17.03.1936
Neðri deild: 26. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 995 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

73. mál, fræðsla barna

*Sigurður Einarsson:

Eins og frv. þetta ber með sér, þá er það flutt af meiri hl. menntmn. Með því er gerð tilraun til að skipa að nýju lögum þeim, sem nú gilda um fræðslu barna. Fyrsti kafli frv. kveður á um fræðsluskyldu barna, og er þar gert ráð fyrir henni nokkru fyllri en hún er nú. Sömuleiðis er í þessum kafla gerð sú breyt. frá gildandi 1., að skólaskyldualdurinn skuli vera frá 7–14 ára, og er breyt. þessi gerð sökum þess, að það hefir sýnt sig, að í kaupstöðunum hefir ekki annað þótt fært en að skólarnir tækju að sér kennslu hinna yngri barna.

Annar kafli frv. fjallar um skólahald og kennsluskipun.

Í þriðja kaflanum, sem fjallar um skólahverfi og skólanefndir, fræðslunefndir og fræðsluráð, eru aðalnýmæli frv., svo og í næsta kafla, sem fjallar um fræðslusjóði og skólabyggingarsjóði. Að þessu sinni mun ég ekki fara að ræða nýmæli þessi til hlítar, en aðeins geta þess, að hér er verið að reyna að gera tilraun til að leggja grundvöll undir framtíðarskipun barnafræðslunnar.

Fimmti kafli frv. er um einkaskóla, en sjötti um próf. Sjöundi kaflinn er um námsstjóra. Ákvæði þetta var í lögum áður, en var ekki framkvæmt nema stuttan tíma, sakir fjárhagslegra örðugleika. En kennarar munu hafa verið nokkuð á einu máli um það, að námsstjórarnir höfðu mikla þýðingu fyrir barnafræðsluna yfirleitt, og því er þetta atriði tekið upp í frv.

Að síðustu skal ég taka það fram, að enda þótt frv. þetta sé ekki flutt nema af meiri hl. menntmn., þá mun samt n. öll taka það til athugunar í milli umr.