06.05.1936
Neðri deild: 64. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

35. mál, stýrimannaskólinn

*Gísli Guðmundsson:

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta atriði, sem ber á milli. Ég vil þó benda á út af fyrsta atriðinu, er snertir farmannadeildina, að þetta frv. er komið frá mþn., sem hefir haft þetta mál til athugunar og meðferðar, og hún gerði ráð fyrir 2 bekkjum og inntökuprófi, sem meiri hl. sjútvn. vill afnema. Ég vil nú skjóta því fram, að það getur verið dálítill kostnaður að fjölga bekkjunum. (PÞ: Má ég skjóta því inn í, að gert er ráð fyrir, að sameinaðir verði 1. bekkur fiski- og farmannadeildar). Ég veit það. Þetta kom fram í n., er við ræddum þetta, að svona ætti þetta að vera, en ég er ekki viss um, að það verði svo í framkvæmdinni, eða hvort það sé svo heppilegt. Það er ekki heldur sett inn í frv., sem hv. 3. landsk. var að benda á, að 1. bekkur ætti að standa 3–4mánuði, eða vera eins og námskeið; þess vegna held ég, að rétt hefði verið að halda sér við niðurstöður mþn., þó að kennarar og einstaka menn aðrir hafi síðar álitið, að annað gæti komið til mála. En meiri hl. sjútvn. hefir þetta ekki frá sjálfum sér, heldur frá öðrum mönnum; þess vegna held ég mér við það, að ákvæði þetta sé heppilegast óbreytt.

Viðvíkjandi því að gefa kennurum aðstöðu til að gera upp á milli manna á þann hátt, að einn sé hæfari en annar að ganga undir próf, þá ætla ég, að það sé ekki heppilegt. Prófin eru til þess að skera úr um kunnáttu nemenda og hæfileika, og ég geri ráð fyrir, að ætlunin hafi verið sú, að fá úrvalsmenn í þessi störf, og mun það áreiðanlega koma fram við prófin, svo þess vegna eru undanþágur óþarfar.

Ég vil út af námskeiðunum segja það, að ennþá hefir ekki verið færð fram ástæða fyrir því, að þessir staðir væru ákveðnir. Hv. 3. landsk. sagði, að svo gæti farið, að upp kæmi vísir að áhaldasafni. Ég geri nú ekki ráð fyrir, að það safn yrði svo stórt, að ekki væri tækilegt að flytja það milli staða.

Þá minntist hann og á, að ef staðirnir væru tilteknir, væru meiri líkur til, að kennarar settust þar að, í von um atvinnu við þessi námskeið. Ég vil nú benda á, að ekki er ætlazt til, að þessi námskeið séu á hverju ári, svo að hér er ekki um að ræða nema 4 mánaða kennslu annaðhvort ár, sem ég geri ekki ráð fyrir, að þyki eftirsóknarverð atvinna. — Ég held því, að heppilegast sé að hafa óbundið um staðina, enda er það ekki svo, að ekki geti komið til mála, að aðrir staðir séu eins heppilegir; a. m. k. mæla engin rök á móti því, að staðarvalið sé frjálst.