20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

73. mál, fræðsla barna

*Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ef hv. þm. V.-Sk. hefir ætlað undir þessum umr. að halda á málstað sveitanna, taka það upp fyrir þær, sem þeim væri fyrir beztu í þessum efnum, þá hefir honum tekizt það illa. Með heimavistarskólunum er aðstandendum sveitabarnanna tryggður betri aðbúnaður á börnunum, betri kennslukraftar og lengri kennslutími en unnt er að veita með farkennslunni. Börnin koma heim til foreldra sinna á hálfsmánaðarfresti, og gefst þeim því kostur á að fylgjast jafnan með líðan þeirra. Dæmið, sem hv. þm. hafa verið að benda á, með heimavistarskólakennarana í Árnessýslu, á ekkert skylt við þetta. Það afsannar á engan hátt yfirburði heimavistarskólanna fram yfir farkennsluna. Að ég kom nokkuð inn á hina æðri menntun í sambandi við þessar umr. um barnafræðsluna, var sakir þess, að mér þykir leiðinlegt þetta sífellda nöldur hinna langskólagengnu manna, hinar sífelldu eftirtölur þeirra, eins og hv. þm. V.-Sk., eftir hinni litlu fræðslu, sem almenningur á að fá að njóta. (GSv: Þetta er vísvitandi rangsleitni hjá hv. þm.). Vitanlega er allt, sem ég segi, sagt vísvitandi, en að það sé rangsleitni kannast ég ekki við. Mér finnst þessi framkoma hv. þm. og fylgifiska hans minna mjög tilfinnanlega á sagnirnar gömlu um öskustóarbörnin, börnin, sem voru ákveðin til þess að vera í öskustónni og áttu ekki að eiga þaðan uppreisnarvon. (GSv: Hvað á hv. þm. við með þessum ummælum?). Ég á við það, að það sé ekki viðeigandi af hv. þm. V.-Sk. að vera sífellt að tönnlast á og telja eftir þá litlu fræðslu, sem almúganum er ætluð með lögunum um barnafræðslu. Já, þetta er mjög óviðkunnanlegt af manni, sem fengið hefir a. m. k. 20 sinnum meiri fræðslu heldur en þeir aðiljar, sem hann er að telja eftir. (GSv: Vísvitandi rangt). Þetta eru engin vísvitandi ósannindi, heldur sagt sem bein afleiðing af því, sem hv. þm. hefir haldið fram undir þessum umr. Og skilji hv. þm. þetta ekki, þá hefir hann haft lítil not síns langa lærdóms.