05.05.1936
Efri deild: 65. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1064 í B-deild Alþingistíðinda. (1622)

73. mál, fræðsla barna

*Þorsteinn Briem:

Það hefir dregið til tveggja skauta með þetta mál hérna í þinginu. Það hefir verið borið fram af miklu kappi og líka verið lagzt af ærnu harðfylgi á móti því. Ég held, að í þessu máli, sem oftar, sé sannleikurinn sem næst því mitt á milli. Í samræmi við þá skoðun mína hefi ég borið hér fram nokkrar brtt., sem skoðast mega sem miðlunartill.

Andstæðingar frv. hafa haldið því fram, að það væri sérstaklega áberandi í frv., að fræðslumálastjóra væri ætlað of mikið vald til þess að fyrirskipa um fræðslufyrirkomulagið, en hinsvegar væri þetta vald dregið úr höndum fræðslunefnda sveitanna frá því, sem verið hefði. Það má nú vel vera, að yfirleitt hafi fræðslumálastjóri aðstöðu og getu til þess að meta hvert mál rétt, en þar sem hann hlýtur allvíða að bresta staðlega þekkingu, hefi ég flutt 1. brtt. mína við 2. gr. Síðari mgr. 2. gr. hljóðar svo í frv.: Nú hefir skólahverfi vanrækt fræðslu þarna, og getur þá fræðslumálastjórnin fyrirskipað skólaskyldu barna á aldrinum 7–10 ára í hverfinu.

Það getur að vísu verið gott, að fræðslumálastjóri hafi þetta vald, en þó er verr farið en heima setið, ef því er harkalegu beitt. Ég legg því til, að það verði gert að skilyrði fyrir því, að skólaskyldu, jafnvel niður í 7 ár, verði komið á, að viðkomandi skólanefnd hafi ekki látið skipast við ítrekaða áminningu fræðslumálastjóra og fræðsluráðs. Slíkar áminningar hafa oft sína þýðingu.

2. brtt. mín er við 4. lið 4. gr., þar sem talað er um kröfur í reikningi. Annar hv. þm. hefir bent á, að þessar kröfur muni vera fullháar, en ég vil þó ekki láta slaka á kröfunum um almenn brot og tugabrot, en legg hinsvegar til, að prófkröfum um prósentureikning sé sleppt, en þó geti börn átt kost á að læra hann. Þá flyt ég brtt. um það, að í stað þess, að barnið skuli kunna að reikna út flatarmál og rúmmál einfaldra hluta, komi „einföldustu hluta“. Þannig er t. d. ekki auðvelt fyrir barn að reikna út rúmmál brotinnar keilu, þótt segja megi, að það sé einfaldur hlutur. Sama má segja um það, að reikna út flatarmál átthyrnings, en ekki myndi ég telja hann til einföldustu hluta. Hinsvegar myndi það teljast til einföldustu hluta að reikna út flatarmál stofugólfs eða kálgarðs. Þá hefi ég flutt brtt. um það, að við gr. bætist ákvæði um það, á hverja af þessum 11 liðum skuli lögð mest áherzla, og legg því til, að mest áherzla skuli lögð á móðurmálið, kristindómsfræðsluna og móðurmálið, virðist og röðin á námsgreinunum í frv. benda til þess, að til þessa sé ætlazt, en ég tel þó réttara að taka þetta fram með berum orðum.

Þá flyt ég brtt. við 6. gr., þar sem ræðir um, að heimavistarskóla skuli byggja þar, sem heimangönguskóla verður ekki við komið. Ég vil bæta við orðunum „ef óskað er“. Ég býst ekki við því, að fjárveitingavaldið geri meira í bráð en að fullnægja þeim óskum, sem fram koma í þessu efni, og hygg, að það muni ekki hafa neina freistingu til þess að gera meira. Ég álít líka, að bezt muni á því fara, að hér sé ekki um neina nauðung að ræða, heldur komi óskirnar frá heimilunum sjálfum. Um þetta fyrirkomulag er þegar fengin nokkur reynsla, og hvað sem um hana má segja, er ekki úr vegi að athuga málið áður en gripið er til nauðungarráðstafana í þessu efni, og það því fremur sem fjárveitingarvaldið á jafnerfitt og nú.

