25.04.1936
Efri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1588)

73. mál, fræðsla barna

*Jónas Jónsson:

Það er eðlilegt, að ýtt sé á n. að vinna að afgreiðslu frv., en á hinn bóginn veit hæstv. ráðh. og skilur, að um mál, sem skiptir þjóðina í heild eins mikið og þetta mál gerir, þá eru það engin vinnubrögð að afgreiða það á einum degi eða fáum. Af því að ég er málinu hlynntur, þá vil ég vinna að því, og mér þykir rétt að nota það, sem eftir er af fundartímanum í dag, til þess að ræða það.

Ég álít að aðalkostur frv. sé sá, að þar er gert ráð fyrir að færa saman kennsluna og undirbúa það, að hver barnakennari komist þannig yfir meiri vinnu en áður. Úr því að hæstv. ráðh. er hér viðstaddur hjá okkur í d., langar mig til að heyra, hvers vegna hann er svo óánægður með frv. mitt um sama efni, til bráðabirgðabreytingar á fræðslulögunum, er ég hefi flutt hér í d., þar sem settar eru upp í samstætt kerfi launabætur fyrir barnakennara. Þar er gert ráð fyrir, að giftir kennarar í Rvík fái 1200 kr. í húsaleigustyrk, og að farkennarar í sveitum, sem ekkert er hugsað um í þessu frv. í þá átt, fái verulega bót á kjörum sínum, ef frv. nær fram að ganga. Ég fæ ekki skilið, hvernig meðhaldsmenn þessa frv. geta haldið því fram, að í minn frv. sé ekkert gert fyrir kennarana á þann hátt.

Ég tel það mjög athugavert við þetta frv., að lengd vinnutíma í barnaskólum skuli háð ákvörðunum skólanefnda. Hitt er aftur á móti allt annað, þó að gert sé ráð fyrir því, að skólatíminn sé látinn ná lengra fram á sumarið, svo af börnin geti verið meira úti við heldur en á vetrum. Eins og frv. var fyrst hugsað, hefðu skólahéruð og ríkissjóður komið til með að greiða allháar fjárupphæðir til byggingar heimavistarskóla. Að hafa skólana stóra hefir náttúrlega þann kost, að þá getur hver kennari kennt miklu fleiri börnum heldur en við farkennslu, þar sem kennari hefir sumstaðar aðeins 6 börn yfir veturinn, eins og dæmi eru til. En þessar stóru skólabyggingar eru áætlaðar allt of þétt í dreifbýlinu. Í Nd. hefir nú mikið verið dregið úr þessum ákvæðum frv. á þann hátt, að þeim er að mestu leyti breytt í heimildir. En ég veit ekki, til hvers er að samþ. slíkar heimildir, þegar ekkert fé er fyrir hendi og engin tök verða á að framkvæma þær á næstu árum. Á undanförnum árum hafa fjárhagsörðugleikar ríkissjóðs verið svo miklir, að það er naumast hægt á þremur árum að koma upp Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og húsmæðraskólanum á Laugalandi, þó að fé hafi verið lagt fram á móti af hlutaðeigendum. Ég sé engar líkur til þess, að á næstu árum verði hægt að framkvæma nokkuð af þessum heimavistarskólabyggingum. Og vil ég skjóta því til hæstv. kennslumálaráðh. til athugunar, að hvorki ríkissjóður eða Rvíkurbær hafa séð sér fært að byrja á byggingu fyrir gagnfræðaskóla í Rvík vegna féleysis. Ég sé ekki, hvers vegna á að lögbjóða þessar skólabyggingar, þegar ekki verður hægt að reisa þær í náinni framtíð.

Þá er það annað, sem ég vildi biðja hæstv. ráðh. og aðra meðmælendur þessa frv. að veita athygli. Í II. kafla frv., sem fjallar um kennsluskipun og skólahald, er ætlazt til, að lágmark árlegs námstíma skólaskyldra barna í heimangönguskólum skuli vera fyrir börn 7–9 ára 33 vikur á ári, sem svara til 500 kennslustunda. og fyrir börn 10–14 ára 24 vikur á ári, eða 700 kennslust. Ég álít, að t. d. í sveitum sé það nokkuð mikil fjarstæða að ætla börnum á góðum, en fátækum heimilum á 7–9 ára aldri að vera 33 vikur í skóla árlega. Kemur mér þetta svo spánskt fyrir, að ég undrast, að menn, sem fæddir ern hér á landi, skuli láta sér hugkvæmast að framfylgja þessari firru hér, og þó vilja þeir vel með þessari till. Segjum, að þessum börnum sé ekkert kennt heima. Það getur verið, að þessu verði beitt þannig, að börnum verði kennt t. d. lestur og reikningur í tvo mánuði. og svo aðrar námsgreinar jafnlangt tímabil; en ég get þó ekki fengið það út, að skólinn þurfi að standa í 33 vikur. Og sé ég enga ástæðu til þess að hafa börnin undir sérstökum húsaga kennara á þessum aldri.

