27.02.1936
Efri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1687)

35. mál, stýrimannaskólinn

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þótt efnið í ræðu hv. þm. væri ekki annað en það, að hann vildi vísa málinu til menntmn., þá var ræðan nokkuð hitakennd, og kom mér það á óvart, en það var eins og syði undir í djúpunum. — Mér er ekki kunnugt, að slík mál sem þetta heyri undir menntmn. (JJ: Hvar eiga þau frekar heima?). Ég hygg, að slík mál sem þetta eigi heima í sjútvn. Þó þetta sé skólamál, þá verð ég að segja það, með allri virðingu fyrir form. menntmn., hv. þm. S.-Þ., að ég hefi ekki trú á því, að hann hafi betra vit á því en aðrir. Mér er ekki kunnugt um það, þó hann hafi nokkrum sinnum skroppið á milli landa, að hann hafi kynnt sér störf þeirra manna, sem frv. ræðir um, eða hvaða kröfur þurfi til þeirra að gera um þekkingu í sínum störfum. Ég veit ekki heldur til, að hann hafi kynnt sér, hvaða kröfur eru gerðar í öðrum löndum til þessara manna, þó hann gæti náttúrlega gert það nú, ef hann vildi. Ég skal ekki um það fullyrða, hvort frv. hefir einhvern aukinn kostnað í för með sér, en ef það er ástæðan fyrir því, að hann vill fá frv. í menntmn., að hann ætlar að reyna að draga úr óhjákvæmilegum kostnaði, þá vil ég segja, að það sæti sízt á honum að fara til þess að gera brtt. við frv., sem leiða mundu til þess að draga úr þekkingu þeirra manna, sem hafa jafnþýðingarmikil störf að vinna innan sjómannastéttarinnar og þessir menn hafa. Mér fannst hv. þm. ekki líta á þetta frv. sem skólamál, heldur virtist tónninn sá, að hér mundi vera um nýjan kostnað að ræða.

Þá vék hv. þm. því að mér, að ég hefði flutt mál hér í þinginu, sem hefðu haft aukinn kostnað í för með sér. En ég verð að geta þess, að öll þau mál, sem ég hefi flutt á þingi, hafa verið athuguð í n., og það af mönnum, sem ég vil leyfa mér að fullyrða, að leggja eins mikla alúð við nefndarstörf og hv. þm. S.-Þ. gerir. –Hann minntist sérstaklega á eitt mál, sem ég hefði flutt, en það var um laun yfirmanna á varðskipunum. En hann andæfði því máli ekkert á sínum tíma, og mun sjálfur hafa átt þátt í því að hækka laun þessara manna. Það er því seint fyrir hann að iðrast eftir dauðann. Það mál liggur nú ekki hér fyrir, en ég vil geta þess, að það var ekki annað en réttlætismál.