21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (1481)

99. mál, jarðakaup ríkisins

Frsm. minni hl. (Jón Pálmason):

Ég hafði helzt ekki ætlað mér að taka aftur til máls, vegna þess að mér ofbauð, að samherjar hv. 2. þm. N.-M. skyldu láta hann einan um að verja jafnóvinsælt mál og hér er til umr. En hv. 6. landsk. mun hafa runnið til rifja einstæðingsskapur hv. flm. og hefir nú tekið sig til og snúizt á sveif með honum. Og það var í tilefni af nokkrum atriðum, sem hv. 6. landsk. minntist á, sem ég kvaddi mér hljóðs, og skal ég nú víkja að þeim nokkru nánar.

Þau rök, sem hv. 6. landsk. taldi mæla sterkast með því, að heppilegast væri, að ríkið ætti allar jarðirnar, voru, að þá væri hægt að skipta þeim á hverjum tíma eftir því sem hentugast þætti. Hér kemur einmitt mjög skýrt fram það, sem vakað hefir fyrir sósíalistum, og mun eiga eftir að koma betur fram, að þegar svo er komið, standa menn varnarlausir gegn ríkisvaldinu, sem getur skipt jörðunum eftir því, sem því þóknast á hverjum tíma og einnig breytt umráðaréttinum eins og því þóknast. Þetta er líka grundvallarpunkturinn í þeirri stefnu, sem stendur að frv. En frá mínu sjónarmiði er ekki heppilegt að stefna að því að útrýma sjálfseignarbændum úr okkar landi. En með þessu frv. er stefnt að því að girða fyrir, að bændur geti orðið sjálfstæðir og óháðir ríkisvaldinu og gerðum þess á hverjum tíma.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði í síðari ræðu sinni, að það hefði verið ósamræmi í rökum hjá mér og hv. þm. Borgf.

Hv. þm. Borgf. sagði, að ástæðan fyrir því, hvað ástandið í sveitunum væri nú slæmt, væri að kenna sjúkdómum í búfénaði og harðindum, en ég sagði, að þar væri um að kenna misbeitingu ríkisvaldsins. En hér er ekki um neitt ósamræmi að ræða. Höfuðástæðan fyrir því, hvernig komið er fyrir landbúnaðinum, er sú, að vegna misbeitingar ríkisvaldsins stóðu búin varnarlaus gegn þeim áföllum, sem hv. þm. Borgf. taldi upp. Ríkisvaldinu hefir sem sé verið beitt þannig, að fólkið hefir flúið sveitirnar meira en nokkru sinni áður, og fólkið, sem eftir stendur, er varnarlaust, ef nokkuð út af ber. En það þarf lengra mál en ég vil eyða nú til þess að sanna, að þessu er í raun og veru svo varið.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði um, að hver kynslóð þyrfti að kaupa jarðirnar, þá er það því aðeins rétt, að svo mikil viðskiptakreppa sé, að jarðirnar séu að öllu leyti í skuld. En þessi kenning er algerlega röng, ef svo skipast aftur, eins og var á tímabili, að bændur eignuðust meiri eða minni hl. í jörðum sínum, sem svo gekk að erfðum til næsta viðtakanda. Og ef svo gengi í nokkra liði, er alveg rangt, að hver kynslóð þurfi að kaupa af annari. Þá er athugandi í þessu sambandi það, sem hv. 2. þm. N.-M. hélt fram, að landverð allra jarða á landinu, sem þessum lögum er ætlað að ná til, væri 15 millj. kr. og húsaverð aðrar 15 millj. kr., eða samtals 30 millj. kr., sem hver kynslóð þyrfti að borga. Hér er atriði, sem vert er að athuga. Hvernig er varið getu ríkissjóðs til þess að kaupa allar þessar eignir? Ég sé ekki, að þetta geti orðið á annan hátt en þann að auka skuldir ríkissjóðs smátt og smátt um sömu upphæð.

Þá er annað atriði, sem æskilegt væri, að hv. þm. gerði grein fyrir. Það er, hvernig er um getu kaupstaðanna til þess að taka á móti því fólki, sem stöðugt flýr sveitirnar, þar sem auðséð er, að með þessari stefnu muni sá straumur aukast. Ég benti um daginn á, að á síðustu 9 árum hefði a. m. k. 10 þús. manns flutt úr sveitunum til kaupstaða og kauptúna, og að þar væri ekki sú þörf fyrir það, að vinna þess kæmi að því gagni, sem varaði tapi sveitanna. Allt ber þetta að sama marki, að ekki gengur lengur, nema komið sé á samræmi milli afurðaverðs og vinnu. Það er alveg rétt, sem hv. 6. landsk. sagði, að um hverja launastöðu sækir fjöldi manna. Þetta er vitanlega vegna þess ósamræmis, sem er á tekjum þess, sem framleiðir, og þess, sem er á föstum launum. Og á þennan hátt, að hafa launastöðurnar miklu glæsilegri en framleiðsluna, er fólkið beinlínis ginnt frá framleiðslunni, og það svo gífurleg, að þjóðfélaginu er voði búinn, ef svo heldur áfram sem undanfarandi ár.

Að því er snertir styrki þá, sem hv. þm. var að tal, um, er því til að svara, að það dugir engin styrkjapólitík, ef grundvöllurinn er ekki réttur. Sú úrlausn er því stefna í öfuga átt.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að landbúnaðinum yrði ekki bjargaðs með nýjum lánum, heldur þyrfti að létta lánunum af. En hvað var verið að gera með kreppulánasjóðnum? Var ekki verið að létta lánum af? En allar þær ráðstafanir dugðu ekki af þeim orsökum, sem ég hefi áður vikið að, að það er annað, sem hefir dregið atvinnuveginn niður. Það duga engin lán og engin styrkjapólitík, ef eins á að ginna menn inn í launastöðurnar og gert hefir verið.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að ef sú hugsun bænda, að vilja eignast jarðirnar, væri eingöngu bundin við von um hag af verðhækkun, þá mundi hann aðeins blása á þá hugsun. Þess vegna vill hann koma þessari hugsjón sinni fram nú, meðan kreppan stendur sem hæst. Því þó jarðir séu nú í svo lágu verði, að allar umbætur séu eigendum þeirra tapaðar vegna verðfalls, er ekki loku fyrir skotið, að búskapur blómgist svo, að bændur fái laun fyrir sína vinnu og sínar umbætur. Þá geta komið þeir tímar, að margur sæi eftir að hafa ginið við þeirri flugu, sem hér er verið að renna fyrir þá.

Ég ætla ekki að taka fleiri atriði, eða fara út fyrir það mál, sem hér er um að ræða, þó hv. 6. landsk. gæfi ástæðu til þess, því ætti að fara að ræða hér um þau atriði, sem hann minntist á, mundi það endast í alla nótt, og jafnvel morgundaginn líka.