20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1556)

73. mál, fræðsla barna

*Eiríkur Einarsson:

Álit menntmn., sem hér liggur fyrir, ber að forminu til helzt með sér, að n. sé ágreiningslaus um málið. En þetta er ekki að öllu leyti satt, og ég hygg, að hv. þm. V.-Ísf. hafi látið þess getið fyrr við þessa umr. málsins, að ég hafi gert ágreining í n., og er það rétt hermt. Ég var búinn að láta þess getið, þegar mál þetta var til 1. umr., að þótt margt horfði til bóta samkv. þessu frv., væru þau meginatriði fléttuð inn á milli og óaðgreinanleg frá kostum frv., sem mér þættu svo viðsjárverð, að ég treysti mér ekki til að fylgja þeim og stuðla að lögfestingu þeirra.

Til þess að þær endurbætur næðust, sem allir ættu ágreiningslaust að geta orðið sammála um, að þyrftu að eiga sér stað, hygg ég hefði þurft að byggja þetta frv. upp á annan veg en gert hefir verið, nefnilega skipta því í tvo meginkafla, barnafræðslu í þéttbýli — kaupstöðum og kauptúnum — annarsvegar, og í strjálbýli hinsvegar. Því að það er sitthvað í meðferð barna vegna staðhátta og kringumstæðna, sem er svo ólíkt í kaupstöðum og sveitum. Af þessu kemur það, að ég hefi að nokkru leyti fallið frá meðnm. mínum í menntmn., að ekki er um þessa eðlilegu og nauðsynlegu skilgreiningu að ræða. Ég veit að vísu, að nokkur bót er í máli, að málið hefir skýrzt í meðferð menntmn., m. a. veitt mikilsverð undanþága, sem væntanlega verður framkvæmi helzt í sveitum og ég álit miða í rétta átt. Þar sem stefna frv. var skólaskylda um alla landsbyggð fyrir 7 ára börn, er nú komin heimild fyrir heil skólahéruð að veita almenna undanþágu fyrir hin yngri börn. Þetta sjálfsákvörðunarvald heimat fyrir ætti auðvitað að draga nokkuð úr áhættunni fyrir sveitafólkið, sem er því andvígt að senda börnin svona ung frá sér. En markmiðið er nú samt sem áður þetta, skólaskylda 7 ára barna, og ég veit, að það er fjöldi manna úti um landið, sem er hreint og beint andvígur skólaskyldu svo langt niður. Hitt er mér vel ljóst og vil láta það koma fram hér, að eins og ýmsir í sveit eru frábitnir því að senda börn tiltölulega ung úr föðurgarði, að sama skapi er þvert á móti nauðsynlegt fyrir marga í kaupstöðum, sérstaklega Rvík, að senda þau ung að heiman hluta dagsins undir handleiðslu kennara, ekki sízt þegar sú handleiðsla getur átt sér stað á þeim árstíðum, sem börnin eiga ekkert athvarf yfir daginn. Því að fyrir mörg kaupstaðabörn er ekkert athvarf í veröldinni, þar sem þau geta verið yfir daginn, nema óhrein og glapin gatan, og sér því hver maður, hvers virði er fyrir þau að eiga athvarf undir handleiðslu kennara. Þessa aðstöðu fullyrði ég, að ég skilji alveg til hlítar. Það er því nokkur ástæða til að stefna að 7 ára skólaskyldu í kaupstöðum, en þetta stefnumið fyrir sveitina er mörgu sveitafólki mjög óviðfelldið. Það kunna að vera skiptar skoðanir, en ég veit, að fjöldamargir hafa ímugust á þessu, og ég er einn í þeirra tölu. Þeir, sem því láni eiga að fagna til sveita að eiga góð heimili í orðsins beztu merkingu, munu margir vitna um það með mér, að ekki er til betri staður fyrir börnin heldur en heima hjá sínum foreldrum, og vera þar sem lengst, þó að kennari og skólaheimili sé ágætt líka.

Nú eru sum foreldrahús ekki góð, og það skapar óvissu í málinu og gerir því eðlilegt, að skoðanir séu nokkuð skiptar. En því miður eru skólarnir líka sjálfir nokkuð misjafnir. Sumir kennararnir eru afbragðsmenn og jafngilda góðum foreldrum, en sumir hreint ekki. Í öllu þessu er misjafn sauður í mörgu fé. Og ef út af ber, þá er því verr farið, því fleiri sem koma saman, ef óheppilegt hefir reynzt val kennarans.

Nei, það hefir ekki hvatt mig til að fylgja málinu í heild, hvernig þar er blandað saman því, sem ætti að vera aðskilið, þar sem aðstæður í sveit og kaupstað eru svona ólíkar í þessu efni. Og þrátt fyrir hina aðkallandi nauðsyn þess í kaupstöðum að lækka skólaskyldualdurinn eða hafa hann lágan, þá finnst mér lítt gera til, þó að ákvæði þessa frv. séu ekki lögfest, því að slík heimild er einmitt til í fræðslulögunum frá 1926, og er sumstaðar notuð. Þar sem almennur vilji er fyrir því að taka börnin til skólakennslu allt niður í 8 ára aldur, þá veita núgildandi fræðslul. heimild til þess.

