27.02.1936
Efri deild: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (1690)

35. mál, stýrimannaskólinn

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Hv. þm. S.-Þ. var nú dálítið mildari heldur en í sinni fyrri ræðu. En aðalkjarninn í ræðu hans nú var það, að hér væri um óhæfilegan kostnað að ræða. Hitt annað, sem hann komst inn á, var það, að ekki væri séð nægilega fyrir almennri menntun þeirra manna, sem frv. þetta við kemur, þeirra, sem læra siglingafræði. Vildi hv. þm. gera lítið úr minni þekkingu um þetta efni. Með allri virðingu fyrir hv. þm., sem er þjóðkunnur fyrir sinn áhuga á menntamálum, vil ég þó segja honum það, að hann ætti samt að geta látið sér detta í hug, að til séu menn, þótt minna tali og skrifi en þessi hv. þm., sem geti þó haft eitthvert vit á menntamálum líka. Ég hefi að vísu ekki gengið í eins marga skóla og þessi hv. þm. og ekki ferðazt eins oft til útlanda og hann. En ég hefi reynt að fylgjast með þeim hreyfingum í menntamálum, sem átt hafa sér stað hér á landi á síðari árum. Og ég hefi reynt að gera mér ljóst, í hverju er áfátt almennri menntun manna í þeirri stétt, sem ég er sprottinn upp úr, sjómannastéttinni. Og einmitt með það fyrir augum höfum við í frv. gert ráð fyrir því, að ef menn hafi ekki notið nægrar almennrar menntunar áður en þeir komu í skólann, þá geti þeir betur fengið hana nú en áður í sambandi við skólann eftir þessu frv., ef að 1. verður. Við 2. umr. er hægt að skýra þetta nánar. Hér er lögð meiri áherzla einmitt á þær greinar, sem mönnum í þessari stétt er nauðsynlegt að kunna. Við inntökuprófið er gert ráð fyrir, að menn hafi miklu fyllri þekkingu eflir þessu frv. heldur en áður hefir verið krafizt. Styður þá allt að því, að menn hafi fengið meiri almenna menntun, þegar þeir taka fyrir sérnám á skólanum, eftir þessu frv. heldur en verið hefir og er með núverandi skipulagi.

Viðvíkjandi kostnaðarhlið frv. er það að mínu áliti ekki vel ljóst, hvort auka þarf að verulegum mun við kennslukrafta skólans. En hitt er ljóst, að starfstíma kennara þeirra, sem nú eru við skólann, þarf að lengja, ef frv. verður samþ. og breyt. gerð á skólanum, þannig að ýmsum námsgreinum er aukið við. Hér geta þeir menn bezt dæmt um, hvað þessir menn þurfa að læra, sem nokkra lífsreynslu hafa um það, hvers krefjast ber, og vita, hvers krafizt er í þessum efnum meðal nágrannaþjóða okkar.

Hv. þm. S.-Þ. vill meina, að ég skilji það ekki, að þessir menn þurfi almenna menntun. Hefði ég ekki skilið það, þá hefði ég ekki svo oft greitt atkv. með málum, sem þessi hv. þm. hefir flutt hér á þingi, hliðstæðum þessum, eins og ég hefi gert. (MG: Það hefir nú verið gert af öðrum ástæðum).

Ég ætla ekki að svara því nánar, sem þessi hv. þm. skaut hér fram um öreigana hér í þessum bæ. Vil ég aðeins minna hv. þm. á, að mínar till., sem samþ. voru á Alþingi og hann minntist á, voru alls ekki upp á neinar 14–15 þús. kr., svo að sú tala, sem hann nefndi í þessu sambandi, er einhversstaðar annarsstaðar að fengin en úr veruleikanum.

Þá benti hann á, að hér á landi væri nú verið að reyna að koma á sparnaði í einu og öðru. Okkur gefst sennilega tækifæri til að tala um þann sparnað nánar áður en þessu þingi lýkur. En svo hygg ég, að geti farið, að ég öfundi ekkert þennan hv. þm. af því að verja sumar af sínum sparnaðartill., þegar til fólksins kemur. (JJ: Ég er kannske ekki eins hræddur og hv. ræðumaður). Ég er hvorki hræddur við að tala um þetta við þennan hv. þm., þegar málefni gefst til, né þegar aðrir heyra.

Sé ég, svo ekki ástæðu til að karpa meira um þetta. Ég tel rétt, að sjútvn. fái þetta mál til athugunar, en alls ekki menntmn.