06.05.1936
Efri deild: 66. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1084 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

73. mál, fræðsla barna

*Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson):

Út af ræðu hæstv. kennslumálaráðh. vildi ég taka fram nokkur atriði. Hann álítur óþarft að hafa nokkurt takmark um það, hvað börn eigi að vita tíu ára, og ef skólaskylda sé færð niður í sjö ár, séu þessi landamerki horfin. Nú vil ég benda á, að í frv. þessu er undanþága heimil, og ekki er vafi, að hún verður notuð. Undanþágan er fyrir sveitirnar, því að það er svo fjarri öllum sanni, að það geti komið til mála yfirleitt að framkvæma skólaskyldu þar, og það er alveg fullvíst, að í langflestum sveitum verður nú að sitja við það, sem er. En það þurfa að vera glögg landamerki á þessum stað um kröfur til kunnáttu barns á tíu ára aldri, til þess að ekki sé misnotuð skólaskyldan í heimavistarskólum og öðrum, þannig að kenna börnunum efni, sem þau ekki skilja, eins og nú er víða gert. Þetta er því afarþýðingarmikið atriði til þess að tryggja börnin gagnvart þeim seinheppna dugnaði, sem finna má í kennarastétt eins og öllum stéttum.

Um skoðanamun okkar á reikningi kemur að því sama, að hann hefir ekki afsannað það, sem ég sagði, enda er það ekki hægt. Það er nefnilega fjarstæða að vera að kenna brot í barnaskólum, þegar beztu reikningskennarar í Rvík eru líka komnir að þeirri niðurstöðu, að það sé alveg gagnslaust, sem sést á því, að í gagnfræðaskólum og héraðsskólum gengur þetta fullilla, þrátt fyrir það að fólkið á að heita búið að læra þetta áður en það kemur. Börnin eru bara þreytt á þessu, þeim er misboðið, og það í stórum stíl. Og það er ákaflega vafasamur gróði fyrir þá, sem halda með langri skólagöngu, að fá upp varanlega deilu milli foreldra og sín út af því, að það sé sett ofmötun í börnin. Það er alveg víst, að sá reikningur, sem talað er um hér, er nægilegt viðfangsefni fyrir barnaskólana. Hver reiknar yfirleitt í brotum í daglega lífinu? Menn reikna í tugabrotum og einskonar tölum, og það nægir að jafnaði. Einn lærður stærðfræðingur hér hefir sagt, að menn þurfi ekki að kunna nema einskonartölur. Og ég vil bæta því við sem ólærður maður, að menn nota ekki nema einskonar tölur. Og þó ekki sé deilt um það, hvort reikningur sé alveg sérstaklega hæfur til menntunar, þá vil ég benda á, að ýmsir stærðfræðingar eru mjög stirðir og þröngir í hugsun. Ég get nefnt sem dæmi, að einn af frægustu reikningsmönnum landsins, sem stúderaði í Kaupmannahöfn, hélt því fram, að menn þyrftu ekki annað en að vita, hvar Finnur Jónsson væri í máli, og vera svo á móti! Svona mikil hugsanaskekkja getur átt sér stað hjá ágætum stærðfræðingum. Mín reynsla er sú, að menn með mjög mikla stærðfræðigáfu eru ákaflega lítilfjörlegir menn til annara hluta og hafa ekkert gagn af sinni kunnáttu, nema þá í sambandi við útreikning hjá lífsábyrgðarfélögum og því um líkt, af því að það stendur við það, að allur þorri manna notar bara einskonar tölur og hefir ekki með meira að gera.

