-M. fyrir það, að hann flytti þetta mál sem sósíalisti, og að Framsfl. fyrir það, að þetta væri einn af þeim hnútum, sem sósíalistar væru að renna um háls hans, til marks um það, hvað hann væri þeim sérstaklega háður. Ég skal í fáum orðum segja mína skoðun á þessu máli. Ég álít, að þetta frv. sé til þess flutt og til þess ætlað að verða að lögum, að koma til móts við fjöldamargar óskir á undanförnum þingum, eða a. m. k. á þeim þingum, sem ég hefi setið á, sem legið hafa fyrir Alþingi. Á öllum þeim þingum, sem ég hefi verið á, hafa legið fyrir fjvn. margar beiðnir um kaup á jörðum, og það af ýmsum ástæðum, og meira að segja hefir einn þm. úr Sjálfstfl., hv. þm. V.- Sk., farið fram á það. að ég ætla öll þessi þing, að ríkið keypti 3–4 jarðir austur þar, sem liggja undir skemmdum. En hvers vegna? Fyrir tilverknað ríkisvaldsins segir hv. þm., að þessar jarðir liggi undir skemmdum. En ríkisstj. hefir ekkert fé með höndum til þess að kaupa þessar jarðir, og henni er ekki ætlað það. Vel mætti hugsa sér það, að ríkisstj. gæti, ef hún keypti þessar jarðir, komið í veg, fyrir það, að þær skemmdust alveg. En hún hefir ekkert fé í höndum, nema henni sé veitt það í hvert skipti til kaupa á slíkum jörðum. Það liggja nú fyrir fjvn. tilboð um 7–8 stórar jarðeignir hér á Suðurlandsundirlendinu, sem að dómi kunnugra manna gætu vel verið þannig settar, að í framtíðinni mætti stofna þar mikinn og öruggan búskap, en það þarf þá einnig að leita ákveðinnar heimildar í þessu skyni. Þetta hefir verið gert, t. d. þegar sett var í fjárl. heimild til þess að kaupa biskupssetrið gamla, Skálholt. Það var gert þvert ofan í vilja sjálfstæðismanna, og var á ýmsan hátt farið um það mjög óviðurkvæmilegum orðum, bæði í þinginu og utan þings, þó vitanlega sé ekkert sjálfsagðara en það, að ríkið eignist þetta merka og fornfræga höfuðból landsins. Það tíðkast hjá öðrum þjóðum, að slíkir staðir eru í ríkiseign. Það ætti ekki að þurfa að sækja um það til þings á hverjum tíma að kaupa slíka staði. Hér með þessu frv. er ætlazt til, að ríkið kaupi þær jarðir, sem það fær, eftir skynsamlegum reglum, sem settar kunna að verða og settar eru hér í þessu frv. Hinsvegar er það vitanlegt, að stefna okkar sósíalista í þessum málum er sú, að við teljum rétt, að ríkið eða þjóðin eignist sjálf sem mest af jarðeignum í landinu, af því að það er böl, að hver kynslóð þurfi að kaupa jarðirnar af þeirri næstu á undan. Þetta hefir hv. 2. þm. N.-M. greinilega bent á, að það er þetta, sem orsakar marga þá röskun í hvaða þjóðfélagi sem er, og sem gott væri að komast hjá. Ég verð að taka undir með hv. 2. þm. N.-M. um það, að í öllum stjórnmálaflokkum, bæði Sjálfstfl. og Framsfl., þekki ég menn, sem eru þeirrar skoðunar, að það væri réttast, að ríkið ætti allar jarðir. Ég held, að þessi skoðun sé smátt og smátt að ryðja sér til rúms. Ég held, að það sé heppilegast, alveg eins og það er talið heppilegra, að eitt bæjarfélag eigi sjálft það land, sem það þarf að nota, heldur en að einstakir menn eigi það, en sú skoðun er nú orðin svo almenn, að það eru fáir, sem mæla því í gegn. Og þá vinnur líka sú skoðun smátt og smátt fylgi, að það sé betra, að þjóðfélagið sem heild eigi allar jarðeignir, og þeim sé á hverjum tíma skipt eins og atvinnuhættir hvers tíma krefjast. Þetta er skoðun okkar alþýðuflokksmanna sem stjórnmálaflokks, og þessi skoðun ryður sér óðfluga til rúms í öllum stjórnmálaflokkum. Ég er sannfærður um, þó að kannske enginn þm. Sjálfstfl. hafi þessa skoðun eða vilji kannast við hana opinberlega, því er ég sannfærður um, að allir hv. þm. Sjálfstæðisfl. þekkja persónulega í sínum flokki einhverja, sem hafa þessa skoðun. Hv. þm. G.-K. talaði hér áðan, og hann sagði þá, að sterkasti þátturinn í lífi bændastéttarinnar væri sjálfseignarhvötin, og sveitabúskapurinn hlyti að byggjast á henni fyrst og fremst. Það kann vel að vera, að hann líti svo á, en ég er ekki þeirrar skoðunar. Ég er ekki þeirrar skoðunar, að það sé sterkasta hvöt bóndans, að hann eigi sjálfur jörðina, heldur sé það sterkasta hvöt hvers bónda, að hann geti í þeim atvinnurekstri haft sem bezta tryggingu fyrir sem beztri og öruggastri afkomu sinni og sinna, hvort sem hann á sjálfur fyrirtækið, sem hann hefir með höndum, eða jörðina, sem hann býr á, eða einhver annar á það, ef hann einungis getur notað afraksturinn af því. Ég álít, að sú bezta trygging, sem þjóðfélagið geti gefið þegnum sínum á hverjum tíma, sé öryggi fyrir afkomu hvers eins. En það er ekki nálægt því alltaf, að það fáist með því að vera sjálfseignarbóndi eða eiga sjálfur fyrirtækið, sem maður stjórnar. Ef svo væri, hvers vegna mundu þá svo margir sækjast eftir lágt launuðum föstum störfum? Það er af því að í fasta starfinu finna menn dálítið öryggi. (PHalld: Sósíalistar eru búnir að gera alla að skepnum). Menn hafa gert þetta frá öndverðu. Löngu áður en sósialistar komu, voru embættismannastörfin eftirsóttustu stöður þjóðfélagsins. Svona er það, að þetta er lífsins lögmál, að þegar menn finna öryggið í einhverjum hlut. vilja menn það heldur en eiga að nafninu til stórar jarðir. Menn finna, að í því er ekkert öryggi; það getur brugðizt til leggja vona. Hv. þm. Borgf. hefir sagt, að við viljum með þessu herða hnútinn að hálsi bænda. Mér hefir nú sýnzt, síðan þessir tveir rauðu flokkar tóku við völdum í þessu landi, þá hafi þeir gert allt annað en að herða hnútana að hálsi bænda. Ég veit ekki til, að nokkurntíma hafi verið eins mikið veitt til bænda eins og nú, og aldrei hefir verið veitt eins mikið fé til þess að gera tilraunir með að auka afurðasölu bænda og tryggja hana á allan hátt.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins heimild fyrir ríkisstj. til þess að geta komið til móts við þær óskir, sem á hverjum tíma berast frá bændastétt landsins um, að ríkið kaupi jarðirnar, sem þeir á einn eða annan hátt geta ekki haldið, en vilja gjarnan búa á áfram, en yrðu að missa þær að öðrum kosti.