Ástandið er nú þannig, þrátt fyrir margra ára skólaskyldu barna, að margir unglingar virðast ekkert geta við inntökupróf í héraðsskólana og aðra ungmennakóla. — Ég skal nefna dæmi þessu til sönnunar. Einn skólastjóri við héraðsskóla hefir tjáð mér, að við inntökupróf í skólann hafi verið lagt fyrir 53 nemendur þetta dæmi. Á jörð í nágrenni skólans leigðu 3 bændur, hafði einn bóndinn 1/3 til ábúðar, annar 1/4. En á hve stórum parti bjó sá þriðji? Tveir gátu reiknað dæmið eftir skólareglum, einn reiknaði það í huganum, en hinir gátu ekki reiknað það.

Til hvers er nú að berjast við að kenna börnum reikning þessar mörgu vikur árlega þegar árangurinn er ekki annar en þessi? Í unglingaskólunum læra þau reikninginn á miklu skemmri tíma og með minni fyrirhöfn á þeim aldri. Ég vil skjóta því til hæstv. ráðh., hvers vegna frv. er svo einhliða sem raun ber vitni um. Í n. þeirri, sem undirbjó frv., voru þrír kennarar, allir fagmenn í þessum efnum. Þeir hafa að vísu lagt fram mörg atriði, sem hægt er að framkvæma og koma að verulegum notum, en önnur koma ekki til greina fyrr en langt um líður. Svona fer það jafnan, þegar fagmennirnir einir eru fengnir til þess að gera uppástungur um breytta tilhögun og auknar framkvæmdir í sinni sérgrein. Till. þeirra verða of einhæfar og kreddukenndar og kröfurnar úr hófi fram. Svona er því einnig varið um aðra fagmenn. Ef við spyrjum lögfræðingana um skipun lögsagnarumdæma og dómstóla, þá vilja þeir náttúrlega hafa lögmenn sem víðast. Ef við spyrjum læknana um fyrirkomulag sjúkrahúsa o. s. frv., þá vilja þeir líka hafa þau sem fullkomnust og dýrust. Og það hjálpar þeim jafnan, að við þekkjum svo lítið til í þeim efnum og getum síður haldið í stélið á þeim. En um verkefni barnakennara og störf þeirra veit almenningur svo margt, að hann lætur þá ekki bjóða sér allt athugasemdalaust.

Þegar kemur að þeim lið gr., er fjallar um börn í heimavistarskólum, þá á hvert barn að stunda nám minnst 12–13 vikur á ári, og séu námsvikur aldrei færri en 88 samtals á aldrinum 7–14 ára, nema undanþága hafi verið veitt. — Nú hafa mörg börn haft aðeins 4 vikna nám, sum 6–8 og nokkur mest 12 vikna nám á vetri í sveitum, og þó hafa þau í flestum tilfellum komizt lengra á námsbrautinni á unglingsárunum en börnin úr langsetu barnaskólanna. Ég neita því, að það sé nokkur ástæða til að heimta það, að öll börn verði svo lengi, sem tiltekið er í frv., í föstum skóla. Það er alveg nægilegt í sveitum að hafa börn á 12–14 ára aldri undir eftirliti kennara. Í bráðabirgðaákvæðum frv. er vel og skynsamlega gert ráð fyrir því, að 50 börn á aldrinum 7–14 ára skuli koma á hvern kennara að jafnaði við heimangönguskóla, og svo 30 börn á 10–14 ára aldri. En í heimavistarskóla á kennari að hafa 40 börn á 10–14 ára aldri. Ég sé ekki, hvernig á að framkvæma þessa samfærslu, eða hvar börn á þessum aldri eiga að fá sitt aukna frí. Það er langt frá því, að n. hafi tekizt að leysa úr þessu spursmáli, og það mun heldur ekki vera til hér í Rvík, að 30 börn komi á hvern kennara. Hvernig á þá að ráða fram úr þessu? Ég hefi gert þessar fyrirspurnir til hæstv. stj., af því það lítur svo út, að hún telji frv. ágætt og þrautrannsakað, eins og það liggur hér fyrir, svo að það megi samþ. það óbreytt.

