20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (1555)

73. mál, fræðsla barna

*Sigurður Einarsson:

Ég kann ekki vel við, þegar hv. þm. V.-Sk. eyðir miklum tíma í að deila á menntmn. fyrir það, að hún hafi ekki séð sér fært að sinna þessu máli neitt. Þó það kunni að verða til að styggja þennan hv. þm. eða hryggja hann, þá verð ég að láta hann vita, að það eru alls ekki hans brtt., sem urðu þess valdandi, að n. fór að sinna málinu meira og að hún hefir athugað það svo rækilega og komið með sínar brtt. svo fljótt. Það er alls ekki svo, að n. hafi ætlað að vanrækja málið og að hún hafi vaknað við brtt. þm. V.-Sk. Viðvíkjandi því, sem hv. þm. sagði um skólaskyldualdurinn, þá verð ég að bæta við nokkrum orðum. Það má vel vera, að einstaka mönnum sé það þyrnir í augum, að skólaskyldualdurinn er færður niður í 7 ára aldur. En reynslan hefir orðið sú í öllum kaupstöðum landsins, að ekki hefir verið kostur á að rækja kennsluna sem vera ber, nema með því að færa skólaskyldualdurinn niður, af þeirri ástæðu, að börnin koma ólæs í skólann. Þetta hefir leitt til þess, að undanfarin ár hefir allsstaðar verið stefnt að því að færa skólaskyldualdurinn niður. Og jafnvel neðan við þennan aldur er fólk að kaupa dýrum dómum kennslu fyrir börnin, af því að þau eru ekki komin í skóla. Allur þorrinn af heimilum í kaupstöðum er ekki fær um að leyst þetta starf af hendi, af því að það er enginn til þess, og menn verða þess vegna að kaupa það að. Alveg samskonar ástæður eru fyrir hendi í sveitunum. Hv. þm. virtist gera mjög mikið úr heilnæmi sveitaloftsins; náttúran og aðbúð sveitabarnanna væri svo miklir kostir, sem þau hefðu fram yfir kaupstaðabörnin, að ekki þyrfti að sjá sveitabörnunum fyrir viðlíka fræðslu og í kaupstöðunum. Þó að þetta skipti að vísu miklu máli, þá hefir það sýnt sig, að þetta er ekki einhlítt. Ég get tekið undir það, að það er nokkuð til í því, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, að síðan fræðslulögin gengu í gildi hér, þá hefir fólkið slegið áhyggjum sínum upp á skólana um uppeldi barna sinna, eins og hv. þm. komst að orði. En ráðið við þessu er ekki að gera skólana þannig, að þeir verði ekki færir um að taka við þessu verkefni, sem fólkið leggur þeim á herðar, heldur gera þá færa um að takast þetta á hendur. Ég verð að líta svo á, að þetta frv. sníði af núverandi skipulagi marga galla og geri tryggilegt, að börnin njóti nauðsynlegrar fræðslu. — Þá vil ég víkja að því, sem fram hefir komið í þessum umr. og verið mörgum þyrnir í augum. en það eru heimavistarskólar í sveitum. Nú er fengin allýtarleg reynsla um þá. Það var talsverður uggur í mönnum, áður en þetta komst á, um að fyrirkomulagið yrði óvinsælt, að menn mundu kveinka sér við að láta börn sín dvelja svo lengi burtu frá heimilinu, og svo við þeim kostnaði, sem af þessu leiddi. En reyndin hefir orðið sú, að þar sem sæmilega hefir tekizt til um val starfsmanna, þá er síður en svo, að menn séu hikandi við að senda börn sín á þessa skóla. Mörg heimili fagna því að geta sent þau þangað, af því að þau vita, að þar njóta þau heilsusamlegri aðbúðar en illa stödd heimili geta veitt börnum sínum. Að hinu leytinu sýnir það sig, að þar sem vel og skynsamlega er haldið á þessu, þá verður þetta ekki svo ýkja dýrt fyrir heimilin, og þau geta greitt það að mestu með afurðum sínum. Ég er sannfærður um, að þó það kunni að verða langsótt og erfitt að koma upp heimavistarskólum í sveitum, þá er það það, sem ber að stefna að. Þó að farkennslan hafi orkað furðu mikils um að halda barnafræðslunni í horfinu, þá er ekki því að neita, að aðstaðan til þess að reka þá starfsemi, bæði vegna húsnæðisskorts og lítils tíma kennarans handa hverjum hóp barna, mun verri en verða mundi í föstum heimavistarskólum. Hv. þm. V.Sk. gerði ráð fyrir, að slíkir skólar mundu verða mikið bákn og að það væri ástæða til að fleiri hreppar slægju sér saman um byggingu þeirra. En ég held, að það sé óþarfi að gera ráð fyrir því, heldur finnst mér trúlegra, að þeir verði svipaðir að stærð eins og þeir, sem þegar eru komnir. Það eru hæfilegir skólar fyrir einn kennara og í hæsta lagi einn með honum. Ég sagði við 2. umr., að kaflinn um námsstjóra í frv., eins og það lá fyrir, væri þannig, að það væri ástæðulaust að lögfesta hann, enda var þar talsvert hjal á víð og dreif um þetta mál. En ég held, að n. hafi ráðið bót á þessu með því að gera ákvæðin skýrari og leggja það á vald löggjafarvaldsins, hvenær slík starfsemi skuli upp tekin, og að það verði bundið við, að til þess verði veitt fé á fjárlögum. En ég get ekki tekið það sem neina röksemd á móti námsstjórunum, að það sé óviðfelldið að setja leiðbeinanda yfir þá kennara og skólastjóra, sem foreldrar eru ánægðir með. Foreldrarnir geta verið ánægðir með skólahaldið, þó það sé langt frá því að vera eins og það á að vera. Með því móti verður að gera ráð fyrir, að foreldrarnir hafi yfirleitt meira vit á skólahaldi heldur en maður, sem hefir sett sig inn í þau mál. Ég skal ekki flytja langt mál um þetta, en ég verð að líta svo á, að þetta frv. með þeim breyt., sem menntmn. leggur til á því, sé býsna mikilvæg framför frá því skipulagi um fræðslumál, sem við nú eigum við að búa.