27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

120. mál, jarðræktarlög

Pétur Ottesen:

Ég verð að taka undir það með hv. þm. A.-Húnv., að það er með töluvert einkennilegum hætti, sem mál þetta hefir borið að hér í þinginu. Við, sem erum í stjórnarandstöðu, urðum þess varir nú fyrir nokkru, að stjórnarflokkarnir voru að laumast með stórt gult umslag, sem við fréttum síðar, að hefði inni að halda þær breyt., sem n. sú, er skipuð hafði verið til að endurskoða jarðræktarlögin, legði til, að á þeim yrðu gerðar, Þess var enginn kostur, að við, sem stöndum utan stjórnarflokkanna, fengjum aðgang að þessu plaggi; svo vendilega var því haldið leyndu, að það var eins og hér væri eingöngu um að ræða flokksmál þeirra, sem enga aðra varðaði en stjórnargæðingana.

Eftir að mál þetta kom fram hér á Alþingi fór fljótlega að kvisast, að það myndi hafa tekið allmiklum breyt. frá því, er n. skilaði því í hendur stj., og þar til það var lagt fram hér. Til þess að fá deili á þessu, varð ég að hringja til bónda uppi í Borgarfirði, bónda, sem hafði verið með í því að endurskoða þessi lög og semja breyt. Svo mjög var læsingin rammger, sem stjórnarflokkarnir höfðu sett fyrir dyrnar, sem lágu að þessu máli. Í þessu samtali fékk ég þær upplýsingar, að málið hefði tekið miklum breyt. í meðferð stjórnarflokkanna á þingi frá því, sem n. lagði til, a. m. k. í einu eða tveimur verulegum atriðum. Þetta er mjög undarleg og einkennileg aðferð í máli, sem hefir jafnmikla þýðingu fyrir þjóðina sem þetta. Því um það verður ekki deilt, að jarðræktarlögin hafa orðið að meira gagni fyrir íslenzkan landbúnað en nokkur önnur löggjöf, allt frá því, er þau voru sett 1923. Það ríður því á miklu, að fram fari gaumgæfileg athugun á lögum þessum, áður en hrapað er að því að breyta þeim.

Eins og frv. þetta er nú lagt fyrir, þá mun það að einhverju leyti eiga að rýmka ákvæði jarðræktarlaganna, en á sumum sviðum er aftur allverulega dregið úr frá því, sem nú er, og gengið í berhögg við hina upprunalegu stefnu jarðræktarlaganna.

Umr. þær, sem hér hafa farið fram í dag, hafa að mestu leyti snúizt um 1. kafla frv., um það, hverri meðferð Búnaðarfélag Íslands á að sæta, ef það á að fá að hafa áfram framkvæmd jarðræktarlaganna, og mér finnst ekki undarlegt, þó að það hafi sætt nokkurri gagnrýni, því að allir, sem vilja, að vilji bænda fái að njóta sín, hljóta að standa á móti því, að framkvæmdavaldið í þessum málum sé svo greypilega tekið frá búnaðarfélaginu og fært í hendur atvmrh. eins og frv. stefnir að. Eins og áður hefir verið minnzt á undir þessum umr., þá hefir það verið svo um langt skeið, að atvmrh. hefir skipað tvo af stjórnendum BÍ. eftir till. landbn. Alþingis. Þetta hefir verið svo nær alla tíð frá því að lögin voru sett 1923. En svo var um þetta búið, að það var aðeins formsatriði, að ráðh. skipaði þessa menn, heldur voru það landbn. þingsins, sem réðu vali þeirra. Um þetta fyrirkomulag varð svo okkur ágreiningur; það þótti ekki sem heppilegast, að Alþingi hefði þessa íhlutun um val á mönnum í stjórn félagsins. Varð það því úr, að þessu fyrirkomulagi var breytt á fyrri hluta síðasta þings á þann veg, að búnaðarþingið hefði eitt óskorað vald til að skipa stjórnina. Þetta fyrirkomulag lagði þó engar hömlur á frjálsræði BÍ., því að því var jafnframt yfirlýst hér við umr. þær, sem um það urðu, að fá þessu breytt, að búnaðarþingið ætlaði ekki að stjaka við þeim mönnum úr stjórn félagsins, sem landbn. hefir skipað, heldur væri hér aðeins um metnaðaratriði að ræða. Það má benda á sem dæmi þess, hve núv. ríkisstj. áleit þetta haldlaust fyrir afskipti sín og áhrif á stjórn félagsins, að hún setti á þinginu 1934 inn í fjárlögin það skilyrði fyrir styrknum til félagsins, að atvmrh. samþ. búnaðarmálastjórann. En með þeirri tilhögun, að Alþingi skipaði 2 stjórnarnefndarmennina, áleit stj. vonlaust, að ríkisvaldið gæti seilzt til valda. Það, sem nú er að gerast, er það, að stjórnarflokkarnir eru að ganga inn á þá slóð að ná sem mestu áhrifavaldi yfir Búnaðarfélagi Íslands. Í vissum málaflokkum er algerlega strikað yfir áhrifavald þeirrar stjórnar, sem búnaðarþingið felur að fara með mál félagsins.

