06.05.1936
Efri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

73. mál, fræðsla barna

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vildi segja nokkur orð um þær brtt., sem hér liggja fyrir.

Fyrst kem ég að brtt. frá hv. þm. N.-Ísf. á þskj. 495. 1. brtt. er á þá leið, að færður sé niður skólaskyldualdur í 9–14 ár á öðrum stöðum á landinu en í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa yfir 500 íbúa. Ég er andvígur þessari brtt., enda er heimild til þess í frv. að færa til skólaskyldualdurinn utan kaupstaða og kauptúna. Sama er um 3. og 5. brtt. En 4. brtt. get ég fallizt á og ósk, að hún verði samþ.

Þá koma brtt. frá hv. 10. landsk. á þskj. 523. — 1. brtt. er á þá leið, að bætt sé inn í 2. gr., að til þurfi ítrekaða áminningu fræðslumálastjóra og fræðsluráðs. Ég vil benda á, að með þessu er vald fræðslumálastjóra að engu gert, ef fræðsluráð er ekki sömu skoðunar. — Þá er brtt. um að fella niður kennslu í prósentureikningi. Ég er á móti þessari brtt., en þetta er þó ekki stórvægileg breyting, þar sem í annari brtt. er ákveðið, að börn skuli hafa tækifæri til að læra þennan reikning. Brtt. um kennslu móðurmálsins get ég hinsvegar fallizt á. Ég get líka fallizt á a-lið 3. brtt., en hinsvegar ekki á b- og c-liðina.

Þá er brtt. við 10. gr. Mér finnst hún draga, úr ákvæðum frv. og legg því á móti henni. Aftur á móti get ég fallizt á 5. brtt., a- og b-liði. Tel ég, að betur fari á orðalagi þeirra en í frv. fl. brtt. tel ég óþarfa og legg því til, að hún verði felld. 7.–9. brtt. skipta ekki máli, og get ég sætt mig við, að þær verði samþ.

Þá er a-liður 10. brtt. um það, að íbúatalan í kauptúnunum verði hækkuð upp í 1000 íbúa frá því, sem ákveðið er í ákvæðum til bráðabirgða. Ég er andvígur þessari till. og legg til, að hún verði felld. Hinsvegar get ég fallizt á b-lið sömu brtt. um það, að skólastjórar og kennarar í heimavistarskólum skuli fyrst skipaðir eftir tveggja ára reynslutíma.

Þá eru það brtt. á þskj. 536 frá hv. þm. S.-Þ. — 1. brtt. tekur til um það, hvað börn skuli hafa lært, þegar þau eru orðin 10 ára. Þessi brtt. fer í bága við meginstefnu frv., og legg ég því til, að hún verði felld.

2. brtt. er á þess, leið:

„Skólanefnd má veita heimild til burtfararprófs börnum, sem eru yngri en 14 ára, ef þau hafa náð samskonar þroska og börn hafa almennt á 14 ára aldri,“

Ég er andvígur þessari till., en skal játa, að það gerir ekki verulega breyt. á frv., þó að hún verði samþ. En ég tel, að svo framarlega sem börnin ekki stunda nám annarsstaðar í skólum, þá hafi þau ekkert annað betra með tímann að gera heldur en að stunda nám í barnaskólum. — Þá er 3. brtt., um að inn bætist orðið „hljóðvillulaust“. Ég er samþykkur þessari till. — 4. till. er um reikninginn. Ég er andvígur þeirri till. Ég tel ekki gerlegt að sleppa bæði úr almennum brotum og prósentureikningi, en tel þó, að af tvennu illu sé frekar hægt að sleppa brotunum en prósentureikningnum. Mun ég því greiða atkv. á móti þessari brtt.

Þá er 5. brtt., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Útlend tungumál má ekki kenna í barnaskólum, nema þeim börnum, sem eru orðin vel læs, skrifa móðurmálið ritvillulítið og eru vel að sér í íslenzkri greiningu.“

Ég get fallizt á þessa till.

Ég er sammála hv. flm. um það, að það sé vitlaust að kenna börnum erlend tungumál, meðan þau eru ekki sjálfbjarga í sínu eigin máli. Hinsvegar líkar mér ekki allskostar við orðalagið. (JJ: 6. og 7. brtt. verða teknar aftur).

Þá er það 8. brtt. — Ég vil fyrst skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann vill ekki bera till. upp í tvennu lagi. (Forseti: Jú). Ég er andvígur báðum þessum málsliðum. Ég tel, að sú nýbreytni, ef frv. verður að lögum, að lengja skólatímann fram á sumarið og haustið líka, geri það að verkum, að það verði torvelt að taka upp þá tilhögun, sem hér er gert ráð fyrir. Það liggur í augum uppi, að það er ókleift víðast hvar að gera hvorttveggja í senn, að taka yngri börnin og hafa jafnframt öll hin börnin líka á þessum tíma.

Hinsvegar verð ég að játa, að flestar þessar till. hv. þm. eru vel þess verðar að vera athugaðar. En ég hygg, að það sé nóg verkefni a. m. k. til að byrja með að koma lagi á þá kennslu, sem gert er ráð fyrir í frv., ef að lög- um verður, fyrir yngri börnin um nám fyrri part sumars og fyrri part hausts.

Ég er því á móti þessum lið brtt. en þó einkum mjög á móti síðari hluta 8. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að forstaða og kennsla við heimavistarskóla skuli vera uppsegjanleg með eins árs fyrirvara. Fyrst er það, að ég tel með öllu óeðlilegt, að aðrar reglur gildi um kennara en um aðra starfsmenn, og að það sé annar aðili, sem segir kennara upp, heldur en sá, sem skipar hann. Svo er þetta líka leiðinlegt starf fyrir skólanefndir, og gæti verið notað til þess að koma fram pólitískum hefndum á kennara með því að flæma hann frá starfi.