Þá hefi ég flutt brtt. við 2. málsgr. stafl. b í 6. gr., að á eftir „heimangönguskólum“ komi: í kauptúnum. Ég held, að margir líti svo á, að 33 vikur fyrir börn á aldrinum 7–9 ára sé of langur tími í sveitum. En þótt ég hafi orðað þetta svo, að það nái eingöngu til heimangönguskóla í kauptúnum, hefi ég ekki við það að athuga, þótt það nái líka til byggðahverfa, eins og eru t. d. suður með sjó, og vil ég geta þess, að ég vil túlka till. svo. Þá legg ég til, að aftan við gr. bætist, að skóla skuli slitið eigi síðar en í maílok, en í frv. er þetta lágmark. En verið gæti þó, að einhver skólahverfi vildu fara fram úr þessum tíma. En þá kysi ég heldur, að skólinn byrjaði í september, heldur en hann starfaði fram í júní. Ég vil miða lögin við það, að börnin geti notið óhindraðrar útivistar að vori og sumri. Ég get hugsað mér, að hér í Reykjavík verði farið fram úr þessum tíma, og þá er sjálfsagt að byrja kennsluna heldur fyrr að haustinu en að láta hana ganga fram á vorið. Auk þess senda margir foreldrar börn sín í sveit á vorin eða fyrri hluta sumars, og væri illt, ef skólahaldið yrði því til hindrunar. Ég vænti því þess, að þessi brtt. mæti skilningi hjá þeim, sem hafa augu og hjörtu fyrir því, hversu sambandið við náttúruna er börnunum mikilsvert.

Næsta brtt. er við 10. gr., á þá leið, að sameina megi hrepp eða hluta úr hreppi fræðsluhéraði annarar sýslu, ef henta þykir og fræðslumálastjóri mælir með því. Í frv. er um valdboð að ræða, en ég hefi meiri trú á samningaleiðinni. Hv. þm. N.-Ísf. hefir einnig flutt brtt. um þetta, sem að vísu gengur nær efni frv., og get ég eins vel fylgt henni.

Þá er smávægileg brtt. við 13. gr., um að skólanefnd megi fela skólastjóra að semja skýrslur um skólaskyld börn og áætlun um útgjöld. Þetta myndi að vísu oftast verða svo, en mér finnst rétt að taka það fram. Enda flyt ég brtt., sem gerir ráð fyrir verulegum hlunnindum skólastjórum til handa fram yfir það, sem frv. ætlast til.

Þá er önnur brtt. við sömu gr., sem ég býst ekki við, að mæti mótstöðu.

Næst kemur brtt. við 15. gr. Hún er á þá leið, að í stað þess, að samkv. frv. getur fræðsluráð fyrirskipað stofnun skólabyggingarsjóðs fyrir skólahverfi, sem telst að hafa vanrækt skyldur sínar um bygging skólahúss eða viðhald, komi, að fræðsluráð setji reglur um viðhald skólahúsa og gæti þess, að þeim reglum sé fylgt. Það kann að vera gott, að fræðsluráð hafi þetta vald, en ég held, að ekki þýði að fyrirskipa slíkar sjóðstofnanir, ef vilja eða getu vantar. En hinsvegar verður að leggja áherzlu á það að varðveita þær eignir, sem til eru. Það er hörmulegt að sjá, hve illa hirt skólahús eru sumstaðar úti um landið.

Ég hefi gert till. um að breyta þessari gr. á þann hátt, að fræðsluráð gæti sett reglur um viðhald skólahúsa og gætti þess, að þeim væri fylgt.