Þá er að athuga það í þessu sambandi, hvort þessi löggjöf, sem hér liggur fyrir um breytingu á jarðræktarlögunum, gefi nokkurt tilefni til þess, að ríkisstj. eigi að seilast hér til valda, þótt henni sé falin framkvæmd laganna. Ég get ekki séð, að svo sé. Mér sýnist, að hér sé meira skipað fyrir og fastari ákvæði heldur en í þeim lögum, sem nú gilda. Þannig er t. d. hér skipað fyrir um það, hvernig lagt skuli í einingar, þegar styrkur er veittur, og hvernig styrkur skuli greiddur eftir einingum, en eins og nú er, er þetta reglugerðarákvæði, sem að nokkru leyti er á valdi búnaðarfélagsins í sambandi við atvmrh. Þannig er þetta ákvæði, sem búnaðarfélagið hefir getað haft á valdi sínu, bundið hér í lögum, og síður en svo að því er þetta atriði snertir, að það gefi tilefni til að auka vald ríkisstj. yfir félaginu.

Í sambandi við það, sem ég sagði áðan, að hér væri svo langt gengið, að strikað væri yfir það vald, sem stjórn búnaðarfélagsins hefði, má benda á það, að svo langt er gengið í frv. um valdaleysi stj. búnaðarfél., að það er búnaðarmálastjóri, sem á að annast um framkvæmdir laganna í samráði við búnaðarfélagsstjórnina, og ef ágreiningur rís, þá er það ekki búnaðarfélagsstjórnin, sem ræður, heldur er það ráðh., sem sker úr, og stjórn Búnaðarfélags Íslands hefir ekkert að segja. Svo langt er gengið í því að taka allt vald í þessum málum af búnaðarfélaginu. Ég vil í þessu sambandi benda á, hvað 5. gr. í núgildandi jarðræktarlögum segir um þetta atriði. Í þessari gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta :

„Störf þau, sem Búnaðarfélag Íslands eru ætluð í lögum þessum, framkvæmir stjórn þess, framkvæmdarstjóri eða ráðunautar, allt eftir því, sem lög félagsins og reglur mæla fyrir.“

Framkvæmdin á að vera eftir því, sem lög og reglur félagsins mæla fyrir, í staðinn fyrir að í þessu frv. er það atvmrh., sem ræður, ef nokkur ágreiningur rís. Það er m. ö. o., allt vald er þurrkað burt hjá stjórn búnaðarfél. og lagt í hendur ráðh., og þá held ég, að sé ekki langt eftir að því takmarki, sem 2. þm. N.-M. talaði um, að ná þessum málum algerlega úr höndum búnaðarfélagsins og koma þeim öllum í eina deild í stjórnarráðinu. Hv. 2. þm. N.-M. sagði áðan — og lét mikinn og dólgslega yfir því, hver kjarkmaður hann væri, að halda fram þessari skoðun —, að í stað þess að sameina þetta við önnur störf búnaðurfél. og nota starfskrafta þess, þá vildi hann stofna sérstaka deild í stjórnarrráðinu til að framkvæma þetta. Hann vill ekki láta nota þá starfskrafta, sem búnaðarfél. ræður yfir, til þessa og sameina það öðrum störfum þeirra í þágu landbúnaðarins, sem vel hefir þó reynzt, auk þess sem framkvæmdin verður langsamlega ódýrust með þessum hætti. 2. þm. N.-M. horfir ekki í kostnaðinn, einkum ef það getur orðið til þess, að einhverjum frekari verðmætum skolaði í land á hans pólitísku bitlingafjöru.

En mér virðist, að með þessu frv. eigi mjög verulega að skerða áhrifavald Búnaðarfélags Íslands í ýmsum öðrum atriðum, auk þessara framkvæmda á lögunum, en þar er það fyrst og fremst alveg þurrkað í burtu. En svo er í öðru lagi kveðið á um það, hvaða kosningafyrirkomulag skuli hafa, þegar fulltrúar eru kosnir til búnaðarþings. Í þriðja lagi er skipað að fjölga fulltrúum til búnaðarþings um fullan helming þess, sem nú er álitið, að þörf sé á. Og í fjórða lagi eru svo hrifsuð öll völd úr höndum stjórnar búnaðarfélagsins og lögð í hendur ráðh. Þetta eru höfuðdrættirnir í þeim kaflanum, sem snýr að Búnaðarfélagi Íslands. Ég verð að segja, að það er ekki undarlegt, þótt þeir menn, sem unna búnaðarfélaginu og vilja hafa það frjálst og óháð því pólitíska valdi, vegna þess að þeir trúa því, að það verði þannig að mestu gagni, rísi upp til að andmæla slíkum till. á Alþingi.