Þá er og annað meginatriði, sem ég tel, að hefði átt að vera alveg sérgreint fyrir sveitina. Stefnumið þessa frv. er að gera smám saman landið alt að stórum skólahéruðum um heimavistarskóla. Því að það segir sig sjálft, að stór svæði úti á landsbyggð geta ekki sameinazt um heimangönguskóla, heldur heimavistarskóla. Þetta veit ég, að margir til sveita eru myrkfælnir við. Veit ég, að þetta frv. talar mjúkt og milt um þetta atriði, og það á að búa svo um hnúta, að samkomulag á að vera um, hvernig þessu skal hagað og hve stór skólahéruðin skuli vera. En ef ágreiningur er, er úrskurðarvaldið eðlilegu í höndum fræðslumálastjórnarinnar í landinu. Þá er heimaákvörðunarvaldinu ekki lengur til að dreifa, og segi ég þetta ekki af því, að ég telji þetta óeðlilegt.

Ég staðhæfi, að það eru ákaflega skiptar skoðanir úti um sveitir landsins, hvort eigi að stefna að heimavistarskólum, og þá mjög stórum. Ég hefi verið svolítið að hlera eftir þessu þar, sem heimavistarskólar eru. Í þeirri sveit, sem ég er kunnugastur og upp alinn, Gnúpverjahreppi, er heimavistarskóli, sem búinn er að starfa í nokkur ár. Sveitin er meðalsveit, um 30 bú. Ég get borið það og fullyrt, að fyrir liggur margfaldur vitnisburður þessarar sveitar um það, að hann hefir gefizt ágætlega. Ég hefi talað um við fólk. hverju eigi helzt að þakka, að börnin njóta skólans svona vel. Heyri ég marga þakka það aðallega tvennu, að kennarinn er í alla staði til fyrirmyndar, svo að ekki er hægt að kjósa betri kennara. Hinu atriðinu heyri ég marga glögga menn einnig leggja mikið upp úr, að þessi skóli sé hæfilega stór. Börnin eru hvorki of mörg né fá. Þau koma úr hæfilega stóru byggðarlagi, frá fólki, sem þekkir hvað annað, og félagsskapur er á milli þeirra.

Ég skal ekki skýra þetta lengur. En ég gæti hugsað, að ef stefna á að því að reisa stóra skóla, sem taki til 2–3 sveita og fjölda margra barna, svo margra, að kennarastarfið fer að bera á sér lögreglusvip, eins og stundum þarf á að halda í barnaskólaportinu hér í Reykjavík, þá fer málið að horfa allt öðruvísi við. Þegar börnin eru orðin mjög mörg í hóp, verður um fjöldafræðslu að ræða, og þá missir fólkið hina fullu öryggisvissu um það, að vel gefist.

En með því að þannig er nú ástatt, að fræðslul. frá 1926 eru svo víðsýn og frjálsleg, að þau veita einmitt heimild til, að sveitir slái sér saman og stofni skóla, þá þarf enga nýju lagasetningu til þess að þetta megi gera.

Þá er enn eitt atriði í þessu frv., sem ég á erfitt með að átta mig á til fulls og viðkemur kostnaðarhlið málsins. Það eru þessir blessaðir námsstjórar eða milliliðir, sem koma á milli fræðslunefnda og fræðslumálastjórnar. Það er gert ráð fyrir einum sex fyrir utan Rvík. Ég hefi nú enga heimild til að halda annað en að þetta geti verið í höndum ágætra manna nytsamt starf. En það er nú svo, að nú á dögum er oft hreyft andmælum gegn því að stofna ný embætti. Og eitthvað yrðu þessir menn að fá fyrir snúð sinn, því að þetta yrði yfirgripsmikið starf, sem kostar tíma; það er ofætlun að ætlast til, að þeir vinni það fyrir örlitla greiðslu. Þó ekki sé nema þetta, þá álít ég, að í þeim tón sé nú almennt talað um stofnun nýrra embætta, að maður verði að hika við að stofna ný embætti.

Ég vil þá segja að síðustu, um leið og ég hefi gert grein fyrir afstöðu minni annarsvegar, að ég viðurkenni, að frv. hefir kosti að geyma, þá tel ég jöfnum höndum, að margt af því bezta, sem felst í frv., sé heimilt samkv. gildandi fræðslul., þó að það sé útfært nánar og lengra leitt í þessu frv. en í fræðslul. En hinsvegar séu ágallarnir, sem lúta að landsbyggðinni og ég hefi getið um, allveigamiklir. Og þeir eru þess valdandi, að ég treysti mér ekki til þess að láta telja mig á neinn hátt flm. frv. Þess vil ég láta getið, að ég vil ekki mæla á móti nýjum fræðslul. af því, að ég telji umbætur á þessu sviði neitt smávægilegt málefni. Þetta er eitt stærsta mál þjóðfélagsins, og sem alltaf er á dagskrá, hvernig eigi að leggja undirstöðuna að því að gera börnin að góðum og nýtum mönnum. Og hverjir, sem þess eru vaxnir, að vaka yfir uppeldi barnanna, þeir verða ekki of vel launaðir. A. m. k. er hastarlegt, að slíkir menn, ef þeir leysa starfið vel af hendi, séu hornrekur í mannfélaginu. Með tilliti til þess, að barnakennarar eru svo skammarlega launaðir, að þeir geta varla lifað, vil ég því manna fyrstur gerast liðsmaður við sanngjarnar till. til endurbóta á því sviði.