21.04.1936
Neðri deild: 53. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (1580)

73. mál, fræðsla barna

*Hannes Jónsson:

Þessar umr. gefa tilefni til þess að líta yfir þau vinnubrögð, sem yfirleitt eru að verða ríkjandi á þessari samkundu. Það er kunnugt, að það hefir verið leikinn sá skollaleikur hér á Alþingi að koma fram með stórfelldar brtt. við frv. við 3. umr., svo stórfelldar, að þær í raun og veru gerbreyta öllu efni og tilgangi málsins. Það er m. ö. o. unnið að því að innleiða þá óþinglegu starfsaðferð við afgreiðslu mála hér á Alþingi að afgreiða mál við eina umr. í d., í stað þess að hafa um þau 3 umr. í hvorri d. Þetta er einn þátturinn í verklagi Alþingis.

Annað er það, sem ég vil benda á. Það er sá háttur, að n. leggjast á mál og afgreiða þau ekki frá n., ekki einungis á þessu þingi, heldur þing eftir þing. Mér virðist þetta með öllu óverjandi aðferð hjá n. þingsins og einstakra hv. þm. í nefndum, algerlega óhæf aðstaða þm. gagnvart málum, sem flutt eru á Alþingi.

Ég verð hinsvegar að segja það, að tilmæli til hæstv. forseta, eins og komið hafa fram um frestun á umr. og rætt hefir verið um hér, þá mætti líka með þeirri aðferð stefna afgreiðslu mála í óefni, þannig að mér virðist að hæstv. forseti verði annaðhvort að gera, að neita yfirleitt að verða við slíkum tilmælum eða að stefna störfum þingsins í hin mestu vandræði.

Þá er enn eitt atriði í sambandi við störf Alþingis, sem sé það, að margir hv. þm. eru svo störfum hlaðnir, að þeir mega ekki vera að sinna þingstörfum sem skyldi. Sérstaklega á þetta við um þá þm., sem eiga heima hér í Reykjavík.

Allt þetta, sem nú hefir verið talið um vinnubrögð hæstv. Alþingis, stefnir í svo mikið óefni störfum þess, að ég sé ekki annað en að það verði að taka þessi atriði til alveg sérstakrar athugunar og reyna að færa vinnubrögð Alþingis í betra horf.

Að síðustu vil ég svo beina þeim eindregnu tilmælum mínum til hæstv. forseta, að hann ýti á eftir málum, sem nú liggja óafgreidd hjá n. þingsins.