Hv. 7. landsk. minntist á það í ræðu sinni, að sér fyndist þetta ekki vel viðeigandi gjöf til Búnaðarfélags Íslands á 100 ára afmæli þess. Hv. flm. (JörB) sagði aftur á móti, að það mætti sannarlega líta á þetta sem góða afmælisgjöf. Nú væri bændum ætlað að komast í lífrænt samband við Búnaðarfélag Íslands með því kosningafyrirkomulagi, sem hér væri gert ráð fyrir. Ég held, að það sé engin þörf á því að skipa þessu á þennan hátt með lögum. Því ef bændur telja sjálfir, að þeir komist á þennan hátt í lífrænna samband við búnaðarfél. en ella, þá geta þeir sjálfir sett sér þau lög og tekið upp þetta fyrirkomulag. Það er þeirra einkamál. Hvaðan er það kosningafyrirkomulag upprunnið, sem nú er? Er það ekki frá bændum sjálfum? Ég ætla það væri 1930–1931, sem búnaðarþingið skipaði n. til þess að gera till. um þetta atriði. Og sú n. lagði til að hafa þá tilhögun á kosningunum, sem nú er höfð, og var það samþ. einróma á búnaðarþingi. — Og það er upplýst, að sama tilhögun er hjá S. Í. S. og Fiskifélagi Íslands, og það hefir verið samþ. af bændum úti um allt land, og ég veit ekki til, að það hafi komið fram nokkur óánægja með það frá bændum sjálfum. En það er víst, að þeir hefðu haft fulla einurð og mannrænu á því að koma fram með þá óánægju, ef hún hefði nokkur verið. Og það hefir ekki við neinar raddir að styðjast frá bændum sjálfum, að þessu kosningafyrirkomulagi sé breytt. Þeir hafa ekki óskað þess. Ég skal líka nefna það, að Jón í Deildartungu, vinur minn og frændi, vann að þessum undirbúningi 1931 og lét ekki bera á þessari ósk, og hann vill enga ábyrgð bera á þessu ákvæði. Það má ennfremur benda á, að það virðist hafa verið bláþráður á hugsunarþræðinum hjá þessum mönnum í stjórnarfl., sem hafi verið að verki við að hugsa upp þetta kosningafyrirkomulag. Hér er tekið upp fyrirkomulag, sem sum önnur félög hafa haft hjá sér, en stjórnarliðið hefir barizt mjög eindregið á móti og talið óeðlilegt. Samkv. þessu frv. er það sem sé sett sem lágmark, að einstaklingurinn ráði yfir 20 ha. lands til þess að hann megi fara með fullt atkvæði. Þeir, sem eru fyrir neðan þetta lágmark, verða að safnast saman og geta ekki náð kosningarrétti fyrr en þeir ná þessu marki með samanlagðri landstærð. Þarna er gengið inn á það, að landstærð eigi að ráða. Í S. Í. F. er fiskimagnið að nokkru leyti lagt til grundvallar fyrir kosningarréttinum, og hefir það verið átalið af þeim, sem standa að þessu frv. Í mjólkurfélögunum hefir því verið haldið fram sem grundvallaratriði þeirra, sem félögin mynda, að eftir mjólkurmagninu hjá hverju þeirra fyrir sig færi að nokkru leyti um kosningarréttinn. Þessu fyrirkomulagi hefir verið gersamlega mótmælt af stjórnarflokkunum og talið óalandi og óferjandi. Þetta var í frv. til l. um breyt. á mjólkursölulögunum, sem flutt var nú á þessu þingi, en ekki hefir verið metið svo mikils að taka það á dagskrá. Það bendir á einkennilegan losarahátt í hugsun að vilja svo taka þetta fyrirkomulag upp hér og kasta því fyrirkomulagi, sem áður hefir verið og reynzt hefir vel, bæði í búnaðarfélaginu og í S. Í. S., og ekki hefir heyrzt, að nauðsyn sé á að breyta þessu hjá S. Í. S. Það er eitthvað á bak við þetta annað en einskær umhyggja fyrir Búnaðarfélagi Íslands, þegar hér er haldið fram skoðun, sem rekst svona herfilega á það, sem haldið er fram, þegar önnur félög eða félagasambönd eiga hlut að máli. Þá má benda á það, að hér á að skylda alla bændur til að kaupa Frey eða greiða jafnhátt gjald til Búnaðarfélags Íslands. Þó að um tímarit þetta sé ekkert nema gott að segja, þá er það æðieinkennilegt, svo að ekki sé fastara að orði kveðið, að skylda menn með lögum til þess að kaupa ákveðið rit. Það er alveg nýmæli í ísl. löggjöf. Og það á sannarlega að sjá um, að það verði borgað, því að það er heimilt að halda eftir fyrir andvirði þess af þeim styrk, sem bændur eiga að fá. Og ekki vantar á, að það eigi að halda mönnum að félagsskapnum, en það var eitt af því, sem form. Framsfl. taldi átumein í búnaðarfélaginu, að bændum væri fyrirskipað að vera í þeim til þess að geta orðið styrksins aðnjótandi. Svo að allt rekur þetta sig hvað á annars horn, ef miðað er við það, sem fram hefir verið haldið á öðrum vettvangi innan stjórnarflokkanna.

Þá kemur næst kaflinn um styrk fyrir jarðabætur og húsabyggingar, og er haldið svipaðri tilhögun um greiðslur eins og nú er. Að vísu er í sumum tilfellum nokkuð hækkað, eða farið í för hv. 10. landsk., sem hefir flutt till. á undanförnum þingum um hækkun á styrk, en þó ekki farið svo langt, auk þess sem sumsstaðar er dregið úr, og á það einkum við sléttun gömlu túnanna; þar lækkar styrkurinn um 10–32 kr. á hvern ha., eftir því hvaða sléttunaraðferð er notuð. M. ö. o., það, sem rétt er fram með annari hendinni, er tekið aftur með hinni, og nokkru meira þó, og það einmitt á þessu sviði, sem er allra viðkvæmast, og það er í ræktuninni sjálfri, því að hún er vitanlega undirstaða þess, að hægt sé að afla heyja á ræktuðu og véltæku landi, en það er undirstöðuatriði fyrir allan landbúnað hér. En með þessu frv. er einmitt dregið úr styrk til ræktunarinnar, þótt á sumum sviðum sé meira veitt en nú er, svo sem t. d. að því er snertir áburðar- og þvaggryfjur og haugstæði, sem hér eru tekin upp að nýju, þó ekki nema með steyptum veggjum.

