05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

99. mál, jarðakaup ríkisins

*Jónas Jónsson:

Ég vildi leiðrétta þann misskilning, sem hv. síðasti ræðumaður virtist hafa á því, hvað okkur framsóknarmönnum gengur til með frv. þessu. Það er alls ekki almenn löngun til, að ríkið kaupi jarðirnar, heldur er það sama, sem rekur á eftir þessu, og rak á eftir kreppulánusjóði. Það er þetta ákveðna spursmál, sem ég vildi, að hv. þm. Dal., sem er góður og gegn maður á ýmsa lund, kynni skil á, hvernig ætti að leysa úr.

Það er svo í einni sýslu, sem hefir orðið hart úti m. a. vegna harðindanna — skiptir ekki máli í þessu sambandi, hver hún er — að þar eru 600 menn, sem eiga það á hættu að missa jarðir sínar til kreppulánasjóðs. Þessi sýsla hefir orðið fyrir því óhappi að fá 2 vond sumur hvert á fætur öðru, og síðan nú aftakaharðan vetur og þar af leiðandi óvenjumikil fóðurbætiskaup, og er ég hræddur um, að þarna séu á annað hundrað bændur, sem liggur við borð, að tapi öllu sínu, þ. e. jörðum sínum, í kreppulánajóð. Ég veit það, af því að fjöldi bænda víðsvegar af landinu hefir skrifað mér, að vísu ekki úr Dalasýslu, að þeir eru margir, sem óttast um, að jarðir þeirra verði seldar. Kreppulánasjóður getur ekki annað eftir sínum lögum en selt jarðirnar, og það þarf ekki eins mikinn búmann og hv. þm. Dal. er til að sjá það, að ef boðnar eru fram í einni sýslu á annað hundrað jarðir, þá munu ekki vera margir til að kaupa. Náttúrlega mundu beztu jarðirnar fara fyrir slikk. Liggur beint við, að peningamenn í kaupstöðunum leggi peninga í slíkar jarðir, og á þann gætu myndazt stór „góss“. Er það vitanlega betra en ekki neitt fyrir kreppulánasjóð, að fá þá peninga, ef það tækist þannig til, en hitt verður að harma, ef svo færi fyrir bændum.

Við lítum því svo á, að einhverja uppbót verði að gera á kreppulánasjóði. Það hafa fundizt ýmsir gallar á framkvæmd þeirra laga. en ég skal ekki fara út í það hér nú. En ég er viss um, að hv. þm. Dal. sér það, ef hann athugar þetta mál betur, að þeim dugandi mönnum, sem neyddir eru til að selja og verið er að flæma burtu frá jörðunum, er það betra, að ríkið kaupi jarðir þeirra og þeir geti síðan fengið þær á erfðafestu.

Ég skil ekki, að hv. þm. sé búinn að gleyma þeim l., sem sett hafa verið í hans þingmannstíð um óðalsrétt og erfðaábúð. Er vitanlegt, að eftir ábúðarlögunum, sem nú gilda, eiga menn erfðafesturétt á ábýlisjörðum sínum, er þeir leigja af ríkinu. Það er rétt hjá hv. þm. Dal., að kirkjujarðasjóði veitist fullerfitt að standa undir þeim kröfum, sem gerðar eru af prestssetrunum um byggingar, og þess vegna er erfitt fyrir ríkissjóð að eiga jarðirnar. Þetta er reynt að fyrirbyggja með þeim ákvæðum í erfðafestulögunum, að ættirnar geti fengið jörðina byggða, þannig að börn taki við af föður. Með þessu er reynt að nota hina sterku hlið sjálfsábúðarinnar og fá ættirnar til að leggja fé sitt í jarðirnar, án þess að ættin þurfi að svara vöxtum af því. Þess vegna, ef að því kemur, að ágallar reynist á þessum lögum, þá er alveg sama, hvaða flokkar ráða, að þeir verða að reyna að koma því í það horf, að ættirnar verði ánægðar.

Ég held því, að það geti ekki verið deilumál, að við framsóknarmenn erum ekki fíknir eftir því að veiða jarðir undan bændum í eigu ríkisins, og þó frv. þetta nái fram að ganga, er það ekki til þess, að jarðirnar verði ríkiseign, heldur þvert á móti til að ná því takmarki að hjálpa duglegum, en fátækum bændum, sem eru að tapa jörðum sínum.

Ég hefi áður sagt það, að ég áliti, ef frv. þetta verður að lögum, þá ætti að beita ýtrustu íhaldssemi við framkvæmd þeirra, og ekki kaupa aðrar jarðir en þær, sem ábúendur eru duglegir menn og mundu flæmast frá að öðrum kosti.

