07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

1. mál, fjárlög 1937

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. flm.till. XLVII á þskj. 519 um ábyrgð á söluandvirði fiskjar, sem seldur er til þeirra landa, sem ekki leyfa frjálsa greiðslu og yfirfærslu í sterlingspundum á andvirði fiskjarins við móttöku, hafa nú allir tekið til máls út af þeim andmælum, sem ég hreyfði gegn þessari till. Ég ætla ekki að fara langt út í málið nú. Það eru svo sárafáir hv. þm. viðstaddir, að það má segja, að umræður hafi enga þýðingu eins og nú stendur.

Hv. 6. þm. Reykv. tók því með nokkru offorsi, sem ég hafði talað gagnvart till., rétt eins og það væri hrein goðgá að tala nokkuð á móti henni. Hann sagði, að það væri á misskilningi byggt, að farið væri fram á aðra ábyrgð en gagnvart gengisfalli eða yfirfærsluvandræðum, vegna þess að fiskurinn væri aldrei seldur, nema gegn greiðslu við móttöku. Það mun vera rétt hjá hv. þm., að það hafi verið venja hjá S. Í. F. að afhenda ekki fiskinn, nema gegn greiðslu við móttöku, en þó munu hafa verið dæmi til þess — og ég veit um dæmi til þess — að út af þessu hefir verið brugðið. En jafnvel þótt þetta hefði verið föst venja, hvaða sönnun er það fyrir því, að þeirri venju yrði haldið, á meðan þetta ákvæði væri í gildi? Í till. er ekkert,

sem segir, að fiskurinn verði ekki seldur, nema hann sé greiddur þegar í stað. Ég er ekkert að efast um, að S. Í. F. mundi reyna eftir mætti að halda sér við þá venju, en það er alls ekki víst, að það yrði hægt, og gæti vel komið fyrir, að út af þeirri reglu yrði brugðið. Í till. er engin trygging fyrir, að það yrði ekki gert.

Hv. þm. Vestm. var miklu hógværari, enda er hann miklu kunnugri þessum málum og þeim erfiðleikum, sem eru á að koma á „clearing“–viðskiptum milli landa. Hann viðurkenndi það sem neyðarúrræði, að ríkið tæki á sig ábyrgðir í sambandi við þessi viðskipti. Hann benti á, hvort ekki mundi vera hægt að fara aðrar leiðir. Ég sé ekki ástæðu til að ræða um það nú; það mætti teljast sama og tala yfir tómum stólunum, og gætum við eins talað um það tveir einir. Ég segi þetta ekki til þess að gera lítið úr þeim sem eru hér viðstaddir, heldur eingöngu af því, hve sáralítill hluti hv. þm. er hér til að hlusta á þessar umr.

En ég skal geta þess um till. hans, að ég hefi margoft hugsað um, hvort ekki væri hægt að bjarga þessu máli á þann hátt, en aðalhængurinn á þessu er, hve innflytjendur eru margir og smáir, og ríkisstjórnin hefir ekki ennþá viljað grípa til þeirra úrræða að fækka innflytjendum frá þessum löndum sem hafa „clearing“-viðskipti, en við höfum lagt áherzlu á að flýta viðskiptum sem mest t. d. frá Ítalíu, til þess að eigendur þess fiskjar, sem þangað hefir verið seldur, þyrftu sem minnst að bíða eftir andvirðinu, og vitanlega gerum við allt, sem í okkar valdi stendur til þess að ýta undir, að leyfin séu notuð svo fljótt sem unnt er, margir innflytjendur eru peningalitlir og tregir til að kaupa vöruna fyrr en þeir hafa nauðsyn á henni til sölu.

Hv. þm. N.-Ísf. vildi ekki taka þá sömu afstöðu sem hv. 6. þm. Reykv. tók, að í till. fælist ekkert annað en ábyrgð gegn gengislækkun, heldur viðurkennir hann að þar geti einnig komið til greina vangreiðslur af hálfu kaupenda og skemmdir á vöru, og til þess að gera till. aðgengilegri fyrir mig, þá flytur hann nú brtt. um, að þetta nái ekki til vangreiðslu eða skaðabóta vegna skemmda á vörunni.