Þá hefi ég gert brtt. við 17. gr. frv., sem ég vil vænta, að mæti ekki andmælum, því að þar er um svo sjálfsagt atriði að ræða. Í gr. stendur, að ríkisstyrkur til skólahúsa sé bundinn því skilyrði, að skólalóðin sé eign skólahverfis eða skólabyggingarsjóðs, og að fræðslumálastjórnin hafi samþykkt stærð hennar.

Nú eru ýms dæmi þess, að skólanefnd hefir ekki átt kost á því að fá hentuga lóð til kaups undir skólahús, enda þótt hægt hafi verið að fá hentuga lóð með óuppsegjanlegum leiguskilmálum. En ég vil ekki, að komið verði í veg fyrir það, að hægt sé að reisa skólahús á hentugasta staðnum aðeins vegna þess, að ekki hefir verið hægt að fá lóðina til eignar. Ég flyt því þá brtt. við 17. gr., að nægilegt sé, að afnotaréttur lóðarinnar skuli tryggður með óuppsegjanlegum leigusamningi.

Þá hefi ég leyft mér að flytja brtt. við 27. gr. frv., þar sem ræðir um lögbundin leyfi í skólum. Þar er sagt, að jólaleyfi skuli byrja 16. des. og standa til 3. jan., að báðum dögum meðtöldum. Ég tel óþarft að setja svo bindandi ákvæði um þetta í lög. Ég ætla, að um þetta megi vera rýmri ákvæði í lögum, og tel, að skólanefndir geti hagað þessu eftir vild og sett ákvæði um það í reglugerð, eftir því sem bezt þykir henta í hverju skólahverfi. Ég er ekki kunnugur hér í Reykjavík, en þó hefði ég hugsað, að það væri hentara, að jólaleyfið byrjaði síðar í desember, en stæði svo lengur fram yfir nýár. Ég vil ætla, að jólatrésskemmtanir fyrir börn séu nokkuð fram yfir nýár, og væri þá heppilegra, að kennsla í barnaskólum þyrfti ekki að hefjast 3. jan., en að jólaleyfið yrði ekki látið byrja fyrr en 20. des. En það, sem sérstaklega vakti fyrir mér, voru þó heimavistarskólarnir. Það mun vera svo til ætlazt, að börnin dvelji ekki í heimavistarskólunum meira en ½ mánuð í senn, og að þau fái svo frí eða hvíld á milli til þess að átta sig á kennslugreinum og verkefnum skólans. Það mun vera fengin reynsla fyrir því, að árangurinn verður meiri og að kennslan kemur að betri notum fyrir börnin á þennan hátt heldur en þegar skólinn er látinn standa stöðugt, án hvíldar fyrir börnin. En þar sem svona hagar til í heimavistarskólum og við farkennslu, þá tel ég óþarft að hafa svo langt jólaleyfi sem ákveðið er í frv. Ég tel ekki ástæðu til að láta það byrja 16. des., heldur sé það á valdi skólanefnda, og ákveðið eftir því, sem þær telja heppilegast. Því hefi ég flutt 9. brtt. mína, við 27. gr., þess efnis, að aftan við gr. bætist ný málsgr. svo hljóðandi: „Þó má í reglugerðum einstakra skóla setja önnur ákvæði um jólaleyfi.“

Loks hefi ég flutt á sama þskj. brtt. við bráðabirgðaákvæði frv., þar sem um það ræðir, að skólastjóri í kaupstöðum og heimavistarskólum taki laun fyrir einn mánuð umfram kennslutíma.