Með þessu er kennarastéttin gerð réttlausari heldur en allar aðrar stéttir í landinu, sem eru skipaðar af því opinbera. Samanburður hv. þm. á kaupfélagsstjórunum og barnakennurum nær ekki nokkurri átt. Það er frekar hliðstætt með héraðsskólakennarana. En ég er nú ekki viss um, að það hafi sýnt sig, að sú regla sé til fyrirmyndar.

Hv. þm. tók til dæmis atburð, sem gerðist á Akureyri fyrir nokkrum árum. Ég skal ekki fara að rifja hann upp, en ég skal benda á, að þessi maður var látinn fara úr embætti, enda er það svo, að skólanefndum er heimilt samkv. gildandi lögum að segja kennara fyrirvaralaust upp stöðu sinni. hvenær sem hún telur ástæðu til. Síðan er því máli skotið til hlutaðeigandi stjórnarvalda, sem skera úr um það, hvort þessi burtvikning hafi haft við rök að styðjast. Ég fæ því ekki betur séð en að þetta sé nægilegt öryggi fyrir aðstandendur barnanna, sem í skóla eru. Hinsvegar skal ég játa það, að það er nokkru ríkari ástæða til þess að ganga eftir því, að það sé mannval við heimavistarskólana, og get ég þess vegna vel fallizt á það, að sú regla yrði upp tekin að veita þessar stöður ekki, fyrr en kennarinn hefir verið „settur“ í 3 ár til reynslu. Þá ætti að þeim tíma liðnum að vera komin nægileg reynsla á það, hvort samvinna getur tekizt milli kennarans og aðstandenda barnanna.

Ég skal bæta því við, að ef svo rammt kveður að óánægjunni með kennara eins og hv. þm. vill telja, að sé í tveimur skólahéruðum austanfjalls, að mikill þorri af foreldrum neiti að láta börn sín í skóla, þá álit ég, að fræðslumálastjórnin geti ekki þverskallazt við óskum manna í þeim efnum; verði því að svipta kennarann starfi, sé ekki hægt að koma lagi á á annan hátt. Hinsvegar tel ég, að með því að setja þetta ákvæði inn, verði kennarastéttin verr sett heldur en allar aðrar stéttir, sem skipaðar eru af stjórnarvöldunum, og með því gefið undir fótinn áróðri af hálfu einstaklinga og flokka um að reyna að skipta sem oftast um og koma þeim mönnum frá, sem eru í pólitískri andstöðu við þá.

Þá eru brtt. á þskj. 535 frá hv. 5. landsk. 1. brtt. er um það, að ef um vangæf börn er að ræða, þá skuli séð fyrir þeim á annan hátt, ef þau geta ekki setið í skóla með öðrum börnum. — B-liður þessarar sömu brtt. fer í sömu átt, að séð sé fyrir fávitum, sem ekki eiga samleið með öðrum börnum. Ég held, að með því að samþ. báða þessa liði sé ekki gott að segja um það, hver baggi hinu opinbera, fræðsluhéruðunum og ríkissjóði, er með því bundinn. Ákvæði um þetta eiga í raun og veru heima í öðrum lögum, þeim lögum, sem fjalla um meðferð þeirra barna, sem svona stendur á fyrir. Ég er því fyrir mitt leyti andvígur því, að þessar till. verði samþ., þó að ég játi, að nauðsynlegt sé að setja reglur um það, hvernig fara skuli með þessi börn. — 2. brtt., sem er við 4. gr., er ég samþ. og legg því til, að hún verði samþ. — 3. brtt. er um það, að skólanefndir skuli varast að mæla með öðrum kennurum en þeim, sem þekktir eru að reglusemi og ekki eru bendlaðir við stjórnmálaáróður. Ég er mjög andvígur þessari brtt. Ég er hræddur um, að það verði erfitt að leggja skólanefndum reglur um það, hverjum þær skuli mæla með og hverjum ekki. Svo kann að vera, að menn greini á um það, hverjir séu bendlaðir við stjórnmálaáróður. Ef tillöguhöfundur vildi vera sjálfum sér samkvæmur, mætti hann að bæta ýmsu við, t. d. að ekki mætti mæla með þeim, sem bendlaðir væru við trúmálaáróður. Ég er því á móti þessari till. og legg eindregið gegn því, að hún verði samþykkt.

Þá er brtt. við 3. gr. á þskj. 332, frá hv. 1. þm. Reykv., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

Á eftir 2. málsgr. kemur ný málsgrein, er svo hljóðar: Heimilt er foreldrum í kaupstöðum að koma börnum á skólaskyldualdri fyrir til sumardvalar eftir 14. maí, ef þau eiga ekki að ljúka fullnaðarprófi það vor.“

Þessa till. finnst mér ómögulegt að samþ., þó að ég sé í raun og veru með efni hennar. Ég álít, að það sé ómögulegt að heimila foreldrum að taka börn sín úr skóla, hvenær sem þeim þóknast. Hinsvegar tel ég, að þar sem það er tryggt og skólastjórar og skólanefndir telja, að börnin megi missa tíma úr skólanum, þá sé sjálfsagt að leyfa það.

Ég vil því gera skrifl. brtt. við þessa brtt., er hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Meginmál till. skal orða svo: Heimilt er skólastjóra í samráði við fræðsluráð eða skólanefnd í kaupstöðum að undanþiggja börn, sem ekki taka fullnaðarpróf, skólavist eftir maílok vegna sumardvalar, enda sé kunnátta barnsins og aðrar ástæður ekki til fyrirstöðu.“

Ég held, að ég hafi þá drepið á þær brtt., sem fyrir liggja, og get því látið þetta nægja.