30.04.1936
Efri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1604)

73. mál, fræðsla barna

Guðrún Lárusdóttir:

Það má heita góðra gjalda vert að fá að vita þetta. En ég vil spyrja: Hvaða aðstöðu hefir landlæknir frekar öðrum mönnum til að leggja fram álit, sem n. þótti svo mikil ástæða til að bíða eftir, að hún stöðvað afgreiðslu frv. úr nefndinni fyrir það?

Viðvíkjandi fjárframlögum í því skyni að stofna heimili fyrir vangæfa unglinga er það að segja, að ég bar fram brtt. um nokkurra þús. kr. framlag til þess að kosta dvöl vangæfra barna, þar til ríkið hefði stofnsett heimili fyrir þau. Ég tók þessa brtt. aftur til 3. umr. samkv. beiðni hv. frsm., og bíð ég nú átekta til þess að sjá, hvað gert verður í því efni. Og þó að fjvn. fallist á að veita umbeðna upphæð, þá er það aðeins bráðabirgðaúrlausn, sem fellur fullkomlega saman við þetta frv. Hvað sem landlæknir segir, þá sé ég ekki, að það sé nein ástæða til þess að hamla því, að eitthvað sé gert í þessum málum, því við komumst ekki heldur hjá því öllu lengur að áætla fjárframlög til slíkra stofnana, svo aðkallandi er nauðsynin á að hefjast handa um þessi mál.