Þá hafa sumir hneykslazt á því, að ekki á að sælast eftir að gefa mikið fyrir jarðirnar, og halda því fram, að það sé ólán, ef jarðirnar séu ekki í háu verði, og m. a. hefir einn maður úr mínu kjördæmi skrifað um það nýlega, en það, sem liggur á bak við ábúðarlöggjöfina og þetta frv., er að bæta aðstöðuna til að búa á jörðunum, en það verður sízt, ef verð þeirra er hátt.

Ég ætla að taka eina jörð í Eyjafirði t. d.; ég geri það ekki af neinni glettni við neinn einstakan þm., heldur sem dæmi aðeins. (MG: Er það Hrafnagilið?). Já. Það er Hrafnagilið. Sú jörð var einu sinni seld á 4–5 þús. kr., en nokkrum árum seinna er hún seld á 40 þús. kr. Sá maður, sem keypti jörðina þá, er duglegur bóndi, og hann er búinn að leggja í jörðina h. u. b. jafnmikla upphæð í byggingar og aðrar umbætur. Þegar Jónas sál. Jónasson yfirgaf jörðina, var hún virt á 4–5 þús. En hvers virði er hún nú fyrir börn þess manns, sem búinn er að leggja í hana um 80 þús. kr.? Þetta er í sjálfu sér lagleg jörð og vel byggð, en það er trúa mín, að hún muni tæpast svara vöxtum af meira en sem svarar 20 þús. kr., og eru það þá 60 þús. kr., sem ættin er búin að leggja í jörðina, en hún svarar ekki rentum af. Þetta er hið stóra spursmál bændastéttarinnar, sem hefir verið reynt að leysa af öllum þingflokkum með lögunum um erfðaábúð og óðalsrétt, þ. e. að tryggja sjálfsábúð þeirra, sem það geta, og í öðru lagi, að þeir, sem ekki geta keypt sér jörð, en taka nýbýli eða aðra leigujörð, séu líka tryggir um sína ábúð.

Þess vegna er áreiðanlegt, að hv. þm. Dal. áttar sig á því, að þessi 2 mál styðja hvort annað, og að þetta mál hefir mjög sterkt fylgi vegna þess augnabliksástands, sem ríkir, að margir bændur eru að missa jörð sína undir hamarinn.

Vitanlega dettur engum í hug, að ríkið kaupi allar jarðirnar, og ég þykist vita, að of fáum verði bjargað, en það á að hjálpa þeim duglegustu. Hitt er misskilningur hjá hv. þm. Dal., að fyrir okkur vaki skipulagsbundin herferð á hendur bændum, og er það sýnt með afstöðu okkar til óðalsréttar og erfðaábúðar, en það, sem hefir gert okkur hneigða til þess, að ríkið kaupi jarðirnar, er hinn mikli samdráttur bændastéttarinnar og erfiðleikar á því að halda jörðunum í ættunum, þegar búið er að gera miklar umbætur á þeim.

Ég skal bara nefna tvær jarðir, aðra á Suðurlandi, en hina á Norðurlandi. Það eru höfuðbólin Selalækur í Rangárvallasýslu og Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu. Þegar ég var drengur, þá var talað um Sigurjón á Laxamýri sem efnaðan og sterkan sjálfseignarbónda, en niðurstaðan varð sú, að jörðin var of dýr fyrir ættina, og síðast var hún seld fyrir 90 þús. kr. Björn Sigurjóns réðu ekki við hana, og líkur eru til, að kaupandinn muni ekki heldur ráða við hana. — Sama er að segja um Selalækinn. Hann var bættur mjög mikið, og varð svo dýr, að ættin réð ekki við hann, og síðan hafa orðið einlæg eigendaskipti. Þetta ættu þeir menn að skilja, sem þekkja til í sveitum og eins og hv. þm. Dal. vilja í raun og veru auka sjálfstæði bændanna, og ættu þess vegna að sjá, að þetta þrennt, óðalsréttur, erfðaábúð og þetta frv., styðja í rauninni að því sama og binda ættirnar fastar við jarðirnar og þar með vaxandi hl. fólksins í sveitunum, en þetta hefir aldrei tekizt hjá okkur. Norðmönnum hefir tekizt þetta. en hjá okkur er það undantekning, ef jörðin helzt í sömu ætt 100 ár eða svo, en í bændalandi eins og okkar, ætti sama jörðin að vera mörg hundruð ár í eign sömu ættarinnar.