27.04.1936
Neðri deild: 57. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1148 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

120. mál, jarðræktarlög

*Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Ég skal reyna að hafa ekki mjög mörg orð til viðbótar. Mér þykir vænt um, hvað þessi umr. hefir verið hófleg og hvað vel menn hafa haldið sér við það efni, sem fyrir liggur. Þannig kýs ég helzt að ræða þau málefni, sem maður þarf að fást við til úrlausnar.

Það eru nú ekki mjög mörg atriði í ræðu hv. þm. Borgf., sem mér finnst ég þurfa að víkja að, því að nokkru leyti kom hann inn á sömu atriði, sem áður var búið að tala um, svo ég get farið fljótt yfir sögu.

Hv. þm. sagði, að hann hefði orðið að síma upp í Borgarfjörð til þess að fá vitneskju um, hvað þessu máli liði. Út af því umtali, sem orðið hefir um þessa hluti, vil ég benda á það, að það er engin nýlunda, að mál séu ekki lögð fram opinberlega, fyrr en undirbúningi þeirra er lokið og þeir, sem að þeim standa, eru búnir að koma þeim í þann búning, sem þeir í höfuðatriðum ætla sér að vera með. Ég skal viðurkenna, að það er ætíð æskilegt, að málefni geti komið snemma fram, svo að hægt sé að láta þau sæta góðri athugun, og á það ekki aðeins við þetta mál. En sökum þess, hvað naumur tími var milli þinga og hvað mörgu öðru hefir verið að sinna, þá hefir dregizt lengur en æskilegt hefði verið, að málið kæmi fram; það ber að viðurkenna. Hinsvegar vil ég vona, að hv. þm. séu margir hverjir þessu máli svo kunnugir, að þeir geti verið nokkuð fljótir að setja sig inn í það.

Hvað hámarksákvæðin áhrærir taldi hv. þm. Borgf. gengið í berhögg við stefnu gildandi laga. Það er rétt að því leyti, að núgildandi jarðræktarlög setja engin heildarhámörk um, hvað megi fara mest til sama býlis. Það má vera, að menn líti misjöfnum augum á þetta, en ég er hv. þm. ósammála um, að það sé ekki æskilegt að hafa slíkt heildarhámark í þessum l., sérstaklega meðan svo er ástatt í landinu, að mjög er takmarkað það, sem við getum selt af okkar framleiðslu. Nú er okkur lífsnauðsyn, eins og högum er háttað, að sem flestir geti haft verkefni og lífsmöguleika til sveitanna. Og að mínu áliti næst það bezt með þeim hætti, að það geti verið sem flestir sjálfstæðir bændur, sem hafa lífsframfæri af búskap sínum fyrir sig og sína. En því fleiri sem reka búskap í stórum stíl fram yfir það, sem þeir þurfa sér og sínum til framfæris, því meira þrengist markaðurinn innanlands, og það því fremur, þar sem svo er ástatt, að markaðurinn erlendis er bæði óhagstæður og mjög takmarkaður. Ég er ekki í vafa um, að þetta viðhorf í þessum efnum hefir opnað augun á mönnum og átt drýgstan þátt í, að slíkar till. eru fram komnar. Það væri allt öðru máli að gegna um þetta, ef þannig væri ástatt, að það, sem ekki þyrfti af framleiðslunni í landinu sjálfu þjóðinni til lífsframfæris, ætti aðgang að nægum markaði erlendis. Þá væri viðhorfið allt annað. Þess vegna má engan veginn skoða þetta svo, að það sé verið að refsa þeim mönnum, sem hafa sýnt dugnað og framtakssemi í ræktun og gert mikið. Það er vegna hins kalda veruleika og þeirrar brýnu nauðsynjar, sem á því er, að þess sé gætt, að nokkuð jafnræði ríki í þessum efnum, að þetta er fram komið. Það er líka sjón sögu ríkari í þessu efni. Hér í nágrenni við bezta markaðsstaðinn hefir þegar framleiðsla nokkurra manna aukizt um skör fram, sem leiðir til þess, að þeir, sem búa lengra í burtu og lakari aðstöðu hafa, geta mjög af skornum skammti notað þau skilyrði, sem lífvænlegust eru þó á sviði landbúnaðarins.