Hv. flm. var að verja lækkunina á styrk til túnasléttunar og sagði, að það væri svo mikill munur á því, hve gamalræktun væri léttari en nýræktun, að það væri sanngjarnt að hafa þennan styrk mismunandi. Það getur verið, að þetta sé rétt í sumum tilfellum, en í öðrum tilfellum er þetta þvert á móti, sum tún eru grýtt og önnur raklend, sum jafnvel hvorttveggja, en það er sá allra erfiðasti jarðvegur, og eru mýrar þá margfalt auðveldari til vinnslu, ef þar er grjótlaust.

Þegar forfeður vorir völdu sér bólstaði, tóku þeir þurrustu blettina, og þá oft á hólum eða ásum, þar sem grýtt var, og þess vegna er ræktunin í mörgum tilfellum erfiðari í hinum gömlu túnum heldur en utan túns. Ég tek það ekki til samanburðar, hve gott mólendi er léttara til ræktunar heldur en sum gömlu túnin. Það er þess vegna ekkert annað en ímyndun ein, að það sé svo miklu léttara að slétta í túni en utantúns, að af þeirri ástæðu sé rétt að gera þennan mun. Ég vil vænta þess, að þegar gengið verður frá frv., þá verði þessu mikill gaumur gefinn, og ekki verði horfið frá þeim grundvelli, sem er í núgildandi lögum um samræmi á þessum styrkjum.

Þá á ég eftir að minnast á það, sem ég tel að ýmsu leyti varhugavert við þá braut, sem hér er lagt út á í þessu frv., og það eru þær takmarkanir á styrkveitingu, sem hér eru settar. Í núgildandi lögum eru þær takmarkanir einar, að ekki sé veittur hærri styrkur en 800 krónur á ári, og þetta er látið haldast í þessu frv. En svo er hér farið inn á þá braut að skera styrkinn niður, þannig að þegar hann er kominn í 3000 kr., þá lækkar hann um 25%, og þegar hann er kominn í 4000 kr., lækkar hann um 50%, og þegar hann er kominn í 5000 kr., þá fellur hann alveg niður. Eða m. ö. o. að ekkert býli getur orðið meiri styrks aðnjótandi en 5000 kr. Það á að hækka styrkinn, en ekki þó eins mikið og gert er ráð fyrir að skera niður. Það á að hækka hann um 20%, og hér er það, sem ég ætla, að hafi verið gerð veruleg breyting á til hins lakara fyrir bændur frá því, sem n. sú lagði til, sem hafði mál þetta til meðferðar. Ég skal ekki fara lengra út í það nú að minnast á þetta, en hinsvegar get ég látið það koma síðar fram í umr., að n. hefir ætlað þeim mönnum, sem svo voru skammt á veg komnir, allt annan og betri kost til þess að hrinda sínum framkvæmdum áfram heldur en gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég vil taka undir það með hv. 7. landsk., sem hann sagði í dag um niðurskurðinn á styrknum, að þetta væri svarið, sem þeir menn fengju hjá þeim mönnum, sem að þessu frv. standa, fyrir það, hvernig þeir tóku hvatningunni um að auka ræktunina og trú sína á gróðurmagn íslenzkrar moldar. Tilgangurinn með jarðræktarlögunum var að hvetja menn til framkvæmda í jarðrækt, af því að hún er svo mikils virði fyrir íslenzkan landbúnað, að það væri fullkomlega forsvaranleg ráðstöfun, að löggjafarvaldið notaði nokkuð af því fjármagni, sem það sækir í vasa borgara þjóðfélagsins, til þess að styrkja menn til að hrinda ræktuninni áfram. Með aukinni ræktun var lagður grundvöllurinn að tryggari framtíðarafkomu íslenzks landbúnaðar. Og sá grundvöllur var, að í þessu landi væri hægt að reka íslenzkan landbúnað þannig, að hann væri áfram annar höfuðatvinnuvegur þessarar þjóðar. Nú ber svo við, að þeir menn eiga að vera sviptir öllum styrk, sem hafa tekið bezt þessari hvatningu, sýnt mestu dugnaðinn í því að verða við þessu þjóðnytjustarfi, lagt margir hverjir fram aleigu sína og lánstraust og loks alla þá orku, sem þeir hafa getað af mörkum látið fram yfir það, sem önnur nauðsynleg störf kröfðust af þeim, til þess að verða við þessari áskorun íslenzku löggjafarvaldsins, til þess að búa þannig í haginn fyrir fólkið, sem lifir í sveitum þessa lands, og leggja með því grundvöllinn að framtíð íslenzks landbúnaðar.

