05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Hv. frsm. endaði ræðu sína á því, að ekki mundi þörf að ræða þetta mál meira, því að menn mundu ekki skipta um skoðun. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé rétt, og býst við, að svo fastbundnar séu nú þessar svokölluðu skoðanir stjórnarflokkanna, að þar verði ekki um þokað.

En ég get ekki orða bundizt, því ég býst við, ef frv. þetta verður samþ. og því verður fylgt fram, að þá muni komu straumskipti í íslenzkan landbúnað.

Það hefir verið álitið og því hefir verið fram haldið og ekki verið hrakið með rökum, þó að einstaka menn hafi maldað í móinn, að jarðir í sjálfsábúð séu betur setnar en leigujarðir. Ég geri líka ráð fyrir því, að þó að ríkið eigi jarðirnar, þá muni ekki verða meira framkvæmt, og með því líka að frv. það, sem lagt var hér fyrir hv. d. í dag, um jarðræktarlög, kippir fótunum undan þeim styrk, sem ábúendur á ríkissjóðs- eða kirkjujörðum eiga að hafa.

Sannast að segja býst ég við því, að þeir bændur, sem eru leiguliðar, eða vona að geta orðið það, leggi lítið í jarðirnar, fari hægara í húsabyggingar og aðrar framkvæmdir eða umbætur, en reyni að koma því til hæstv. ríkisstj., og hóti svo að fara, eða ríkið verði að byggja, og þvinga þannig sinn landsdrottin, ríkið, því að samkv. ábúðarlöggjöfinni er landsdrottni skylt að leggja til allt aðkeypt efni. Mun því við þetta koma mikill afturkippur í landbúnaðinn og verða ýtt undir straumkastið til kaupstaðanna. Þó að það hafi heldur rénað nú í bili, þá er nú heldur alið á því. Þeir, sem ekki vilja búa lengur og ekki geta selt, þeir sjá nú, hvernig þeir eiga að losna. Hér í gamla daga, þegar fólk streymdi til Ameríku, þá var viðkvæðið: „Ég er ekkert að berjast þetta lengur, nú fer ég bara til Ameríku“. Og alveg það sama verður nú viðkvæðið: „Ég er ekkert að berjast þetta lengur, nú sel ég bara ríkinu og fer til kaupstaðanna.“

Hv. frsm. sagði, að fjöldi bænda um allt land mundi fagna yfir þessu frv. Ég held, að það sé einmitt það gagnstæða, og ég vil satt að segja halda því fram, að ekki muni aðrir fagna en þeir, sem gera sér vonir um að losna við jarðirnar til ríkisstj. með góðum kjörum, en það eru nú ekki allir svo heppnir.

Ég tel, að frv. þetta gangi mjög í ranga átt, og væri sæmilegast, að bæði þetta mál og frv. til jarðræktarlaganna færu í eina og sömu gröf.