21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 976 í B-deild Alþingistíðinda. (1484)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Pétur Ottesen:

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál, sem fyrir liggur, en vil beina því til hæstv. forseta, þar sem klukkan er nú alllangt gengin í eitt, og menn, sem kvatt hafa sér hljóðs, einn eða fleiri, horfnir af fundi og þykjast búnir að vinna lögskil hvað dagsverkið snertir — að hæstv. forseti vilji unna þeim þess réttar, sem þeir hafa til að ræða málin á björtum degi, og meini þeim ekki að tala máli sínu að löglegum hætti. Hafa nú komið fram skoðanir á þessu máli frá þrem flokkum þingsins, öllum nema einum — (Fjmrh.: Þeim, sem minnstur er). Já, þeim sem minnstur er, en engin ástæða virðist vera til að meina honum þess vegna að koma fram með sínar skoðanir.