Mig furðar, að hæstv. ráðh. skuli ekki gleðjast yfir því, að stungið er upp á því að láta börnin fá eitthvað jákvætt í sinn hlut, en mikið af mínum till. gengur út á að hindra það að troða of miklu í börnin. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að hvorki hann eða aðrir hafa reynt að bera brigður á eða afsanna það, sem ég bar fram áður og er almennt viðurkennt, að eins og nú stendur er langminnst íslenzku- og bókmenntaþekking hjá því fólki, sem lengst hefir verið í barnaskólum. Þetta má afsaka með því, að okkar barnaskólar eru á ýmsan hátt vanræktir og lélegir, með lítil bókasöfn og gamaldags á margan hátt. Og krakkarnir eru þreyttir með langri skólasetu við stöðugar endurtekningar og leiðinlegar bækur. Og það verð ég að segja, að um leið og barnaskólarnir heimta vegna sjálfra sín meiri vinnu og meira kaup, þá verða þeir að gera svo vel að skila börnum, sem geta lesið Íslendingasögur og vita eitthvað um síra Matthías, Einar Benediktsson og Stephan Stephansson og önnur okkar beztu skáld. Það verður að byrja einskonar menningarbarátta gagnvart barnafræðslunni. Menn þurfa að geta því meira, en ekki minna, sem meira er kostað til þeirra, og skólarnir þurfa að skila börnum, sem hefir orðið gagn að námi sínu fyrir andlegan þroska. En að svo mikið skortir á þetta nú, álít ég, að komi mikið af því, að ýmsir kennarar, sem annars eru áhugasamir og duglegir, átta sig ekki ekki á, að það eru takmörk fyrir, hve mikil ítroðsla má eiga sér stað.

Yfirleitt vil ég í frv. mínu slá varnagla gagnvart þeirri vanrækslu barnanna, sem allsstaðar blasir við. Það er ekkert gaman að vera fátækt barn í Rvík og eiga heima í kjallara eða hanabjálkalofti og flækjast á skítugum götum alla fimm mánuði sumarsins. Í till. mínum er tilraun til að nota sumarið til lífræns starfs fyrir börnin, ef skólarnir vilja og kennslumálastjórn veitir samþykki sitt til, og fyrir eitt ár í senn.

Hæstv. ráðh., og ég hygg fleiri, var að halda því fram, að engin ástæða sé til að hafa uppsegjanlegar kennarastöður í heimavistarskólum, og kom ekki með önnur rök en þau, að það væri að setja kennara í hættu. En eins og ég sagði áður, að þar sem þetta hefir verið reynt, með kaupfélagsstjóra og héraðsskólakennara, hefir uppsagnarákvæðið ekki sakað. En það er hægt að losna við kennara, þótt ekki sé uppsagnarákvæði til að dreifa. Hæstv. ráðh. sagði, að ef kæmi að því, að fólkið gerði samtök um að nota ekki einhvern kennara, þá verður að láta undan því. Ég get ekki verið neitt óskaplega þakklátur þó að hæstv. ráðh. skilji, að ef fólkið í einum hrepp hefir gefið 1200 dagsverk til að byggja barnaskóla, þá verði að láta kennarann fara, ef enginn vill láta krakkana til hans. En það er eitthvað að, áður en svo er komið. Íslendingar eru ákaflega seinþreyttir, það þarf að misbjóða þeim lengi, áður en þeir grípa til örþrifaráða. En það er hreint og beint ranglátt, að uppsegjanleikinn sé aðeins annars vegar. Hæstv. stj. og þeir kennarar, sem gera okkur þá ánægju að hlusta hér á, þeim dettur ekki í hug annað en kennarar geti sagt upp fyrirvaralaust. En foreldrarnir eiga ekki að hafa rétt til að segja neitt, eftir skoðun þessara manna.

Ég ætla nú ekki að fara að telja upp þá ókosti, sem geta gert kennara lítt hæfa eða óhæfa við starf sitt. Sumir kennarar eru bara leiðinlegir, jafnvel alveg óþolandi leiðinlegir. Ég þekki t. d. einn slíkan — hann starfar ekki í barnaskóla og ekki í héraðsskóla — sem er allra bezta sál og ekkert slæmt í, og ekkert að honum nema hann er leiðinlegur, — svo leiðinlegur, að hann drepur skólann niður, svo að hrein vandræði eru. Mér hefir alltaf fundizt og finnst enn, að það sé aumingjaskapur hjá mannfélaginu að geta ekki sagt upp starfsmönnum undir svona kringumstæðum. En þarna veit ég, að kemur fram stefnumunur á milli mín og ráðh. Það er „Fagforeningsmórallinn“, sem vakir fyrir honum.

