31.03.1936
Neðri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1545)

73. mál, fræðsla barna

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. er flutt af meiri hl. menntmn., og geri ég ráð fyrir, að það hafi fengið athugun í n., en um það hafa sáralitlar eða jafnvel engar umr. orðið að þessu sinni hér í hv. d. Ég hefi ekki haft tíma til að kynna mér þetta mál sem skyldi og er því ekki tilbúinn að ræða um einstök atriði þess. En það en eitt atriði, sem ég vildi sérstaklega beina athygli hv. n. að, því að ég geri ráð fyrir, að á milli umr. sinni hún málinu. — Í 4. kafla frv. er gert ráð fyrir því, að fræðsluhéruðin komi sér upp skólabyggingum, og er ákveðið í 15. gr., hvaða tekjur skuli renna til sjóðanna, sem stofna á í þessu skyni. Þar er tiltekið, að 10% af tekjum sýslusjóða skuli renna til fræðslusjóða, o. fl. ákvæði eru þarna. En það eru ef til vill einhverjir kunnugri því en ég, hvernig sveitarfélögunum mun ganga að standa straum af þessum skólabyggingum. Ég sé af þeirri grg., sem hefir fylgt frv., að það hafa verið skiptar skoðanir um það hjá hlutaðeigandi mönnum, hvort það sé réttmætt að skylda héruðin til að leggja í þessa sjóði. Ég vildi nú beina því til hv. n., hvort ekki væri rétt að hafa þetta heimild og hvort þetta gæti ekki komið þunglega niður, þar sem ærnir erfiðleikar eru fyrir að standa undir þeim greiðslum, sem hvíla á þessum sjóðum. — Annað atriði er það í sambandi við þessar skólabyggingar, sem ég vildi beina til n. Það eru ákvæðin í 17. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir, að ríkissjóður greiði 1/3 kostnaðar við skóla utan kaupstaða og helming við byggingu heimavistarskóla, sem sé greitt jafnóðum og skólinn er reistur. Í sömu gr. segir ennfremur: „Heimilt er fjmrh. að taka fyrir hönd ríkissjóðs lán til greiðslu á lögboðnum skólabyggingarstyrk, ef fjárveiting hrekkur ekki til, og ábyrgjast lán fyrir skólabyggingarsjóði.“ Ég álít þessi ákvæði í mesta máta óvarleg. Ég álít, að það eigi ekki að afgr. þetta mál á annan hátt en þann, að það komi undir fjárveitingu Alþingis í hvert sinn, W að mikið er lagt til þessara mála, en ekki farið eftir því, hvað mikið er lagt til úr héruðunum. Við höfum átakanlega reyslu fyrir því, hvernig getur farið, ef það er ótakmarkað, hvað ríkissjóður á að leggja til ýmissa málefna. Ég vil því alvarlega skora á n. að breyta þessu þannig, að ríkissjóður greiði að vísu ákveðinn hluta, en eftir fjárveitingu í hvert skipti fyrir sig. Ég er mótfallinn því, að ríkissjóði sé ætlað að taka lán til þess að leggja í skólabyggingar; líka finnst mér það vafasamt að láta ríkissjóð fara að ganga í miklar ábyrgðir fyrir skólabyggingarsjóðina. Ég held, að þessi ákvæði öll þurfi nákvæmrar endurskoðunar við. Ég vildi beina því til n. að vera að einhverju leyti í samráði við mig um breyt. á þessu. Ég skal ekki fara út í önnur atriði þessa máls; ég hefi ekki kynnt mér frv. nægilega vel til þess. — Ég rak mig aðeins á þessi atriði, sem snerta fjárhagslegu hlið málsins. Um þá fræðslulegu hlið ætla ég ekki að ræða; til þess skortir mig þekkingu á þeim málum yfirleitt.