02.05.1936
Efri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1048 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

73. mál, fræðsla barna

*Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

N. hefir að vissu leyti klofnað um þetta mál. Hv. 5. landsk. og ég höfum lagt til með rökst. dagskrá, að málið yrði athugað betur. Hinsvegar er í dagskránni fólgin ósk um það, að málið verði ekki svæft, heldur bætt. Hv. 1. þm. N.-M. hefir sennilega ekki haft tíma til að gefa út nál., en gerir þá að sjálfsögðu grein fyrir afstöðu sinni. Ég álít ekki rétt, að málið sé afgr. í hv. d. án þess að þetta álit sé komið fram, en þar sem það liggur ekki fyrir, mætti taka fyrir þau atriði, sem okkur meiri hl. n. hefir sérstaklega fundizt, að betur þyrfti að athuga og erfitt væri nú að gera á þær breyt., sem gætu talizt fullnægjandi. Þetta mál er þannig undirbúið, að frv. er samið af þremur ágætum skólastjórum — í Reykjavík, á Akureyri og Ísafirði — og það síðan sent út um land til umsagnar fræðslunefnda þar. Frv. er svo lagt fram í hv. Nd., og þar er svo dregið úr þeim kaflanum, sem mest kom sveitunum við, að svo má beita, að þau ákvæði, sem þar eiga við, séu að mestu leyti orðin bráðabirgðaákvæði; að vísu stendur III. kaflinn eftir, að hver sýsla skuli vera sjálfstætt fræðsluhérað og sameiginlegt fræðsluráð fyrir sýsluna, en svo sérstök skólahverfi innan sýslunnar. N. vill stofna sjóði til bygginga á heimavistarskólum í sveitum, en af skiljanlegum ástæðum var það tekið burt úr frv. í hv. Nd., svo að ekki þarf að búast við framkvæmdum í þá átt, og allur sá kafli er mjög þýðingarlítill.

Þá eru á þessu frv. á þskj. 407 í 4. gr. taldar upp þær kröfur, sem gerðar eru við fullnaðarpróf barna. Þar hefði mátt búast við aðalumbótunum og að gerðar hefðu verið góðar breyt. á kröfunum um fræðsluna, en því fer fjarri. Þar eru engar breyt., sem nokkra þýðingu hafa. og yfirleitt má segja, að í frv. sé engin breyt. frá því, sem nú er og geti talizt til góðs fyrir börnin — engar þær breyt., sem þeir, sem reynslu hafa fengið á núv. fræðslulögum, hafa þó fyrir löngu viðurkennt, að þyrfti að gera. Aðalbreyt. er fólgin í bráðabirgðaákvæðinu, sem er á eftir 28. gr., og er því máli þannig háttað, að það er ekki rétt að kalla þetta breyt. á fræðslulögunum frá 1926, heldur mætti nefna það breyt. á launalögunum frá 1919, og þess vegna verður að meta þetta atriði alveg út af fyrir sig. (Ég vil beina þessu til hæstv. ráðh., þar sem hann talaði ekki um þetta við 1. umr.). Frá sjónarmiði okkar tveggja í meiri hl. n., þótt við ekki séum að öllu sammála, þá vorum við sammála um, að af þessum þremur aðiljum, sem hér eiga hlut að máli, sem sé kennarar, foreldrar og börn, þá stefni þetta frv. ekki til þess að bæta hugsmuni nema eins aðiljans. Það er ofurlítið launabótamál fyrir kennarana, en bætir í engu fyrir foreldrum eða börnum. Ég vil beina athygli að því, ef hæstv. ríkisstj. er áhugamál að koma þessu máli í gegn, að eins og það er nú, er ekki hægt að líta á það öðruvísi en sem launafrv., sem eingöngu sé borið fram til hagsbóta fyrir eina stétt manna, og á því byggir meiri hl. n. ósk sína um, að málið verði tekið aftur til ýtarlegrar yfirvegunar, að við sjáum ekki ástæðu til þess og ekki réttlæti í því, þar sem málið kemur þremur aðiljum við, að tekið sé aðeins það, sem veit að starfsemi og hagsmunum eins aðiljans, kennaranna, en ekkert gert til góða fyrir hina tvo aðiljana, skattþegnana og börnin, nema síður sé, eins og ég mun víkja að síðar. Af þessu leiðir það, ef frv. verður samþ., að á næsta þingi yrði að taka fyrir hin atriðin, sem sérstaklega snerta uppeldishliðina, og þá einnig það, sem veit að skattþegnunum.

Ég álít, að kjarni þessa frv. ætti fyrst og fremst að vera um kennsluna og hvernig henni mætti haga, svo að börnin yrðu betur sett eftir en áður. Ég álít þess vegna, að það sé tvíverknaður að vera að taka þetta atriði út úr samhengi nú, og ég álít ennfremur, að þessi meðferð málsins sé alls ekki í samræmi við óskir kennaranna, enda þótt þeir hafi þörf fyrir að bæta hag sinn. Það má heita ómögulegt fyrir þá að afla sér sumarvinnu, og það er ekki heldur gott fyrir þá að vera á flækingi að leita sér vinnu. En ég álít, að þetta mætti laga meira en gert er. Kennarastéttin hefir opin augun fyrir fleiri málum en hækkuðum launum. Hún hefir líka skilning á aukinni menntun kennara og á störfum þeirra. Ég hefi verið á fjölmennum kennarafundi hér í bænum, og mér hefir heyrzt, að þeir mundu vel við una, að kennslu væri breytt svo, að þeir væru lengri tíma við starf sitt, ef launakjör þeirra væru bætt svo, að þeir gætu beitt kröftum sínum óskiptum að starfinu. Þetta er ekki gert í frv., og ég skil ekki, hvers vegna það er ekki gert, þegar á þann hátt er réttilega komið til móts við kröfur kennara. Þeir sætta sig við aukin störf með launahækkun. Þeir óska eftir þeirri breyt., og þá er ekki nema alveg sjálfsagt að verða við þeirri ósk.

Ég ætla þá að minnast nokkuð á einstakar gr. frv. Í 1. gr. er svo ákveðið, að öll börn á landinu skuli skólaskyld á aldrinum 7–14 ára. Þetta er töluverð breyt. frá því, sem er, a. m. k. í sveitum, og umdeilt mál jafnvel í bæjum, hvort ekki eigi að hafa kennsluna takmarkaða við lestur og skrift. og ég get hugsað mér, að víða í landinu verði allmikil átök um þetta, og að foreldrar vilji ekki láta þvinga börn sín til að sitja allan þennan tíma á skólabekkjum við efnislaust og andlaust nám. Það er að vísu gert ráð fyrir, að slaka megi á þessu, og var í hv. Nd. sett inn undanþága frá þessu ákvæði. En svo kemur í 3. gr. fram ein hugsun, sem okkur í n. virtist nokkuð torskilin og ég vildi skjóta til hæstv. ráðh. til nánari útskýringar. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Skólanefnd má veita heimild til fullnaðarprófs börnum, sem eru yngri en 14 ára, þegar tryggt er, að barnið njóti framhaldsfræðslu til fulls 14 ára aldurs.“

Nú vil ég stanza við þetta atriði. Þetta verður ekki skilið á annan hátt en þann, að ef barn er mjög vel greint og hefir verið á góðu heimili, sem hefir veitt því mikla fræðslu, þá sé því ekki haldið niðri, ef það þyki fært til þess 12 ára að taka það próf, sem börn taka annars 14 ára. En þá sýnist okkur, sem ekki erum sérstaklega með því að halda börnum of lengi í skóla og láta það endurtaka það, sem það áður hefir numið, að eðlilegast væri að sleppa barninu, ef það er búið að taka það próf og fá þá þekkingu, sem lög ákveða. Hvers vegna á þá að halda barninu áfram í skóla? Og í hvaða skóla á það þá að vera? Sennilega ekki í gagnfræðaskóla og ekki í héraðsskóla, til þess er það of ungt. Þetta ákvæði — ef ekki kemur á því einhver ný skýring, sem mér er nú ekki ljós — stendur hér sem vottur um þá galla, sem ég tel að séu á frv. Þótt frv. sé samið af þessum ágætu kennurum, þá er eins og þeir hafi gleymt því, að börnin ættu að vera með í leiknum.

Hvað á að gera við þessi börn? Hvers vegna mega þau ekki vera börn? Hvers vegna mega þau ekki vera heima og leika sér, lesa Íslendingasögur eða aðrar góðar bækur, iðka sport og annað þess háttar? Hvers vegna þarf þjóðfélagið að skylda þau til að vera í skóla?

Ég hefi hugsað um brtt. við 4. gr., og getur skeð, að ég beri hana fram seinna, ef málið heldur áfram í gegnum þessa hv. d. En ég vil nú minnast á 4. lið 4. gr., þar sem það er tekið fram, að börn skuli kunna höfuðatriði almennra brota, tugabrota og prósentureiknings og að reikna flatar- og rúmmál einfaldra hluta. Ég ætla ekki að fjölyrða um þennan lið, en ætla aðeins að segja það, að þessu atriði álít ég, að hv. d. eigi að breyta með ýmsum minni háttar atriðum, ef frv. á að ganga áfram. Ég skal taka dæmi hér úr bænum. Ég vissi hér um mann, sem er menntaður erlendis og talinn er ágætur kennari; hann var að kenna börnum hér og hafði meðal annars 10 ára barn frá fyrirmyndar heimili til kennslu. Hann var kominn með barnið í brotareikning, og það skildi ekkert í reikningnum, og við því hefði auðvitað ekkert verið að segja, ef þetta hefði verið hjá lélegum kennara, en þegar þetta er hjá þeim kennara, sem sérstaklega er hugað um þessa hlið, þá sýnir það þeim, sem í alvöru vilja um þetta hugsa. hve vafasamt þetta nám er.

Ég skal nefna annað dæmi. Hér við skóla er einn sérstaklega góður reikningskennari, beinlínis frægur reikningskennari, sem hefir getið sér orðstír fyrir það, hve vel hann getur útskýrt reikning. Mér hefir verið sagt af syni hans, að hann sé kominn að þeirri niðurstöðu, að ekki sé til neins að halda brotum að börnum í barnaskólum; þau, sem sérstaklega hafa gáfur í þá átt, geti vitanlega lært þau, en hinum börnunum, sem séu mörg, sé misboðið með því. Ég skal svo bæta við dæmi, sem ég mun hafa sagt hér áður, úr einum héraðsskóla hér, þar sem talinn er mjög góð almenn menntun; lærisveinarnir voru þar 53. Eitt af dæmum þeim, sem þeir fengu við próf, var þannig, að þeir áttu að skipta jörð milli 3 manna, þar sem einn hafði 1/3, annar ¼, og svo var spurt, hvað sá þriðji hefði þá mikinn hluta af jörðinni. 2 af 53 gátu reiknað þetta eftir kúnstarinnar reglum, en einn gat reiknað það án þess að fara eftir þeim reglum, sem kenndar voru í skólanum. Nú veit ég, að þetta fólk er ekki lakara en gengur og gerist. Þetta er fólk, sem gengið hefir í gegnum okkar barnafræðslu, eins og hún er. En hvað sýnir þetta svo? Það sýnir, að brotakennslan verkar yfirleitt þreytandi á börnin, og að það er ekkert gagn að henni. Krakkarnir eru yfirleitt búnir að gleyma henni, þegar þeir eru komnir á 15 ára aldur. Þá fer líka mjög mikill hl. af unglingunum í aðra skóla. Og hvað eiga þeir að læra þar í stærðfræði, ef þeir mega ekki eiga eftir að læra brot?

Ég vil svo ljúka þessari aths., þar sem ég hefi tekið þetta dæmi, með því að ég álít, að kennslustundirnar eigi að vera færri, og það má segja, að það sé raunverulega aðalgallinn á kennslunni, sérstaklega eins og hún kann að verða eftir þessu frv., ef það gengur fram óbreytt. Það lengir skólagönguna, en mjög víða fer hún eftir þeim farvegi og reglum, sem verið hafa lengi. Niðurstaðan verður sú, að þar sem skólarnir reyna að troða meira í börnin heldur en þau geta tekið á móti, og sérstaklega þegar skólarnir reyna að koma inn í þau þekkingu á þeim aldri, þegar þau eru ekki móttækileg fyrir hana, þá verður það leiðinlegt og þreytandi fyrir börnin. Og það er ekki hægt að neita því, án þess að kenna barnaskólunum beinlínis um það. því þeir hafa við margskonar erfiðleika að stríða, bæði hvað bókasöfn og húsakynni snertir, að það er dálítið ískyggilegt, að lestur á okkar bókmenntum, bæði fornbókmenntum og ljóðum 19. aldarinnar og jafnvel 20. aldarinnar, er svo herfilega vanræktur af ungu kynslóðinni sem raun ber vitni um. Ég vil ekki segja neitt ljótt um barnaskólana, en þetta er ekki lof um þá. Það er ekki bending um það, að okkur takist með núverandi formi á barnafræðslunni að ná þeim árangri, sem við viljum ná, því það er óhjákvæmilegt, ef unga kynslóðin á að vera sæmilega að sér í málinu, að þessir tveir þættir séu teknir með, fornbókmenntirnar og skáldskapur 19. aldarinnar.

Ég kem þá að atriði í 6. gr. frv. þar eru ný ákvæði, sem eiga að tryggja það, að börnin séu vissa vikutölu í skóla. Þetta er undirstaðan að aðalbreyt. frv., sem sé því, að kennarar fái hærra kaup, vegna þess að þeir eiga að kenna lengur. Í þessari gr. er sagt, að börn á aldrinum 7–9 ára í heimangönguskólum með 3 kennara eða fleiri skuli vera minnst 33 vikur á ári, 500 kennslustundir. Þetta er nokkuð mikið, því það samsvarar því, að börnin séu meiri hluta árs, eða 2/3 úr ári, 2½ stund á dag í skóla, ef ég man rétt. Þetta álít ég, að sé algerlega óþarft, ef það á aðeins að kenna krökkunum það, sem ég álít, að eigi að kenna þeim á þessum aldri, en það er lestur og skrift. Það er kunnugt, að með þeirri aðferð, sem nú þekkist og farið er að nota hér, þá eru börn gerð læs á 3 mánuðum með þeim stundafjölda, sem ég gat um áðan. Það er ómögulegt að halda öðru fram en því, að það megi alveg búast við því um þessi litlu börn, sem eiga að vera í skólanum 33 vikur á ári, frá því þau eru 7 ára, að það verði farið að misbjóða þeim með of þungu námi, og sérstaklega af því að þetta er orðið, eins og ég hefi tekið fram, aðalatriðið í frv., að til þess að geta bætt laun kennaranna, þá er skólatími barnanna lengdur. Það getur því farið svo, að börnin verði beinlínis verr sett eftir þeirri reynslu, sem við höfum nú, ef farið er að lengja skólagönguna frá því, sem verið hefir undanfarið.

Hv. dm. geta svo séð, hvernig þetta fyrirkomulag er hugsað áfram. Það er ætlazt til þess, að börnin á hinum gamla skólaskyldualdri, 10–14 ára, séu minnst 21 vikur á ári, 700 kennslustundir, í skóla, og það er að jafnaði hálft árið með fullum kennslustundafjölda. Jafnvel í heimavistarskólum í sveit skilst mér, að námstíminn eigi að vera 4 mánuðir á ári, sem þýðir það, að börnin eigi að vera svo lengi, hvernig sem á stendur. Það má gera ráð fyrir því, að þetta geti ekki staðizt til lengdar, því að reynslan er á móti því. Það er engin ástæða til þess að neyða sveitamennina til þess að hafa börnin lengur í skóla en þau þurfa vegna þess uppeldis, sem þau eiga að fá.

Ég ætla þá að hlaupa yfir miðkafla frv., og til þess að geta heyrt eitthvað af ræðu hæstv. ráðh., þar sem ég þarf að fara burtu kl. 3, þá ætla ég aðeins að minnast aftur á bráðabirgðaákvæðin. Þar segir, að hvert skólahverfi hafi rétt til kennarafjölgunar miðað við 50 börn á aldrinum 7–14 ára, eða 30 börn á aldrinum 10–14 ára við heimangönguskóla. Þetta er algerð breyt. frá því, sem ég veit, að kennarar hafa búizt við, að yrði. Með þessu ákvæði, eins og það er á bls. 9 í frv., þá geri ég ráð fyrir, að það séu ekki núna nema 30 börn um einn kennara á þessum venjulega, gamla skólaskyldualdri. Þá er þetta engin umbót frá því, sem nú er, þar sem er einn kennari um einn bekk, en venjulega eru 30 börn í einum bekk, og er þá enginn samdráttur. Með þessu móti fá börnin ekkert hlé frá bóklega náminu, eins og ég álít, að ætti að vera, og að í þess stað ætti að koma sumpart vinnunám og sumpart íþróttir. Það má segja, að þessu megi breyta, og þessu verður líka breytt. Ég hefi þá trú, að foreldrarnir og börnin muni láta til sín taka að einhverju leyti, ef slíku kennslulagi er ætlað að standa til lengdar.

Ég ætla svo ekki að tala meira um þetta núna, en ég vænti þess, að mál. meiri hl. komi síðar í dag, svo að hæstv. forseti geti þá haldið áfram umr., ef það þykir henta.