Það kom fyrir í Englandi, að sagt var upp manni, sem var vagnstjóri á járnbraut einni, sennilega einn af 40 þúsundum. Þá gerðu allir vagnstjórar í landinu verkfall út af þessum eina! Ef ekki er samþ. till mín, þá neyðist fólkið til að hafa samtök í sveitunum til að afhrópa kennara, sem því ekki líkar við. Og þá er ekki víst, að hæstv. ráðh. hafi mjög mikla ánægju af því og hans eftirmenn. Það er ástæða til benda hæstv. ráðh. á það, að í þýzka ríkinu voru það blátt áfram hinir einstöku hagsmunir, sem rákust á hagsmuni þjóðfélagsins. Hver stétt reif og sleit án nokkurrar umhugsunar um þjóðfélagið. Þá er það, að einn flokkur kemur fram og segir: Ég skal taka allt frelsi af ykkur, sem þið hafið notað á kostnað þjóðfélagsins. Svo er tekið allt, sem þessi menningarþjóð hefir barizt fyrir í 700 ár, og sett það skipulag, sem a. m. k. kúgar hina einstöku stéttahagsmuni. Þess vegna getur hæstv. ráðh. vitað, að það kemur að því fyrir hans flokk, að hann verður að gæta að því, ef hann ætlar að ráða þessu landi, að það er alveg takmarkað, hvað ein þjóð þolir stéttarhagsmununum að fara langt.

Ég lít þannig á, að þar sem mikið af barnakennurum hér við mjög slæm kjör að meira eða minna leyti, eru t. d. atvinnulausir á sumrin og eiga yfirleitt lítið undir sér, þá sé það réttlátt — og skylda þm. — að bæta þeirra kjör. En svo er fleira til. Það eru foreldrarnir, gjaldendurnir og börnin. Og það, sem ég er óánægður með, er það, að ég sé fyrst og fremst ekki í frv. eina einustu umbót á innihaldi kennslunnar frá því, sem var. Og þegar einhver tilraun til umbóta kemur fram, eins og 8. brtt. mín, þá mælir hæstv. kennslumálaráðh. á móti henni. Það er af því, að í raun og veru er hann blátt áfram að hugsa um það eitt — og þeir, sem með honum standa um þetta frv. — að lengja vinnutíma kennara, af því að þeir réttilega finna til, að kennarar hafa það illt. En svo er ekki gert meira. Því að þær brtt., sem hann vék að, eru þess eðlis, að frv. er ekki betra fyrir neina af þeim. Hæstv. ráðh. sagði, að frv. yrði samþ. í Nd. á morgun með smábreyt. Þá þýðir það ekki annað en að næsta ár verður að byrja baráttuna á ný. Þá fara menn að finna það að vetri, hvernig er að hafa t. d. fjögurra mánaða skólaskyldu fyrir litla krakka. Segjum t. d., að einhversstaðar yrði fundið upp á því að hafa skólaskyldu fyrir 7 ára börn næsta haust. Það yrði svona heldur skrítið ástand í sambandi við húsrými og fleira, þegar ætti að fara að taka 7 ára „rollingana“ frá foreldrum sínum og hafa 4 mánuði í skóla.

Hv. deild getur náttúrlega samþ. þetta frv. En ég læt ekki hjá líða að vara við hættunni. Því að ef ekki verður sett neitt í gegn annað en lengri vinnutími kennara, til þess að kennarar hafi svolítið skárra, þá verður því áreiðanlegu hreyft á næsta ári, að það er fleira til en réttmætir hagsmunir kennara. Þó býst ég við, að hæstv. ráðh. álíti, að þá sé málinu lokið, ef vinnutímalengingin fæst.

