07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

1. mál, fjárlög 1937

*Jakob Möller:

Ég hefi að segja má á elleftu stundu leyft mér að bera hér fram brtt. um heimild fyrir ríkisstjórnina til að taka ábyrgð á 3½ milljón króna láni fyrir Reykjavíkurbæ til þess að koma upp hitaveitu, og er gert ráð fyrir, að eitthvað af því láni yrði að vera erlent fé, vegna þess að óhjákvæmilegt er að kaupa erlenda vöru til þessa verks, og yrði þá að sjálfsögðu að fá erlent lán til þess að greiða þá vöru.

Ég býst ekki við, að það hafi mikla þýðingu að halda langa ræðu um þetta, mál, enda eru ekki markir viðstaddir af hv. þm. Ég skal geta þess, að það hefir verið gerð lausleg áætlun um, að með 100 lítra vatnsrennsli á sekúndu mætti koma upp hitaveitu sem yrði arðvænlegt fyrirtæki. Hinsvegar er það vitanlegt, að það vatnsrennsli er ekki nóg til þess að hita allan Reykjavíkurbæ, en líkur eru taldar á, að meira vatn sé fáanlegt á því svæði, sem nú er rannsakað; mun nú vera búið að fá nægilega heitt vatn, sem svarar l00 lítrum á sekúndu, og má því telja líklegt, að hægt sé að koma upp hitaveitu, sem borgi sig fyrir bæinn. Hinsvegar er mikill hluti af hitasvæðinu órannsakaður, og það jafnvel sá hluti þess, sem er líklegur til að gefa beztan árangur, og má þannig telja líkur til þess, að nægilegt vatn fáist til að hitaveitan fullnægi bænum, eins og hann er nú, og verði jafnvel við vöxt.

Það er öllum ljóst, hve þýðingarmikið mál þetta er fyrir Reykjavíkurbæ, enda er öllum kunnugt, að áhugi bæjarbúa fyrir málinu er mikill. Það hefir verið gengizt fyrir undirskriftum undir áskorun um að hrinda þessu máli í framkvæmd. Ég hafði ekki heyrt um árangur af þessari undirskriftasöfnun, þegar ég bar fram till. mína, svo það er misskilningur hjá hæstv. fjmrh., þegar hann er að gera því skóna, að ég muni hafa vaknað við, þegar ég sá hve góður sá árangur var. Þessi árangur er að vísu svo góður að full ástæða hefði verið að vakna við hann. Á tiltölulega mjög skömmum tíma hafa safnazt um 7000 nöfn undir þessa áskorun, og sýnir þetta ljóslega, hve áhugi er mikill fyrir þessu máli, og það er vafalaust, að auðvelt væri að fá a. m. k. 90% af bæjarbúum til að skrifa undir slíka áskorun. Mönnum er það ljóst, hvaða þýðingu það hefir fyrir bæinn að fá hitaveituna, og hvaða þýðingu það hefir fyrir viðskipti landsins út á við að geta sparað þann gjaldeyri, sem fer fyrir eldsneyti handa bænum.

Það er að vísu ekki lokið þeim rannsóknum og undirbúningi, sem er nauðsynlegur til þess, að fullráðið sé að hefja verkið, en hinsvegar tel ég, að möguleikar séu á því, að verkið verði hafið á næsta ári að einhverju leyti, og þarf þá þegar að kaupa efni til verksins, og er þess vegna nauðsynlegt, að til sé heimild fyrir ríkisstjórnina að taka ábyrgð á því láni, sem bærinn kynni að þurfa í því skyni.

Það er vitað, að verkið kostar miklu meira fé heldur en gert er ráð fyrir í till., að ríkið gangi í ábyrgð fyrir. En að sjálfsögðu verður allverulegur hluti þess stofnfjár fenginn með innanlandsláni. Það er að vísu ekki hægt að segja, hve mikið fé væri hægt að fá innanlands, en þótt meira gæti fengizt innanlands heldur en því svarar, sem er mismunurinn á stofnkostnaðinum og þeirri upphæð, sem hér er farið fram á, að ríkið taki ábyrgð á, þá er hér aðeins um heimild að ræða og þegar að því kæmi, að heimildina þyrfti að nota, þá lægju að sjálfsögðu fyrir fyllri upplýsingar um verkið og hvað til þess þyrfti að erlendu fé, og stjórnin mundi þá nota heimildina samkvæmt því, sem þá væri sýnt, að þyrfti.

Þótt þannig sé játað, að nokkur óvissa ríki um það, hvers muni þurfa til þess að framkvæma verkið, virtist mér rétt að bera þessa till. nú fram, til þess að það væri ljóst, hvers mætti vænta, þegar til framkvæmda kæmi, og ekki ólíklegt, að til heimildarinnar yrði að taka áður en næsta þing kæmi saman.

Þegar á að verja láni til fyrirtækis, sem sparar erlendan gjaldeyri, þá er það ekkert áhorfsmál, að það borgar sig í framtíðinni, þegar vitað er að fyrirtækið getur staðið undir sér sjálft.

Ég sé svo ekki ástæðu til að flytja um þetta lengri ræðu, en vísa aðeins til þess, að hér er að sjálfsögðu aðeins um heimild að ræða, sem notast eftir því, sem reynslan sýnir að fyrirtækið sé arðvænlegt og líklegt til þjóðheilla.