07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

1. mál, fjárlög 1937

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi flutt hér viðaukatill. við brtt. okkar hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. Ég geri þetta ekki af því, að ég álíti þess þörf í sjálfu sér, heldur til þess að hæstv. fjmrh. geti ekki skotið sér undan að greiða atkvæði með því yfirvarpi, að till. sé ekki nógu ljóst orðuð. Hann sagði í ræðu sinni, að hann líti svo á, að ef till. okkar væri samþ. óbreytt, ætti ríkissjóður að taka ábyrgð á fiskverzluninni að öllu leyti, bæði vanskilum kaupenda og skemmdum, sem fram kynnu að koma í fiskinum. Þetta er auðvitað ekki annað en fjarstæða, sem ekki kemur til greina, þar sem S. Í. F. selur aldrei fisk, nema gegn söluskírteini. Að vísu gæti hugsazt, að um skaða af skemmdum gæti verið að ræða, sem vátryggingarfélögin vildu ekki bæta, en slíkt kemur mjög sjaldan fyrir, og hefir alls ekki borið við hin síðari ár. Í sjálfu sér er því óþarft að bæta við brtt. okkar, þótt ég geri það til þess, að hæstv. fjmrh. geti sætt sig við orðalag hennar.

Það, sem hér er farið fram á, er ekki stórvægilegt, ef það er borið saman við það, sem aðrar þjóðir, t. d. Norðmenn, gera fyrir sína fiskverzlun. Hér hefir hið opinbera haft þau afskipti ein af fiskútflytjendum að taka af þeim allan erlendan gjaldeyri og greiða hann með miklu lægra verði en þeir hefðu fengið, ef gjaldeyririnn hefði verið frjáls. Auk þess er hér mjög hátt og tilfinnanlegt útflutningsgjald á sjávarafurðum. En í Noregi hafa nú þegar verið lagðar fram milljónir króna af hálfu hins opinbera til að bæta upp aflaleysið í vetur, enda þótt það hafi verið miklu minna við Noreg heldur en hér við land.

Það hafa verið veitt þar og í Danmörku lán til skipakaupa gegn 3–4½% vöxtum, en hér verðum við að greiða 6½–8% vexti, þegar við fáum lán til að kaupa skip. Þar er ekki útflutningsgjald af fiski, eða sama sem ekkert; í Noregi sem svarar 50 aurum á skippund. Þetta eru þau kjör annarsvegar, sem norskir saltfiskframleiðendur eiga við að búa, og hinsvegar þau kjör, sem við bjóðum saltfiskframleiðendum hér. Ofan á þetta á svo að bæta því, að þeir, vegna ráðstafana, sem ekki eru viðráðanlegar og ekki eru gerðar af stjórnarvöldunum hér, taki á sig öll þau óþægindi, sem við höfum orðið að sætta okkur við á erlendum markaði. Fiskútflytjendur í Noregi fengu 90% af andvirði fiskjarins strax útborgað. Við á Vesturlandi höfum síðan í haust flutt út 19000 pakka af verkuðum fiski til Ítalíu, og við höfum ekki fengið einn eyri greiddan af andvirði þessa fiskjar; við eigum þess vegna á hættu gengissveiflur á þessu fé, og þessa áhættu getur ríkið tekið að sér að skaðlausu. Og er það forsvaranlegt að láta þessa áhættu lenda á. útgerðarmönnum, eins og þeir eru píndir og þjakaðir á undanförnum árum?

Ég hefi bent á það, að þeir, sem afla fiskjarins, hlutamenn og útvegsmenn, fá engan eyri greiddan fyrir sitt framlag og sína vinnu, þótt greidd séu 75% af andvirðinu, vegna þess að af Labradorfiski fara þessi 75% í salt, olíu, beitu, verkun, umbúðir og tolla og önnur útgjöld, og sjómenn og útgerðarmenn geta ekki fengið nokkurn eyri greiddan fyrr en komið er yfir þennan hluta verðsins. Það er þess vegna sama að taka ábyrgð á 75% og að taka ábyrgð á þeim hluta, sem bankarnir lána til útgerðarinnar. Hinir, sem hafa aflað fiskjarins, verða að biða ár eða lengur eftir greiðslunni, ef ekki er tekin ábyrgð á þeirra hluta. Ég ætla ekki að fara lengra inn á þetta atriði nú, ég mun gera það í sambandi við till. þá, sem hér er á dagskrá.

Ég verð að segja, að það er hörmulegur misskilningur á afstöðu löggjafarvaldsins til þessara mála, ef það á að láta sitja við slíka till., þegar það er sýnt, hvernig afkoma er nú hjá sjómönnum. Allur þorri sjómanna á Vesturlandi hefir ekki fengið meira en fæði og hlífðarföt, og má segja, að nú sé lítil von að fá meira, þótt aflinn seljist, en hvorki fæði né hlífðarföt geta þeir greitt, nema þeir fái verð fyrir aflann. Ég er sannfærður um, að ekki er hægt að komast af með minni hjálp en hér er farið fram á, og væri betur, ef hægt er að komast af með þessa hjálp, sem á engan hátt er til útgjalda fyrir ríkissjóð. Ég þykist sjá, að ekki verði komizt hjá að styrkja sjávarútveginn með beinum fjárframlögum á næsta þingi, jafnvel þótt afli bregðist ekki eins á næsta ári eins og nú á þessu ári. Ég verð að segja, að það er hörmuleg ráðstöfun á fé ríkissjóðs, ef ekki er hægt að taka þessa hættu af útgerðarmönnum og sjómönnum, en samþykkja samt 16 millj. króna fjárlög.