07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

1. mál, fjárlög 1937

*Jón Auðunn Jónsson:

Það er aðeins út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði um það, að það vantaði tryggingu fyrir því, að fiskurinn væri ekki látinn af hendi án þess að hann væri greiddur. Það ætti að vera nokkur trygging fyrir því, þar sem tveir stjórnskipaðir menn í stjórn S. Í. F. og tveir bankastjórar hafa með þetta að gera.

Ennfremur skrifaði S. Í. F. öllum umboðsmönnum sínum nú fyrir nokkru og bannaði harðlega að fiskurinn væri afhentur nema gegn staðgreiðslu. Þetta er hæstv. fjmrh. sjálfsagt kunnugt um. Hann sagði, að ríkisstjórnin hefði gert allt, sem í hennar valdi stóð, til þess að flýta fyrir greiðslu. En ég hefi ekki orðið var við það. Það hefir, eins og ég lýsti áðan, verið seldur fiskur frá okkur á Vesturlandi, Norðurlandi og Austurlandi frá því í desembermánuði síðastliðnum, og það er engin eyrir kominn fyrir hann ennþá. Ég veit því ekki, í hverju þessar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar liggja. A. m. k. verður það ekki séð að því er snertir saltfiskssöluna.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að það gætu komið fyrir mistök hjá stjórn S. Í. F. við samninga. Ég held, að það sé alveg útilokað með því að umboðsmönnum þeirra er bannað að selja fiskinn nema gegn staðgreiðslu.

Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðh. að vera að fetta fingur út í till., efni hennar eða tilgang, þar sem hann játar, að hann mundi ekki samþ. till., hvernig sem hún væri. Hæstv. ráðh. vill alls ekki ganga inn á þessa till. Hann hélt að þetta mundi kannske hvetja S. Í. F. til þess að selja fisk til þessara landa meira heldur en góðu hófi gegndi, ef ríkissjóður gengur í þessa ábyrgð.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvar á að selja Labradorfisk annarsstaðar en á Ítalíu? Á að þurrka hann fyrir Portúgal og selja hann þar með verði, sem samsvarar því, að útgerðarmenn fái aðeins útlagðan kostnað og hafi ekkert handa sjálfum sér? Hæstv. ráðh. sagði, að aðstaðan væri ólík í Noregi og hér. Það er rétt. Norðmenn eru miklu færari til þess að styrkja sína saltfisksútgerð heldur en Íslendingar, en það er líka miklu meiri nauðsyn fyrir okkur að halda þessum atvinnuvegi uppi. Það mundi ekki verða stórhnekkir fyrir þjóðarbúskap Norðmanna, þó að saltfisksveiðar þeirra legðust niður. En það mundi ríða þessu þjóðfélagi að fullu, ef saltfisksveiðarnar stöðvuðust, og það er fyrirsjáanlegt, að það verður. ef ekkert verður að gert.

Annars er þarna ólíku saman að jafna. Fyrst og fremst það, að ríkissjóður þarf engan halla að bera af ábyrgðinni. Það er á valdi stjórnarinnar. Og í öðru lagi styrkju Norðmenn útveginn með beinum framlögum og óbeint með því að heimta ekki útflutningsgjald af saltfiski.