06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1702)

35. mál, stýrimannaskólinn

*Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Sjútvn. hefir haft frv. þetta til meðferðar og leggur til, að það verði samþ. með nokkrum breyt. Þó hefir einn nm. skrifað undir nál. með fyrirvara, og hygg ég, að sá fyrirvari sé vegna brtt. á þskj. 537, en ég skal víkja að því síðar.

Þær breyt., sem sjútvn. leggur til, að verði gerðar, eru flestar leiðréttingar, sem henni fannst rétt að taka upp, þó ekki sé hægt að segja, að þær séu stórvægilegar. Þó er ein þeirra stærst, enda er hún gerð í samráði við þá menn, er undirbjuggu þetta frv., og í samráði við kennara stýrimannaskólans, en breyt. er sú, að inntökuprófið verði lagt niður, en námstíminn lengdur, þannig að skólinn starfi 3 vetur fyrir farmannapróf, og er þá námstími þeirra lengdur um 1 ár. Er þetta gert, eins og ég hefi tekið fram, eftir óskum kennara við stýrimannaskólann, er þeir báru fram við sjútvn. Segja þeir, að þótt þessar kröfur hafi átt að gera til nemendanna, hafi orðið misbrestur á því í framkvæmdinni. En flestir nemendur, sem ganga undir inntökupróf, hafa þurft að eyða lengri eða skemmri tíma í undirbúning, og er álit kennaranna, að gagnlegra sé fyrir nemendurna að sitja þennan tíma í skólanum sjálfum.

Um aðrar brtt. þarf ég ekki að fjölyrða. Gert er ráð fyrir að fækka bls., sem krafizt er, að lesnar séu í íslenzku, úr 100 í 50 bls., og er það skv. áliti íslenzkukennarans, sem telur, að aldrei hafi verið komizt yfir þetta allt. — Hvað aðrar brtt. snertir, þá er þar verið að færa til betra máls og lagfæra; hafði t. d. á einum stað fallið niður við prentun. Sé ég ekki ástæðu til að fara nánar inn á brtt. n., því að þær skýra sig sjálfar.

Hinsvegar eru komnar fram brtt. frá hv. þm. N.-Þ. á þskj. 537. Raunar skilst mér, að aðeins önnur þeirra skipti máli, sú, sem er stíluð við 19. gr. Vill þessi hv. þm. ekki staðbinda námskeið þau, er veita fræðslu undir minna fiskimannapróf. Hefir það verið svo, að þessi námskeið hafa verið haldin fyrir tilstilli fiskifélagsins, og er mér óhætt að segja, að það leggur áherzlu á, að þessu sé ekki breytt, og telur, að þá muni fást hæfari menn til kennslu. Ég verð því að telja, að þessar brtt. séu ýmist ástæðulausar eða til skemmda. Hygg ég, að mér sé óhætt að segja, að við hinir 4 nm. leggjum til, að þær verði ekki samþ. — Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta, en vil vænta, að frv. fái greiðan gang gegnum þingið.