24.04.1936
Efri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1718)

122. mál, skattfrelsi mjólkursamsölu og fisksölusambands

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég tel rétt, að þetta frv. verði athugað nánar, áður en það verður afgr. Ég hygg, að það sé ekki meining hv. meiri hl. allshn., að sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda skuli vera undanþegið útsvarsskyldu, hvernig sem á stendur eða hvernig sem starfsemi þess kann að breytast. Ég tel því, að það muni vera rétt að binda slíka undanþágu frá útsvarsskyldu því skilyrði, að hún gildi einungis á meðan sölusambandið fer með tiltekinn hluta af fisksölunni, og þá náttúrlega mikinn meiri hl. hennar. Það veit enginn, hversu mikinn hluta af fiskinum sölusambandið kann að hafa með höndum framvegis. Setjum svo, að það verði aðeins 40–50% af fiskmagninu, og sé undanþegið útsvarsskyldu, en að aðrir aðiljar, sem verzla með hinn hlutann, verði að greiða útsvar af verzluninni, þá getur þessi heimild orðið til þess að skapa misrétti á milli þessara aðilja. Og það verð ég að telja mjög athugavert.