Nú í þessu frv. er gert ráð fyrir því að ganga hreint til verks, að þeir menn, sem hafa lagt mest af mörkum, eiga smátt og smátt að verða sviptir öllum styrk, og þeir, sem eru komnir lengst í því að ná þessu takmarki, eiga engan styrk að fá framvegis, og mér skilst, að þetta sé þannig, að þótt til dæmis að taka, að þeir komist upp í þetta hámark með ræktunina eina saman, þá séu þeir útilokaðir frá styrk, þó að þeir eigi eftir að byggja haughús og hlöður og önnur nauðsynleg hús til búrekstrarins, sem styrkur er þó veittur til. Ég verð hinsvegar að líta svo á, að það, sem menn rækta, hvort sem það er í smáum eða stórum stíl, að það sé þjóðfélagseign, því að þótt það séu einstakir menn innan þjóðfélagsins, sem eiga þetta, þá er þjóðfélagið byggt upp af þessum einstaklingum. Þau verðmæti, sem þeir hafa skapað, eru grundvöllurinn undir afkomu þjóðfélagsins. Þannig var litið á það, þegar þessi lög voru sett 1923 og allt til þessa, að þessi hugmynd hefir skotið upp höfðinu, að fara þannig að að gera upp á milli manna. — Það er mikið talað um það í grg. fyrir þessu frv., að svo og svo mikið af þessari upphæð, sem veitt hefir verið, hafi runnið til býla. Ég hefi nú athugað hinar stærstu upphæðir, sem hér er um að ræða, og það er ekki á mörgum býlum, því miður, sem ræktunin er komin það langt áleiðis enn, að til hennar hafi gengið mjög háar upphæðir. Það er náttúrlega eitt stórbýli hér nærri Rvík, sem sker sig alveg úr, en það nær vitanlega ekki nokkurri átt að draga neina almenna ályktun út frá því. Aftur eru nokkrar jarðir, sem eru rétt ofan við það hámark, sem sett er í frv., þær eru bara ákaflega fáar. Það er t. d. ein jörð, sem notið hefir 9700 kr. styrks, 3 jarðir hafa fengið 7 til 8 þús. kr. styrk, 5 jarðir hafa fengi 6–7 þús. kr. styrk, og 13 jarðir hafa fengið 5–6 þús. kr. styrk. En þó er við þessar jarðir að athuga, að á þeim mörgum er tvíbýli og þríbýli, svo að þessi skýrsla gefur ranga hugmynd um það, sem veitt hefir verið hverju býli, en nú á að miða hámark styrksins við býli, og væri í skýrslunni miðað við það, færist þessi tala niður. Þá má sjá það, að það eru ekki afskaplega stór stökk, sem tekin hafa verið eða réttlæti það, sem sagt er í grg. fyrir frv., að tilgangurinn með því sé að ráðast á eða draga úr stórræktuninni. Hv. 1. þm. Árn., flm. þessa frv., brosir. Ef ég hefi tíma til að leita í grg., þá skal ég lesa það upp, með leyfi hæstv. forseta: „Frádráttur á styrk þeirra jarða, sem komnar eru yfir kr. 3000 í styrk, er gerður til þess að draga úr stórræktun á einstökum stöðum.“ Það er sagt skýrt og skorinort, að þetta sé gert til þess að draga úr ræktun. Við skulum nú bera saman þessa hugsun, sem á bak við þetta liggur, við þá hugsun, sem lá til grundvallar, þegar jarðræktarlögin voru upphaflega flutt. Ég veit, að þeim, sem að þeim stóðu, hefir ekki dottið í hug, að þeirri hugsun skyti upp, eftir að búið er að starfrækja lögin í 11 til 12 ár, að það ætti nú að fara að gera ráðstafanir til að draga úr ræktuninni. Það má ennfremur benda á það í sambandi við það tilræði, sem þeim mönnum er veitt, sem hafa verið að brjótast áfram, margir af lítilli getu, en miklum áhuga, því að það eru ýmsir af þessum mönnum, sem hafa miklu áorkað í þessu efni, en þeir hafa orðið að leggja hart á sig, þrátt fyrir styrkinn, þó að hann hafi riðið baggamuninn, hvort einmitt það, að draga úr þessari stórræktun, sem ég hefi nú sýnt fram á, hvað er á mörgum stöðum, geti ekki haft áhrif á möguleika hinna, sem á að greiða fyrir og verða fyrir þeirri auknu hvatningu, sem þeim er veitt samkv. þessu frv. Nú vitum við það, að stórtækustu framfarirnar í ræktun eru bundnar við notkun dráttarvéla. En til þess að geta notað dráttarvélar við ræktun. þarf mikla þáttöku um vinnu á hverjum stað, og hana með öðrum hætti en flestir hafa yfir að ráða. Ég er hræddur um, að þetta geti haft áhrif á það, þegar þeim, sem mestan dugnaðinn og áhugann hafa sýnt, er stjakað út af vellinum með þeim hætti, sem hér er gert —, þessum mönnum, sem einmitt hafa lagt grundvöllinn að því með sínum tiltölulega miklu framkvæmdum, að hægt hefir verið að nota dráttarvélar á tilteknum svæðum.

Ég býst við, að einmitt þetta verði til þess að gera skilyrðin erfiðari fyrir hina, og e. t. v. skjóta loku fyrir það, að þeir gætu unnið þessar framkvæmdir með slíkum hætti, en það er auðveldast að hrinda þeim áfram á þann hátt, eins og nú er ástatt um fólkshald í sveitum þessa lands, bæði til þess að vinna þau störf og önnur.

Ég ætla, að þetta atriði hafi ekki í meðferð þessa máls verið athugað nógu gaumgæfilega, að af þessu geti leitt það, að óbeinlínis verði dregið úr ræktuninni í sveitunum; svo var það nú þannig, að það þótti ekki nein vanvirða í sveitum þessa lands, þó að á stöku stöðum væri rekinn nokkuð stór búskapur. Ég held, að í mörgum slíkum tilfellum hafi það frekar verið talinn fengur, en ekki til hins lakara fyrir sveitarfélögin, að til væru í sveitinni duglegir búskapurforystumenn. Ég held, að slík heimili hafi í sveitum þessa lands lagt grundvöllinn að þeirri sveitamenningu, sem borið hefir menningu Íslendinga uppi um margar aldir, svo að menningarlega séð er það ekki heldur til bóta að gera ráðstafanir til þess, að ekki sé hægt að reka sæmilega stóran búskap í sveitum þessa lands, þar sem skilyrði eru fyrir hendi til þess, og að það sé vafasamur búhnykkur að ætla sér að draga úr þessari svokölluðu stórræktun. Það má ennfremur benda á, að það er enginn vafi á því, að tryggasti grundvöllurinn undir þá hugsjón, sem margir ala í brjósti sér á þessu landi, að geta fjölgað býlunum, er, að hægt sé að skipta jörðunum, að ræktunin sé svo mikil, að hægt sé að skipta jörðinni, þannig að hvert býli fyrir sig geti stuðzt við nokkuð mikið ræktað land. En það er vitanlega með þessu slegið á þennan möguleika.