Ég vil benda hv. þm. N.-Ísf. á það, að þetta sýnir, að hann hefir ekki gagnhugsað málið áður en hann flutti till., og þessi upptalning er ekki tæmandi, því það getur fleira komið til greina heldur en gengistap og yfirfærsluerfiðleikar, þrátt fyrir þessa till. T. d. hefir það komið fyrir að fyrir handvömm við samningsgerð hefir viðtakandi neitað að taka við farmi, þegar á staðinn hefir komið, og fleira gæti komið til greina, sem mundi heyra undir þessa ábyrgð, þrátt fyrir það, þótt þessi ákvæði væru sett. Það er þess vegna ekkert annað fullnægjandi en að till. sé orðuð upp svo ábyrgðin nái aðeins til þeirrar upphæðar, sem greidd er fyrir fiskinn af kaupanda hans í þess lands mynt, sem salan fer fram í. Á þann eina hátt er það tryggt, að ábyrgðin nái ekki til annars en gengisfalls og yfirfærsluvandræða. En til þess að gera nú málið einfaldara, vil ég lýsa því yfir að þótt till. væri breytt á þennan hátt, gæti ég ekki fylgt því, að þessi ábyrgð væri tekin að fullu, og hvergi nema á Ítalíu, eins og till. stjórnarinnar ber með sér. Ef gengið væri inn á þá leið að ábyrgjast að fullu gegn gengissveiflum og yfirfærsluvandræðum, þá mundi það draga úr áhuga fyrir því að selja fisk annarsstaðar, þar sem þó væri hægt að fá hann greiddan í frjálsri valútu, og mundi þess vegna verða óeðlilegu mikil ásókn að selja til þeirra landa, sem ekki leyfa frjálsa greiðslu. Fleira kemur til greina, en ég hirði ekki um að geta um það nú, og kem væntanlega að því þegar þáltill. kemur til umræðu.

Hv. þm. N.-Ísf. vildi bera okkur saman við Norðmenn og sagði, að ólíkt betur væri búið að sjómönnunum þar en hér. Það getur verið, að þetta sé rétt, en ég vil benda hv. þm. á það, að aðstaða okkar gagnvart sjávarútveginum er ólík aðstöðu Norðmanna.

Hjá Norðmönnum er sjávarútvegurinn lítill þáttur í framleiðslu þjóðarinnar, og þess vegna hægra um vik fyrir þá að gera honum nokkra úrlausn heldur en fyrir okkur, þar sem útvegurinn er svo mikill þáttur í framleiðslu þjóðarinnar, að ríkissjóði er það algerlega um megn að gera honum sömu skil eins og Norðmenn geta gert sér að meinfangalausu. En fyrst farið er að tala um Noreg, vil ég benda hv. þm. á það, að í Noregi er þessu atriði hagað þannig, að ábyrgðin er aðeins 75% af andvirði fiskjar, sem er innifrosið á Spáni, eins og talað er um í till. stj., en 90% af því sem er í Ítalíu, en hvergi 100%, eins og hv. þm. N.-Ísf. taldi eðlilegt og nauðsynlegt, og ástæðan til þess, að ábyrgðin er höfð fyrir 90% af því, sem innifrosið er á Ítalíu, er sú að Norðmönnum er bannað að kaupa vörur frá Ítalíu vegna refsiaðgerðanna, og þess vegna er ábyrgðarprósentan höfð hærri þar. En aðstaða þeirra á Spáni er ekki ólík aðstöðu okkar á Ítalíu, og þar þótti þeim sanngjarnt að halda, sér við 75%.

Ég geri ráð fyrir að ég hafi ekki minni áhuga á því heldur en hv. þm. N.-Ísf. að greiða fyrir fisksölumálunum, og kjósendum mínum er það eins mikið hagsmunamál eins og kjósendum hans, en sá er munur á afstöðu okkar, að ég tek tillit til þess, hvað er framkvæmanlegt, og vil ekki, að ríkissjóður taki á sig alla þessa ábyrgð, þótt ég vilji, að hlaupið sé undir bagga þar, sem er eins ástatt og á Ítalíu. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál.