02.05.1936
Efri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

73. mál, fræðsla barna

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi leyft mér að koma hér fram með nokkrar brtt., og eru þær nú að sumu leyti ekki nýir gestir hér á Alþingi. Ég er sem sé á þeirri skoðun, að það sé ófært að ákveða skólaskyldu barna í sveit og smákauptúnum við 7 ára aldur. Raunar eru í þessu frv. ákvæði um, að það megi veita undanþágu frá þessu ákvæði. En ég hefi átt tal við þá menn, sem ég er umboðsmaður fyrir, og sem á þingmálafundum bæði í fyrra og í vetur samþ. um það mjög ákveðnar till., að skólaskyldan yrði ekki færð niður í 7 ár í sveitum og smásjávarþorpum. Ég verð að segja, að þeir leggja svo mikla áherzlu á það, og ég líka, að þessar till. verði samþ., að ég mun ekki sjá mér fært að fylgja frv., ef þær verða felldar. Það er svoleiðis, að það er ómögulegt fyrir mörg heimili, sem hafa ómegð, að kosta börn í skóla, þegar frá 7 ára aldri. Og margir eru ennþá þannig gerðir, að þeir vilja ekki þeirra hluta vegna einna neyðast til að leita til hins opinbera. jafnvel þó að það sé engin vansæmd fyrir menn að leita til þess opinbera til þess að fá fræðslu handa börnunum sínum. Í öðru lagi er það svo, sem betur fer, að það er víða, sem háttar svo til í sveitum, að það er hægt að segja börnum til með það, sem þau helzt þurfa að nema, svo sem lestur og skrift, á sjálfum heimilunum. Og þar sem heimilisfræðsla er í einhverju lagi, er það víst, að börnin hafa betra af þeirri kennslu á þessum aldri heldur en fara í skóla. Ég þekki þess fjölda dæma einmitt úr mínu héraði, sem er ákaflega erfitt um alla skólasókn, að þar hefir það komið í ljós, að framför þeirra barna, sem nema heima, er engu minni, heldur þvert á móti betri heldur en hinna, sem hafa haft aðstöðu til að sækja skóla.

Þá á ég brtt. við 3. gr. Ég verð að taka undir það, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, að mér þykir undarlegt, að það skuli vera sett sem skilyrði fyrir því, að barnið fái að taka fullnaðarpróf áður en það hefir náð 14 ára aldri, að foreldrarnir geti tryggt það, að barnið fái framhaldsfræðslu. Nú mun það vera svo með bráðþroska börn, sem ljúka sínu barnaskólanámi 12–13 ára, að foreldrarnir munu, ef þau hafa nokkur tök á því. láta þessi börn halda áfram námi. Ég sé ekki, að það þurfi að setja fyrir því takmörk, að barnið fái að taka fullnaðarpróf, þegar það hefir náð þeirri þekkingu, sem heimtuð er. Mér hefði komið það undarlega fyrir, ef mín börn, sem hafa lokið barnaskólanámi 12–13 ára hefðu ekki fengið að taka próf, nema ég hefði getað tryggt, að þau fengju framhaldsnám til 14 ára aldurs. Þessu mundi sérstaklega verða beitt gagnvart þeim heimilum, sem eru fátæk og geta ekki sýnt verulega tryggingu fyrir því að geta kostað börnin áfram til náms. Ég vil þess vegna láta fella niður úr 3. gr. þetta ákvæði.

Þá er brtt. við 10. gr., en hún er um, að sameina megi hreppa eða hluta úr fræðsluhéraði í annari sýslu, ef henta þykir. Ég vil þarna láta slá þann varnagla, að þeir, sem þarna eiga hlut að máli, verði að spurðir, og að þetta verði ekki gert, nema hlutaðeigendur óski. Það geta verið aðrar ástæður en landafræðilegir staðhættir fyrir því, að hluti af hreppi óskar ekki að sameinast skólahéraði annarar sýslu. Og ég vil, að það sé tekið tillit til þeirra ástæðna, ekki síður en þeirra landafræðilegu ástæðna. Þá finnst mér og ákvæðin í 15. gr. um það, að fræðsluráð geti fyrirskipað stofnun skólabyggingasjóðs fyrir skólahverfi, sem teljast hafa vanrækt skyldur sínar um byggingu skólahúsa eða viðhald þeirra. Það er öllum vitanlegt, að hrepparnir eiga við þröngan fjárhag að búa, og það er í flestum tilfellum mjög erfitt að ná inn því fé, sem samkvæmt núgildandi reglum á að borga til hreppssjóðanna. Það getur staðið svo á í bili, að hreppsnefnd í einhverju skólahéraði sjái sér ekki fært að leggja á ný gjöld, og þá vil ég, að það sé a. m. k. ekki hægt af fræðsluráði að skylda þá til þess, nema um endurtekna vanrækslu sé að ræða á byggingu skólahúss. Þar að auki er þess að gæta, að um mörg undanfarin ár hefir ekki verið lagt fram af hálfu ríkissjóðs nægilegt fé til þess, að hægt sé að byggja skólahús utan kaupstaðanna. Ég hefi tvisvar sinnum flutt till. um hækkað tillag til byggingar barnaskólahúsa utan kaupstaða, og í bæði skiptin hefir hún verið felld. Meðan svo er, að ríkisvaldið leggur ekki fram sinn hluta byggingarkostnaðarins, hvernig er þá hægt að segja, að um vanrækslu sé að ræða um byggingu skólahúss í einhverju héraði? Því að enginn getur vonazt eftir, að skólahéraðið leggi fram allan kostnaðinn og eigi ef til vill von á að fá hluta ríkissjóðs greiddan eftir mörg ár. Það er það, sem nú hefir skeð. Ég veit um mörg skólahéruð, sem hafa byggt skóla á 5–8 síðustu árum og hafa ekki ennþá fengið tilskildan ríkissjóðsstyrk til byggingarinnar. — Í samræmi við 1. brtt. flyt ég brtt. um það, að próf skuli haldin í kunnáttu og leikni barna frá 9–14 ára aldri. Að öðru leyti eru ýms ákvæði í frv., sem ég felli mig miður vel við, en ég hefi þó ekki flutt brtt. við að þessu sinni. Ég vildi benda á það, að hin rökstudda dagskrá á þskj. 482 er tæplega frambærileg eins og hún er orðuð, því að hún er bæði till. um að vísa málinu til stj. og einnig rökstudd dagskrá. (JBald: Og nál. að auki). Það mun vera rétt fyrir flm. þessarar till. að athuga þetta. Það má náttúrlega vísa málinu til stj. með einfaldri till., en ég efast um, að formið á þessari till. sé rétt.