Þá er það eitt enn, sem miðar verulega að því að draga úr styrkveitingum frá því, sem nú er, að því er snertir ræktunina í kringum kauptún og kaupstaði þessa lands. Það er ákveðið í niðurlagi 11. gr., að hækkun á styrk (þessi 20%) komi ekki til greina nema til býla, sem eru talin sjálfstæð býli, samkv. lögum um úttekt og ábúð jarða, en þar eru þau skilyrði sett fyrir því, að það geti talizt býli, að það sé hægt að afla þar á ræktuðu landi fóðurs handa 9 kúm og að býlið sé u. m. k. 1000 kr. að fasteignamati. Nú er það svo um marga þá bletti, sem menn í kaupstöðum fá sér útmælda til ræktunar, að þeir eru ekki það stórir, að þeir komist upp í 1000 kr. að fasteignamati. Þess vegna eru þeir útilokaðir frá þeirri hækkun, sem þarna um ræðir. Það er eingöngu í þeim tilfellum, að slíkir menn myndi með sér félagsskap um ræktun samkv. 3. kafla laganna, sem þeir geta orðið aðnjótandi þessa, en ekki, þegar þeir eru einir út af fyrir sig. — Úr því að gengið er inn á að hækka styrk til þeirra, sem lítið eða ekkert hafa gert, virðist mér það mjög öfugt að fara svona að, að ætla að útiloka þessa menn, sem eru að brjótast í ræktun í kringum kaupstaði og kauptún.

Þá er það eitt atriði enn, sem nokkuð hefir verið minnzt á, og get ég því farið fljótt yfir sögu, og það er sú breyt. frá því, sem nú er, að fjárframlagið er ekki lengur veitt sem styrkur, heldur telst það lán og leggst sem kvöð á býlið. M. ö. o., ríkissjóður eignast smámsaman hluta í jörðunum, sem styrknum nemur. Í sumum tilfellum getur viðkomandi sveitar- eða bæjarfélag orðið eigandi framlagsins, þegar sala fer fram, og jarðeiganeti verður að endurgreiða þetta lán eða leysu út þessa kvöð.

Það getur ekki leikið á tveim tungum með það, að hverju er stefnt með þessu; það á að nota fjárframlagið til jarðræktar til þess að láta ríkið ná tangarhaldi í jörðunum. Hér er því eins og í öðrum atriðum, sem ég hefi minnzt á, um að ræða algerða stefnubreytingu frá því, sem var 1923, og líka 1928, þegar þessi lög voru endurskoðuð. Það er enginn vafi, að þetta ákvæði verður til þess að fæla marga frá því að nota styrkinn; bændur eru því mjög andvígir, að aðrir eignist kvaðir í jörðum þeirra, sem vel gæti valdið þeim búsifjum síðar meir, þegar valdhöfunum þætti tími til kominn að fara að ráðstafa þeirri eign, sem ríkið hefir með þessum hætti öðlazt í jörðum. Undarlegt er það, að þessi ákvæði skuli einungis gilda um jarðir í sveitum, en ekki ræktunarlönd í kringum kaupstaði; þar verður framlagið áfram kvaðalaus styrkur. Ég sé vel, hvaðan það er runnið, ferilinn er hægt að rekja ljóslega. Eimskipafél. Ísl. hefir um mörg ár notið styrks til sinna strandferða,af því að það hefir verið litið svo á, að strandferðirnar, sem oft bera sig illa, væru svo nauðsynlegar, að það væri þess vert að veita því opinberan stuðning í þessu efni. En þá var það, eftir að sósíalistar fóru að gerast allumsvifamiklir hér á þingi með því að brjóta braut sínum sósíalistamálum, að þeir komu fram með till. um það, að sá styrkur, sem veittur er eimskipafélaginu, skyldi lagður inn sem hlutafé í félagið með það fyrir augum, að ríkisvaldið eignaðist þannig félagið smátt og smátt og þar með væri kippt þeim grundvelli, sem félagið var byggt upp á í öndverðu, undan því og áhrifavaldi þeirra einstaklinga, sem lagt hafa fé í félagið. En þá var litið svo á, að þetta væri ekki heppilegt, bæði af sjálfstæðismönnum og nægilega mörgum framsóknarmönnum til þess að hamla upp á móti þessu, svo þessi tilraun sósíalistanna til að koma eimskipafélaginu undir ríkisyfirráð var að engu ger. En það er vitað, að sósíalistum hefir alltaf verið að aukast bolmagn hér á þingi, og þess vegna er ekki undarlegt, þegar þeir í samstarfinu við Framsfl. eru orðnir æðstráðandi um stjórnarfarið til sjós og lands, eins og Jörundur hundadagakonungur orðaði það, þó að þeir geri alvöru úr því að framkvæma þær hugsjónir sínar, að koma jarðeignum í landinu undir ríkisyfirráð. Það er ekki heldur undarlegt, eftir að sósíalistar eru orðnir svo valdamiklir á þingi og í íslenzku ríkisstj., þó að þeir beri niður á bændum, að þeir eigi nú að verða fyrstu fórnarlömbin fyrir þessar hugsjónir, að láta ríkisvaldið meira og meira teygja klærnar yfir í sjálfstæði íslenzkra borgara, og í þessu tilfelli íslenzkra bænda. Eins og frv. um jarðakaup ríkisins er skilgetið fóstur sósíalista og þeir ætla að knýja fram sem uppfyllingu á samningunum við framsóknarmenn, eins ætla þeir nú með þessu frv. að leggja fjötur á íslenzka bændur. Ég skal ekki segja, hvað margir framsóknarmenn eru fjötraðir í þetta net sósíalista; enn sem komið er, er ekkert komið fram um það, kannske flm. einn, að því leyti sem hann vill halda þessu ákvæði til streitu. Ég veit ekki nema hann mundi verða tilleiðanlegur með þetta atriði, eins og með ýms atriði önnur í frv. Það sýnir reynslan bráðlega, ef það er tilgangurinn að knýja þetta mál fram núna á þessu þingi.

Í kaflanum um verkfærakaupasjóð er ennfremur gert ráð fyrir að draga úr þeim styrk, sem menn fá úr þeim sjóði. Nú er gert ráð fyrir, að styrkurinn verði ekki nema 1/3 verðs allra verkfæra, sem keypt eru, en áður var það þó ½ verðs þeirra jarðyrkjuvéla, sem keyptar voru, og þó að upphæðin sé nokkuð hækkuð frá því, sem nú er í fjárlögum, þá er hún ekki hærri en hún hefir verið áður. Þó að bætt sé við vélum til kornræktar, má samt búast við, að með þessum hætti verði nokkuð dregið úr þeim stuðningi, sem íslenzkir bændur hafa notið til þess að afla sér nauðsynlegra áhalda, einkum þó jarðyrkjuvéla. Ég vil í sambandi við þetta bera þá spurningu fram fyrir hv. flm. þessa frv., hvort t. d. þeir, sem eiga fé inni í þessum sjóði frá fyrri árum, geti fengið úr sínum séreignarsjóði ½ verðs til kaupa á jarðyrkjuvélum, því að þetta er séreign þeirra, áður en þessum lögum er breytt. Mér finnst það nokkuð hart, ef þeir ættu ekki að fá úr þessum séreignarsjóði sínum, sem þeir hafa safnað saman á því tímabili, sem þessi ákvæði giltu, nema 1/3 til kaupa á jarðyrkjuvélum. Ég vil spyrja, hvort þessi nýju ákvæði eiga ekki bara að ná til þess fjár, sem safnast í sjóðinn, eftir að þessi lög öðlust gildi.

Þá vil ég með fáum orðum minnast á 6. kafla þessa frv. Hann er um búferlaflutning, eins og það er kallað, og auk þess um það að taka eignarnámi lönd, sem liggja að kaupstöðum og kauptúnum, ef þessi lönd eru vel fallin til ræktunar fyrir þá, sem þar búa. Það er gert ráð fyrir því í 6. kafla frv., að það sé látin fara fram athugun á jörðum, og þá í því skyni að flokka úr þær jarðir, sem ekki á að greiða neinn jarðræktarstyrk til framkvæmda. Þar eru taldar upp jarðir, sem liggja undir áföllum og öðru þess háttar. Auk þess eru taldar upp í þessum flokki jarðir, sem eru afskekktar og liggja illa við samgöngum. Nú skilst mér, að ráðh. sé gefið vald til þess að neita um greiðslu á fjárframlagi til jarðræktar til býla, sem þannig er ástatt um, eftir að athugun hefir farið fram á þessu. Hinsvegar á að veita þeim mönnum nokkurn sérstakan stuðning, sem flytja af þessum býlum og yfir á önnur býli, eða þá ef þeir koma sér upp nýbýlum, því að það á að sjá þeim fyrir nokkru af verði þeirra húsa, sem eftir verða á þessum jörðum. Auk þess á, ef þeir vilja reisa nýbýli, að gefa þeim kost á nægilegu landi, og þeir eiga að fá erfðaábúð og óðalsrétt á þeim, og löndin eiga þeir að hafa afgjaldslaust til lífstíðar. Þetta er nú gott og blessað allt saman. Það má þó athuga það hinsvegar, að þessar afskekktu jarðir, sem svo eru kallaðar og að ýmsu leyti eiga erfitt með samgöngur, eru einmitt oft ekki síður lífvænlegar heldur en jarðir í þéttbýlinu, sem liggja betur við samgöngum. Hinsvegar vitum við það, að fólk sættir sig yfirleitt heldur illa við það, að vera á svo afskekktum stöðum. En þar sem ekki er upp á meira að bjóða í þéttbýlinu heldur en er hjá okkur, þá verð ég að segja, að það getur verið mjög varhugavert að ýta undir þetta fólk að yfirgefa dreifbýlið og fara að flytja sig í þéttbýlið, og það þó það ætli sér að reisa nýbýli, á meðan ekki er fengin nein reynsla um það, hvað lífvænlegt muni vera á þessum nýbýlum, sem reist eru að öllu leyti á óræktuðu landi. Að því leyti, sem framkvæmd þessarar löggjafar yrði til þess að ýta undir fólk að yfirgefa afskekktu staðina, sem get, skapað fólkinu, sem þar unir, góð lífsskilyrði. þá get ég trúað, að hún verði síður en svo til ávinnings. Þess vegna verður að fara töluvert varlega í þessar sakir, og ríkisvaldið má ekki auka á eða ýta undir það, að menn yfirgefi þessi fjarlægu býli og flytji sig í þéttbýli sveitanna í fullkomna tvísýnu þar. Á þessum dreifðu býlum lifa menn sérstaklega á sauðfjárframleiðslu, og enn sem komið er, þá er rýmri markaður fyrir afurðir sauðfjár en mjólkurafurðir, því að sala á þeim byggist nær eingöngu á innlendum markaði. En sala á erlendum markaði hefir ennþá verið allmikil fyrir okkar sauðfjárafurðir, og að sumu leyti mjög rúm að því er snertir ull og gærur, en að vísu nokkuð takmörkuð að því er snertir kjötframleiðsluna.