Nú er það vitanlegt, að ýms kauptún eru þegar komin að því að hafa jafnmarga íbúa og sumir kaupstaðirnir, og til er kauptún, sem hefir fleiri íbúa en 2 fámennustu kaupstaðirnir. Þess vegna tel ég það ranglátt, að skólastjórar í þeim kauptúnum njóti ekki sömu aðstöðu og skólastjórar í kaupstöðunum. Ég legg því til, að í kauptúnum, sem hafa yfir 1000 íbúa, öðlist skólastjórar við barnaskóla þar sömu réttindi og skólastjórar í kaupstöðum. Barnatalan fer vanalega eftir fólksfjölda, og er það því augljóst, að skólastjórar og kennarar í þessum fjölmennu kauptúnum hafa jafnmiklar skyldur og störf og stéttarbræður þeirra í fámennustu kaupstöðunum. Ég vona, að hv. þd. líti svo á, að þessi till. sé sanngjörn í garð þessara skólastjóra.

Það var um það rætt með sterkum orðum við 2. umr. þessa máls, hversu erfitt og vandasamt það væri að fá sem bezta menn til þess að stjórna heimavistarbarnaskólum og kenna við þá. Ég skal ekki draga úr því. En mér finnst það vera neyðarúrræði að fara inn á þá leið að heimila skólanefndum að segja skólastjórum og kennurum við þessa skóla upp störfum þeirra með eins árs fyrirvara, sem þeir hafa þó verið skipaðir til að gegna. Ég hygg, að það verði að búa þar betur um hnúta og setja um það fyllri ákvæði, áður en skólanefndum er veitt vald til þess að segja skólastjórum og kennurum þannig upp stöðum þeirra. Það getur vitanlega komið fyrir, að skólastjórar og kennarar vinni til saka og eigi skilið að fá uppsögn. En hitt getur einnig átt sér stað, að þeim verði sagt upp störfum án saka. Ég get fyllilega hugsað mér, að skólastjóri verði sekur talinn um stjórnmálaáróður, og það er vitanlega slæmt, en hitt er líka hægt að hugsa sér, að það gæti öfga í stjórnmálaskoðunum hjá meiri hluta skólanefndarinnar. Ég get því ekki fallizt á þá skoðun, að það megi fá skólanefndum slíkt vald í hendur. Ég álít, að það þurfi að búa betur um hnúta og það verði fleira að koma til í þessu falli, áður en til slíkra ráða yrði tekið.

Hinsvegar er það jafnmikilsvert að geta byrgt brunninn og koma í veg fyrir, að óhæfir menn verði skipaðir kennarar við heimavistarskóla. Og vil ég leggja mikið upp úr því, að fólkið, sem býr í skólahverfinu, eigi þess kost að kynnast viðkomandi starfsmönnum, áður en þeir eru ráðnir við skólana til lífstíðar eða skipaðir í þessar stöður. Þess vegna legg ég það til, að þeir verði ekki skipaðir skólastjórar og kennarar í heimavistarskólum, fyrr en eftir tveggja ára reynslutíma. Þeim gefst þá tækifæri til að sýna sig. Og þó að einhver mistök kynnu að verða á störfum þeirra fyrsta veturinn, þá er máske ekki rétt að dæma mennina alveg eftir því. Eftir tveggja ára starf getur það komið betur í ljós, hvort slík mistök stafa af misbrestum í fari þeirra eða aðeins af skorti á æfingu.

Af þessari ástæðu hefi ég lagt til, að aftan við gr. bætist ný málsgr., er orðist svo: „Skólastjórar og kennarar í heimavistarskólum skulu ekki skipaðir, fyrr en eftir tveggja ára reynslutíma .“

Þessi 3. umr. málsins hefir borið blæ 2. umr. En ég þykist ekki þurfa að biðja afsökunar á því, þó að ég hafi orðið alllangorður, enda hefi ég ekki tekið til máls í þessu máli fyrr en nú. Og þeim umr., sem búnar eru, var að miklu leyti hagað eins og 1. umr. mála. Vegna þess þurfti nú við. 3. umr. að gera grein fyrir svo mörgum brtt., og þar sem ég hefi varið til þess löngum tíma, mun ég ekki ræða nánar um frv. í heild.