25.04.1936
Efri deild: 56. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (1590)

73. mál, fræðsla barna

Guðrún Lárusdóttir:

Það mun ekki vera til siðs við 1. umr. að ræða mikið um einstök atriði mála, og er það ef til vill óþarfi. En þó eru það nokkur atriði í sambandi við þetta frv., sem mig langar til að drepa á áður en málið fer til n. — Eins og til hagar í þessu landi, þá geri ég ráð fyrir, að það reynist erfitt að koma barnafræðslunni í gott horf, sérstaklega í sveitunum, þ. e. a. s., ef gengið er framhjá sjálfum heimilunum, eins og mér virðist, að gert sé ráð fyrir í þessu frv., þar sem talað er um að reisa þar skólaheimili til langdvalar fyrir börn á skólaskyldualdri, sem á svo að safna saman af stórum svæðum. Heimilin í sveitunum eru ríki út af fyrir sig, ríki, sem hingað til hafa séð börnunum fyrir fræðslu og annazt uppeldi þeirra. Ég hygg, að góð heimili veita jafnan drýgsta og bezta undirstöðuna undir líf og framtíð barnsins, og þess vegna er ég, ásamt fleiri mæðrum, dálítið smeyk við þær breyt., sem þetta frv. stofnar til. Að vísu er það lítið annað en stórfelldar ráðagerðir fyrir framtíðina, enda mun fjárskortur hamla því, að ráðizt verði til framkvæmda bráðlega í stórum stíl. Einnig er í frv. gert ráð fyrir undanþágum fyrir börn frá því að fara í heimavistarskóla í sveitunum eins snemma og í kaupstöðunum. Ég hygg, að það sé ekki ofmælt, að heimilunum yfirleitt muni hrjósa hugur við að afhenda börn sín vandalausum kennurum til undirbúnings undir lífið, og afbenda þeim þá einnig að miklu leyti umráðaréttinn yfir börnunum. Og hvað snertir börnin sjálf, þá verður að taka til greina tilfinningar þeirra. Það eru mörg börn, sem fremur kjósa að vera heima hjá föður og móður og fá þar kennslu heldur en í heimavistarskóla. Þegar verið er að undirbúa löggjöf um fræðslu barna, þá verður að athuga þetta. Ég veit það af viðtali mínu við foreldra um burtför barna af heimilum þeirra, að þeim er það í flestum tilfellum mjög mikið áhyggjuefni. Þau segja sem svo, að þau geti ekki fengið af sér að leggja dýrmætustu eign sína, börnin, í hendur annara kennara en þeirra, er þau treysti fullkomlega til þess að fræða barnið og æfa það í öllu góðu og fögru. Það er næsta eðlilegt, að foreldrar, a. m. k. allir alvarlega hugsandi foreldrar, séu ekki áhyggjulausir í þessu efni, og þeim hrjósi hugur við að afhenda ungt barn sitt í hendur ókunnugum manni, kannske langa leið í burtu, þar sem öllu daglegu sambandi þeirra við barnið er slitið um langan tíma ársins. Samkv. þessu er það ekkert undarlegt, þó að foreldrar vilji sjálfir velja börnum sínum kennara, og ef þau verða óánægð með kennarann, hafa rétt til að geta losnað við hann. En á þessu frv. er svo að sjá, að barnakennarar eigi að vera ráðnir upp á lífstíð, þannig að ómögulegt sé að víkja þeim frá. Ef þetta er misskilningur minn og aðrir hv. þm. hafa lesið þetta á annan hátt, þá verður þetta leiðrétt af þeim, sem betur vita.

Þá er það eitt vandamálið í þessum efnum, sem þörf væri á að leysa úr, en það er, að kennarar, foreldrar og skólanefndir geti haft meiri samvinnu sín á milli um uppeldi og kennslu barnanna en nú á sér stað. Og í því sambandi vil ég spyrja: Hvernig eiga þeir barnakennarar, sem eru bundnir við kennslu í heimavistarskólum allan daginn, að hafa lífræn sambönd við heimili barnanna? Þetta þykir mér stór galli á frv., og það gerir mér erfitt um að fylgja því. Hér er að vísu nokkuð öðru máli að gegna um kaupstaðabörnin, breyt. verður ekki eins mikil þar, þó að skólaskylda barnanna verði lengd og jafnframt kennslutími þeirra. Vormánuðirnir eru sérstaklega góðir til útivistar og námsiðkana úti í náttúrunni fyrir kaupstaðabörnin, og útiíþróttir eru mikil nauðsyn fyrir þau, enda mun þessi fyrirhugaða framlenging barnakennslunnar fram á vorið sérstaklega við það miðuð, þar sem börnin hafa annars ekkert fyrir stafni. — En hér er um allt aðrar ástæður að ræða í sveitunum. Þar hafa börnin svo mikið að gera á vorin úti við, sjálfum sér til hressingar og heimilunum til gagns. Og þau störf eru þeim svo holl og eiga svo vel við börnin, að ekkert skólanám fær jafnazt á við það.

