27.04.1936
Efri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

35. mál, stýrimannaskólinn

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Það má ef til vill segja, að það sé óviðkunnanleg afgreiðsla, að þetta frv. komi hér án þess að með fylgi nál., en ástæðan er d. kunn. Á þskj. 461 frá síðasta þingi er ýtarleg grg., sem fylgir þessu frv. Ástæðan fyrir því, að það er fram borið, er í fyrsta lagi sú, að fyrir þessu þingi liggur nú — og útlit fyrir, að það verði afgr. — töluvert umfangsmikil breyt. á l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum, og af því leiðir, að það þarf að gera breyt. á stýrimannaskólanum. Eins og aðrar greinar tekur siglingafræðin miklum breyt. á hverju ári, og framfarir á tekniska sviðinu eiga sér stað þar sem annarsstaðar. Þegar l. um stýrimannaskólann voru sett, var hér sama og ekkert af skipum, en nú hefir þetta breytzt, og þess vegna verða kröfurnar um stýrimannaskólann að vera meiri heldur en verið hefir. Það sigla nú hér við land mörg farþegaskip, og verður að gera meiri kröfur til þeirra manna, sem þeim stjórna, heldur en annara. Sama er að segja um rétt til skipstjórnar á stærri skipum, varðskipum og öðrum, sem annast siglingar hér við land. Til þessa hefir verið tekið tillit í frv. og það sniðið eftir því. Ennfremur kveður frv. svo á, að framvegis skuli tvennskonar fiskimannapróf vera við skólann. Þetta eru meginatriði frv., og af því að það hefir legið hér fyrir 2 þingum og er mörgum dm. kunnugt að efni til, sé ég ekki ástæðu til að fara nánar út í einstakar greinar þess. Ég vil svo leyfa mér að óska, að að lokinni þessari umr. fái málið að ganga til 3. umr., og gefst þá tóm til þess að athuga það nánar, ef einhverjir óska eftir því.