07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1937

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af skrifl. brtt., sem hér var borin fram á 12. stundu, þar sem það er einhver stærsta till. við þetta frv. Ég verð því að segja það, að mér finnst þessi málflutningsaðferð í mesta lagi óviðkunnanleg. Við höfum verið hér að starfi í 83 daga, og allan þann tíma hefir hv. flm. till. átt þess kost að koma þessu máli á framfæri, en látið það undir höfuð leggjast þangað til nú á 12. stundu, að hann flytur skrifl. brtt. við fjárlagafrv., þó að fjvn. hafi ekki nokkra aðstöðu til þess að kynna sér málið og margir þm. gengnir af fundi í þeirri trú, að ekki komi fram stór nýmæli, því að það er ekki venja, þegar komið er fram á nótt við síðustu umr. fjárl. Ég verð því fyrir mitt leyti að segja, að eins og þetta mál er í pottinn búið af hálfu hv. flm., þá treysti ég mér ekki til þess að vera með till. og tel það óforsvaranlega afgreiðslu af þinginu að gleypa við till. eins og þessari.

Það getur verið, að þetta sé mjög gott mál, en það hefir ekki verið nein aðstaða til þess að rannsaka efnisatriði málsins síðan till. kom fram; a. m. k. hefi ég ekki haft tíma til þess. Var ég þó viðstaddur, þegar hún kom fram, — en hvað skal þá segja um hina, sem ekki hafa hugmynd um hana og sjá hana ekki fyrr en þeir eiga að fara að greiða atkv. um hana?

Af þessum ástæðum get ég ekki fylgt þessari till., en það er ekki af neinum fjandskap við málið, heldur til þess að undirstrika, að mér finnst ég ekki geta verið með því að samþ. að óathuguðu máli jafnstórt mál og þetta. Og mér finnst öll meðferð hv. þm. á þessu máli bera það með sér, að hann hafi alls ekki reiknað með því að till. væri samþ. Ég býst heldur ekki við því, jafnskammt og þetta mál er á veg komið, að það þurfi að verða því til trafala, að þetta bíði næsta þings. Af öllum þessum ástæðum mun ég í þetta skipti greiða atkv. á móti þessari till., en því fylgir í raun og veru enginn úrskurður um málið sjálft. Ég hygg, að fleirum fari þannig, að þeir geti ekki af þessari sömu ástæðu fallizt á að samþ. þessa stórkostlegu till.