Mér finnst, að í frv. þessu séu einkaskólarnir allt of mikið settir hjá. Þó má búast við, að mörg heimili óski heldur að láta börn sín í þá, þar sem foreldrarnir fá að ráða meira um, hvernig þeim er kennt, og kennslan er jafnvel betur af hendi lýst en í opinberum skólum. En frv. gerir ráð fyrir, að þessir skólar verði sviptir öllum styrk. Það er dálítið hart fyrir fátæka foreldra, sem ekki geta sent börn sín í einkaskóla fátæktar vegna. Það eru gerðar sömu kröfur til þessara skóla, bæði hvað fræðslu og próf snertir, og ég sé því ekki ástæðu til þess að taka svo strangt til orða, að þeir séu sviptir ríkisstyrk með öllu.

Þá vil ég að lokum fara örfáum orðum um kennarana sjálfa, sem eru þriðji aðili þessa máls. Til þess að geta treyst kennurunum þá þurfa foreldrarnir helzt að þekkja þá og hljóta að gera til þeirra allmiklar kröfur, ef þeir eiga öruggir að afhenda þeim börn sín í hendur. Kennararnir eru áhrifamestu menn þjóðfélagsins í uppeldismálunum. Áhrif þeirra fylgja börnunum svo að segja frá vöggu til grafar. Það veltur því ekki lítið á því, hvernig þessir menn eru. Allir góðir foreldrar hljóta að leggja áherzlu á, að þessir menn séu vænir og vandaðir.

Það eru þrjár kröfur, sem ég hygg, að maður komist varla hjá að gera til barnakennara. Fyrsta krafan er sú, að kennarinn sé alger bindindismaður, bæði á áfengi og tóbak. Það er fyrirskipuð fræðsla í barnaskólunum um skaðsemi slíkra nautna, og ég hygg, að ef sú fræðsla á að ná tilgangi sínum og verða til þess gagns, sem ætlazt er til, þá verði sá maður, sem fræðir barnið um þetta, að sýna það sjálfur í verkinu, að honum sé alvara með fræðsluna, hvort sem hún er um vín eða tóbak.

Það er annað atriði í þessu máli, sem er núna mjög tímabært, og það er, að kennari, sem tekur barn til fræðslu, sé hlutlaus í pólitík. Þess er krafizt af dómara, að hann hafi ekki pólitísk störf með höndum og sé hlutlaus, en ég hygg, að barnafræðslustarfið sé ekki síður vandasamt en dómarastarfið. Ég veit, að það þykir mörgum leitt að heyra börn vera að þrátta um stjórnmál, og koma þá með setningar úr skólanum, og hafa þær jafnvel eftir kennara sínum. Kennarinn má vitanlega hafa þá skoðun á stjórnmálum, sem hann vill, en hins verður að krefjast af kennaranum, ekki sízt barnakennaranum, að hann haldi ekki fram stjórnmálaskoðunum sínum í áheyrn nemendanna. Þetta á að sjálfsögðu við um alla tíma, hvaða stjórnmál sem eru efst á baugi og hverskonar stjórn sem situr að völdum; fræðsla kennarans má ekki bera hinn minnsta blæ af þeirri pólitísku stefnu, sem hann aðhyllist.

Þá er ein krafa, sem ég vil gera til allra kennara, a. m. k. þeirra, sem kenna börnunum kristin fræði, að þeir trúi því sjálfir, sem þeir eru að kenna. Ég get tekið dæmi. Hvernig halda menn, að söngkennsla gengi, ef maður, sem kann ekkert í söngfræði, tekur að sér að kenna börnum að syngja, eða maður, sem kynni ekkert í leikfimi, tæki að sér að kenna leikfimi? Hér er um það að ræða, sem er miklu meira virði fyrir sál barnsins en bæði söngur og leikfimi. Þetta er því ein af þeim kröfum, sem foreldrarnir hljóta að gera til kennarans, eða þeir foreldrar a. m. k., sem vilja hlúa að hjartagróðri barnanna.

Þetta eru ekki nema sundurlausir þankar um frv., framkomnir af því, að hér liggur fyrir það mál, sem einna mesta þýðingu hefir fyrir framtíð þjóðarinnar og það, hvort vegur hennar liggur til gæfu og gengis. Það er því mikið undir því komið, að mál þetta sé athugað með gætni og nákvæmni.