En ástæðan til þess, að ég býst ekki við að greiða atkv. á móti frv. úr d., þó að ekki verði samþ. neitt af till. mínum, er sú, að í frv. stendur viss möguleiki til að lina á um langan skólatíma, sem ég geri ráð fyrir, að verði notaður ákaflega víða á landinu, og sé sjálfsagt að nota. Ég hefi ennfremur látið prenta í dag þskj., sem ég get sagt frá í sambandi við þessar umr., þar sem lagt er til að fela stj. — þó að mér líki ekki alveg við kennslumálaráðh. í þessu efni, og yfirleitt ekki sérlega vel í kennslumálum — þá hefi ég samt farið fram á við d. að skjóta til hans að rannsaka til næsta þings og leggja fram um það gögn, hvernig færi á því að fara að setja upp tveggja ára sérfræðinám í uppeldisfræði við háskólann, að undangenginni stúdentsmenntnn með einhverri viðbót, sem þar er nánar talað um. Nú er það svo, að fjöldi af fólki er í kennaraskólanum aðeins tvö ár, en prestar þurfa að vera í skóla í tíu ár. Ég álít rétt, að það þurfi að vera sérstök kennarastétt, búin undir sitt starf sem allra bezt og betur en nú. Í þessu plaggi, sem dreift verður út á morgun, tek ég rökstuðning fundar kennara, þar sem þeir óska eftir, að tilvonandi kennarar fái samsvarandi menntun og stúdentar og þessa vísindalegu menntun í ofanálag. En jafnhliða hefi ég hugsað mér að vinna á móti því, að börn yrðu þvinguð of lengi að bóknámi. Ég álít nauðsynlegt, að við eignumst sem mest af sem duglegustum, beztum og hraustum kennurum. En kennsla þeirra gæti í sveit oft verið fólgin í því að grípa inn í líkt og gömlu prestarnir, bara undir betri kringumstæðum, og líta eftir þeim börnum, sem þess þurfa við hinn nauðsynlega frumlærdóm. Og í bæjum geri ég ráð fyrir miklu minni lærdómsþvingun, miklu meiri íþróttum, miklu meiri ferðum á sumrin, — yfirleitt að snúa lífinu í okkar barnaskólum úr þessum gömlu, dauðu formum, þar sem landafræði Mortens Hansens var lesin sjö sinnum yfir veturinn, svo að varla hefir hjá því farið, að barnið hataði landafræðina. Þetta nefni ég sem eitt dæmi af mörgum, en síður en svo vegna þess, að þessi bók hafi verið neitt lakari bók en aðrar, og höfundur hennar var ágætur skólamaður. Þetta dæmi veit ég af tilviljun. En ég get þá sagt meira um landafræðikennsluua yfirleitt nú. Það er óskapleg áherzla á það lögð hjá duglegum kennurum í landafræði, að kunna nafnaromsur, til dæmis alla Austfirðina í röð, svo að ómögulega má ruglast: Vopnafjörður, Héraðsflói, Borgarfjörður, Seyðisfjörður, Mjóifjörður, Norðfjörður. En verði svo óvart Mjóifjörður fyrir sunnan Norðfjörð, er voðinn vís! En guð almáttugur! Hvernig haldið þið að sé að fá inn í sig í sjö ár svona dauðar upptalningar um staðreyndir, sem enginn lifandi maður getur eiginlega haldið í sínu heilabúi, nema að sjá það. Ég man vel, að ég sem barn las mikið um sveitir Árnessýslu og á ýmsum skólum síðar, en í rauninni vissi ég ekkert, fyrr en ég sem fullorðinn maður fór og sá. Hvað hafði það gagnað mér að þylja þessi nöfn: Hrunamannahreppur, Gnúpverjahreppur, Skeið, Flói, Ölfus og allt að tarna? Hvaða þýðingu hefir það að láta börnin þylja svona ótal nöfn um Ísland og svo langt út í lönd? (JBald: Og allt út í Afríká). Já, víst ekki skemmra en út í Afríká.

Ég skoða þessa 3. umr. sem einskonar 1. umr. um þetta mál yfirleitt, þó að svo sé nú komið, að hæstv. ráðh. vilji nú fara að afgr. málið á næstu augnablikum með þeirri lítilfjörlegu og einhliða lausn, að hafa atvinnuspursmálið að sjónarmiði. En fái málið ekki aðra lausn en þessa, segi ég að lokum, að þetta er ranglát og hættuleg lausn. Því að ef lengri skólaganga er eina breyt., þá er það spá mín, að í framtíðinni verði það ennþá færri menn, sem hafí smekk fyrir íslenzkar bókmenntir og annað lífrænt, ef búíð er að þjaka þeim með ennþá lengri skólagöngu undir þeim sömu kringumstæðum að öðru leyti, sem nú eru.