Nú vil ég skjóta því til hæstv. kennslumálaráðh., án þess að ég vilji á nokkurn hátt gera lítið úr kjósendum hans á Seyðisfirði, að við athugun á skýrslum um kostnað við fræðslu barna í ýmsum skólahéruðum kemur það í ljós, að í Seyðisfjarðarkaupstað er kennslukostnaður á hvert barn 259 krónur. Aftur á móti er hann í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu aðeins 24 kr., í mínu kjördæmi í Mývatnssveit 29 krónur á hvert barn. Nú vil ég ekki með þessu kasta rýrð á kjósendur hæstv. atvmrh., og ekki vil ég heldur draga af þessu þá ályktun, að þeir verði þeim mun vitrari, sem meira er til þeirra kostað en skólabarna í Kaldrananeshreppi eða Mývatnssveit. En hinsvegar álít ég ekki þörf á meiri fræðslukostnaði í þessum hreppum.

Ég álít, að þetta mál hafi ekki verið athugað nægilega frá öllum hliðum af þeim, sem unnið hafa að þessu frv., en það verður að gerast. Það hefir náttúrlega í beztu meiningu verið reynt að lagfæra ýmsa ágalla, sem nú eru á barnafræðslunni. Að sumu leyti hefir því miðað áfram, en að öðru leyti ekki. Börnin eru víða ofþreytt í skólunum á margra mánaða bóklegu námi, og þess vegna álít ég, að það eigi að vera aðalatriðið, þegar gerðar eru breyt. á fræðslulögunum, að ekki sé verið að þvæla börnin í skólanum á of löngum yfirheyrslum, heldur séu gerðar aðrar ráðstafanir gagnvart börnunum, sem vega á móti áhrifum hinnar löngu skólagöngu, sem í flestum tilfellum virðist lama þau.

Taki maður þá hliðina, sem snýr að foreldrunum, þá er hin langa dvöl barnanna í heimavistarskólunum allt of kostnaðarsöm, svo að aðstandendur barnanna rísa ekki undir því. Og að lokum verður að benda á það, að ekkert er hugsað fyrir fræðslu þeirra barna, sem fá undanþágu frá skólaskyldu. Foreldrar þeirra verða að sæta því að fá sem ódýrasta kennslu handa þeim hjá einhverjum heimilislausum og rótlausum flækingum.

Það, sem fyrir mér vakir, er það, að kennararnir fái að njóta þess, að þeir eru eina launastéttin í landinu, sem vilja gera meira fyrir sín laun en nú er af þeim krafizt. Þess vegna vil ég jafnframt bæta kjör þeirra nokkuð um leið og verkefnin eru aukin. Í öðru lagi óska þeir eftir að fá aukna menntun, til þess að geta betur fullnægt þeim kröfum, sem til þeirra eru gerðar. Ég hefi út af því hugsað mér að bera fram þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta athuga og undirbúa fyrir næsta þing, hvort ekki ætti að hætta að taka nýja nemendur í l. bekk kennaraskólans, t. d. þegar á næsta hausti, og undirbúa það, að skólinn yrði lagður niður, — en taka hinsvegar upp tveggja vetra framhaldsmenntun í uppeldisfræði fyrir stúdenta í sambandi við háskólann. Og ennfremur að launakjör núverandi barnakennara verði bætt og þeim jafnframt ætlað að vinna meira en þeir gera nú. Svo endurnýjast stéttin smám saman á þann hátt, sem ég gat um.

Ég vonast til, að hæstv. kennslumálaráðh. líti ekki svo á, eins og mér skildist við 1. umr. þessa máls, að ég vilji helzt eyðileggja menntun barna í landinu, þegar ég hefi nú bent á þetta. Vera má, að þetta frv. verði samþ. nú, en ég mun samt halda áfram að flytja brtt. á næsta þingi um að kjör kennara verði bætt, og að þeir starfi þar, sem börnin eiga heima.