07.05.1936
Sameinað þing: 19. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

1. mál, fjárlög 1937

Frsm. síðari kafla (Bjarni Bjarnason):

Mér yfirsást áðan með eina till., um styrk til Stórstúku Íslands. Ég ætla auðvitað ekki að bæta neinu sérstaklega við það, sem hv. þm. Borgf. sagði, þegar hann mælti fyrir till., heldur aðeins bæta því við, að það var ekki hægt að fá ákveðinn meiri hl. fyrir till. í fjvn. Það var ekki af því, að ekki væru nægilega margir einstaklingar innan n., sem vildu styðja till., heldur var það af því, að það var talsverður ágreiningur í flokkunum um hana. Slíkar till. sem þessar hafa jafnan verið fluttar í þinginu án tillits til pólitískra flokka, og svo er einnig nú. Ég vil vænta þess, að þessi till. nái samþykki, því mér er það mikið áhugamál, að bindindisstarfsemin í landinu geti notið þessa styrks, sem er henni nauðsynlegur til þess að geta starfað svo sem þörf krefur. Við höfðum í fyrstunni ætlað okkur að bera fram hærri till., eða till. upp á 10 þús. kr., en við væntum þá þess, að hv. þm. vilji þeim mun fremur fallast á þær 6 þús. kr., sem hér er farið fram á, þar sem við vorum svo hæverskir að draga nærri helming af því, sem við höfðum ætlað okkur að koma fram með. Sérstaklega væri mér sárt um það, ef þessi till. yrði felld, þar sem gert er ráð fyrir því, að ef hún næði samþykki, þá fengi samband bindindisfélaga í skólum hækkaðan styrkinn úr 2500 kr. upp í 3500 kr. Það er sannarlega gleðileg tilhugsun og ánægjuleg fyrir bindindissinnaða menn, að allir skólar í landinu hafa tekið upp eitthvert bindindisstarf, og sumir mjög svo kröftuglega, og þeim fer fjölgandi árlega, sem ganga í þennan félagsskap. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi vinnubrögð og þessi hugsjón unga fólksins sé þess verð, að hún sé styrkt, og það er því vel, ef hv. þm. vildu líta á það með sérstökum velvilja, þar sem við höfum annarsvegar dregið úr till. okkar, og þar sem okkur er það ennfremur mikið kappsmál að bindindissamtökin í skólunum geti notið hærri styrks en nú, en það verður að sjálfsögðu fellt, ef þessi till. verður felld í heild.

Þá vil ég aðeins geta þess við hv. 11. landsk., að till. um fjárveitingu til lendingarbóta á Stokkseyri er flutt eins og till. hans, nema að því leyti, að það er Stokkseyrarhreppur, sem á að ráðstafa fénu. Ég get ekki skilið annað en það sé eins með Stokkseyri og önnur sjávarpláss, að höfnin og mannvirkið sé hreppsins, þó að það kunni að vera einstakt félag, sem leggur fé af mörkum. Ég get trúið, að fiskiræktarfélagið leggi fé fram, og það er vel, ef svo væri. En ríkissjóðsstyrkurinn er því skilyrði bundinn, að fjárframlag sé tryggt á móti. (EE: Má ég skjóta svolitlu fram í: Umsóknin, sem liggur fyrir frá því í vetur um þennan styrk til hafnarbóta á Stokkseyri, er stíluð frá réttum aðilja, fiskifélagsdeildinni á Stokkseyri, og vottorðið frá vitamálastjóra er svar til þess félags, en Stokkseyrarhreppur sem slíkur hefir ekki komið þar nærri). Það sannar ekkert, þó umsóknin hafi legið fyrir frá fiskiræktarfélaginu. Það er ekkert með því sagt um það, að þessu sé ekki eins varið og til annara lendingarbóta, að féð sé veitt með því skilyrði, að ráðh. samþykki áætlunina og vitamálastjóri hafi eftirlit með framkvæmd verksins.

Ég vildi aðeins leiðrétta það, að það var enginn misskilningur hjá mér um þetta. Ég þekki þetta eins vel og hv. 11. landsk., sem alltaf telur sig þm. Árn., þó hann sé það ekki.