24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

122. mál, skattfrelsi mjólkursamsölu og fisksölusambands

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Eins og getið er um í grg. frv., flytur meiri hl. allshn. frv. þetta að tilhlutun hæstv. forsrh. Þó að það sé aðeins meiri hl. allshn., sem flytur frv., þá hygg ég, að ég hafi skilið það rétt, að minni hl. sé ekki mótfallinn efni frv., en hinsvegar taldi hann ekki þörf á því, að það kæmi fram, þar sem nýskeð væri fallinn dómur í hæstarétti um útsvarsskyldu sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, þar sem sú stofnun var ekki talin útsvarsskyld til Reykjavíkurbæjar. En þó að hæstaréttardómur sé fyrir því, að þetta félag sé ekki útsvarsskylt, þá er hér einnig farið fram á, að lögfest verði ákvæði um, að mjólkursamsalan verði undanþegin aukaútsvari ettir efnum og ástæðum. Ég hygg, að minni hl. hafi talið mjólkursamsöluna hliðstæða við fisksölusamlagið í þessu efni og að þess vegna væri ekki þörf á slíku lagakvæði um hana heldur.

Að því er snertir fisksölusamlagið og dóm þann, sem upp var kveðinn í vetur um útsvarsskyldu þess, þá er það rétt, að með honum var það fríað við að greiða aukaútsvar í Reykjavík. En þess ber að gæta, að um þetta var ágreiningur í dómnum; einn dómarinn taldi stofnunina útsvarsskylda. Nú er í hæstaréttarlögunum heimild um að fjölga dómurum í réttinum úr 3 upp í 5, og er því ekki útilokað, að meiri hl. réttarins kunni að líta öðruvísi á þetta mál, þegar búið væri að fjölga þar dómurum, en um það skal ég ekkert fullyrða. En þegar ekki er hægt að byggja undanþágu þessarar stofnunar frá útsvarsskyldu á öðru en þessum dómi, þá sé ég ekkert á móti því, að Alþingi staðfesti þann dóm með því að gera þetta frv. að lögum.

Meiri hl. allshn. lítur svo á, að þetta frv. eigi að ganga fram, einkum vegna mjólkursamsölunnar. Enda þótt svo kunni að mega líta á, að hún sé hliðstæð fisksölusambandinu að nokkru, þá er það ekki að öllu leyti. Þess vegna taldi meiri hl. n. rétt að verða við óskum hæstv. forsrh. um að flytja frv.

Ég sé enga ástæðu til þess, að frv. verði aftur vísað til allshn.