Ég vil með þessu aðeins benda á það, að þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera snertandi það fólk, sem er í dreifbýlinu núna, geta orðið tvíeggjað sverð, ef þetta breyttist þannig fyrir þjóðfélagið, meðan ekki fyndist tryggari grundvöllur undir búskap manna í þéttbýlinu.

Þá er gert ráð fyrir því, eins og er í núgildandi l., að það sé hægt að taka eignarnámi lönd til ræktunar í námunda við kaupstaði og kauptún. ef samkomulag fæst ekki. En mér skilst, að eftir ákvæðum þessa frv., þá sé gengið nokkuð nær heldur en í núgildandi 1. um að taka þessi lönd, og að skilyrðin, sem sett eru fyrir því, að það megi taka þau, séu nokkuð þyngri gagnvart eigendum þessara landa heldur en eru í núgildandi l. um þetta efni. Það getur verið forsvaranlegt að fara þannig að, enda ákvæði um þetta tekin upp í núgildandi jarðræktarlögum. Hér segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Heimild sú til eignarnáms, sem gefin er í 46. gr., nær ekki til þess lands, sem eigandi hefir tekið til ræktunar, né þess lands, sem eigandi hefir léð öðrum til ræktunar eða notar sjálfur á annan hátt, ef það telst þeim eða honum nauðsynlegt til bjargræðis að dómi Búnaðarfélags Íslands.“ Svo eru einnig undanskilin lönd, sem á eru fornminjar, sem ekki má raska. En hér er ekkert tillit tekið til þess, þótt eigandi hafi sjálfur hugsað sér að rækta þetta land, ef hann ekki er búinn að rækta það, og ekkert tillit tekið til þess, þótt landið sé honum nauðsynlegt, t. d. til hagabeitar eða annars slíks. En í núgildandi l. um þetta efni er þetta undanskilið, því að þar segir, að ekki megi taka slík lönd, ef eigandi sjálfur hefir gert viðbúnað til þess að rækta landið eða færir sönnur á, að landið sé honum nauðsynlegt vegna annara afnota. Hér er réttur eiganda miklu betur tryggður í gildandi lögum heldur en er samkv. þessu frv. Hér er þess vegna farið inn á mjög varhugaverða breyt., og virðist mér hér lengra gengið en forsvaranlegt er, ef á að fara að taka þau lönd, sem nauðsynleg eru fyrir búskaparafkomu manna. — Þá er ennfremur farið inn á það, að eigandi megi taka hærri leigu eftir þetta land en 3% af verðmæti landsins, og það er jafnvel gert ráð fyrir því, að það verði hægt að færa þessa skyldu yfir á þau lönd, sem áður voru leigð á erfðafestu, því að það á að taka þetta allt til endurskoðunar á næsta ári eftir að l. þessi hafa öðlazt gildi. Það kemur ekki skýrt fram, hvað meint er með þessu, en mér virðist, að ákvæðið bendi til þess, að í þessu efni sé lengra gengið en samrýmanlegt er löglegum rétti manna í þessu efni.

Ég hefi nú rætt hér nokkur atriði þessa frv., sem ég vildi láta koma strax fram í sambandi við þetta mál, af því að ég geri ráð fyrir, að það leiði af sjálfu sér, að þetta mál fer að þessu sinni ekki lengra en til n. Það er þess vegna nauðsynlegt, að það sé bent á þá agnúa, sem á löggjöfinni eru, og að þetta mál sé rætt sem ýtarlegast, og mönnum gefinn kostur á því, að kynna sér þær breyt., sem hér er verið að gera á þessari vinsælu löggjöf, svo að menn vaði ekki í villu og svíma um þetta mál, þegar það kemur til endanlegrar afgreiðslu á Alþingi, sem væntanlega verður ekki fyrr en á næsta þingi. Því meiri ástæða er til þess, að ýtarleg athugun fari fram á þessu máli nú, þar sem í ýmsum grundvallaratriðum þessa máls er alger breyt. orðin frá því, sem var, þegar l. þessi voru samin upphaflega 1923, og líka því, sem lá til grundvallar, þegar þau voru endurskoðuð 1928. Sú grundvallarbreyt., sem fram kemur í ýmsum atriðum þessu máls er til orðin á þeim tímum, sem liðið hafa síðan, og hefir mótazt af því samkomulagi, sem verð á milli núverandi stjórnarflokka eftir síðustu kosningar, og því áhrifavaldi, sem sósialistar hafa síðan haft á allan gang mála og afgreiðslu þeirra hér á Alþingi.