Ég get ekki farið að endurtaka það, sem ég hefi áður sagt viðvíkjandi því, hvort hér er verið að rýra vald búnaðarfélagsins yfir sínum málum. Mér þykir leiðinlegt, að hv. þm. skuli endurtaka þetta, því að þetta frv. gerir ráð fyrir, að búnaðarfélagið fái algerlega óskorað vald yfir sínum málum; aðeins á val búnaðarmálastjóra að vera bundið samþykki landbrh., og ef ágreiningur verður á milli búnaðarmálastjóra og búnaðarfélagsstjórnarinnar, á ráðh. að skera úr, ef um er að ræða þau málefni, sem búnaðarfélagið fer með í umboði ríkisvaldsins. Hitt nær ekki neinni átt, þótt með lagaboði sé ákveðið, að kosning til búnaðarþings skuli fara fram með þeim hætti, sem hér er gert ráð fyrir, þá sé það sú íhlutun, að bændur fái ekki notið sin. Þeir eiga sjálfir að kjósa sína fulltrúa, sem einir ráða stofnun þeirra. Mér þykir leiðinlegt, ef mönnum finnst í þessu felast allt annað heldur en þessi ákvæði gefa tilefni til.

Hv. þm. Borgf. vildi telja, að búnaðarfélagið hefði verið frjálsara og sjálfstæðara með fyrra fyrirkomulaginu, meðan Alþingi tilnefndi tvo menn í stjórn félagsins sjálfs, heldur en það yrði samkvæmt þessu frv. Ég er á allt annari skoðun um þetta atriði, en um það þýðir ekki að þrátta, það heldur sennilega hver sinni meiningu í því efni.

Ég held, að það sé hyggilegt, enda virtist mér hv. þm. Borgf. ekki neitt finna að því, að leggja jarðabæturnar í einingar, eins og frv. gerir ráð fyrir, og ákveðinn styrkur sé síðan veittur fyrir hverja einingu. Ég held, að það sé samkv. óskum manna, að þetta fyrirkomulag sé bundið með lögum, í stað þess að ákveðið sé með reglugerðarákvæði, hvað leggja skuli í dagsverk, og þannig hægt að hafa styrkinn mismunandi mikinn án lagabreytinga. Ég held, að það brjóti í bága við tilgang þessarar löggjafar, að bægt sé að hringla með þetta fram og aftur.

Hv. þm. sagði, að bændur þyrftu ekki að fá neina skipun um það frá Alþingi að koma þessu kosningafyrirkomulagi á. Ef þeir vildu taka það upp, gætu þeir komið fram með það sjálfir. Það má náttúrlega segja svo, en svipað má segja um mörg lagafyrirmæli, sem snerta ýmsar tilteknar stéttir þjóðfélagsins, að þau eru sett án frumkvæðis þeirra sjálfra, og svo framarlega að ekki sé gengið í berhögg við frjálsræði manna, er ekkert við slíkt að athuga. Í þessu efni þori ég að fullyrða, að bændur njóta fyllilega síns frelsis við kosningu sinna fulltrúa. Ég vil benda á það, út af því umtali, sem hefir orðið um fyrirskipanir af þingsins hálfu um þau efni, sem snerta félagsskap manna, að það er fullt af ákvæðum í okkar löggjöf, sem gefa mönnum fyrirmæli um, hvernig þeir skuli haga sameiginlegri starfsemi sinni, ýmiskonar tryggingarákvæðum, sem sett hafa verið án þess að hlutaðeigendur hafi óskað eftir. Ef löggjafarvaldið skoðar slíkt nauðsynlegt, til þess að koma einhverri starfsemi í fastara og öruggara form, þá gerir það það, enda heyrir það því til. Þá vék hv. þm. Borgf. að því, að það væri í sumum tilfellum miðað við landstærð, hvort menn hefðu atkvæðisrétt til búnaðarþings að öllu eða einhverju leyti. Það er rétt, en það ákvæði er sett inn til þess, að þeir, sem litið land hafa, séu ekki útilokaðir frá að hafa sin áhrif á þessi mál. Hinsvegar verður að taka tillit til þess, að ef hver maður, sem hefir einhvern grasblett til afnota, ætti að hafa óskoraðan atkvæðisrétt, eins og þeir, sem hafa lífsframfæri sitt af landbúnaði, þá gætu þeir orðið svo margir, sem íhlutun hefðu um þessi mál, að hinir eiginlegu bændur fengju ekki notið sín. Þess vegna er þetta ákvæði um takmarkaðan kosningarrétt þeirra, sem mjög litið land hafa, sett í frv. Ég játa fullkomlega, að þetta getur verið skoðanamál.

Þá vék hv. þm. Borgf. að hækkun og lækkun styrksins. Ég hefi vikið að því áður, að aðstöðumunur getur verið mikill, og höfum við ekki gengið framhjá því, þótt ekki sé hægt í löggjöf að taka tillit til staðhátta fullkomlega, og hefir þetta sízt verið betra áður. Þess vegna höfum við komið dálítið á móti með till. um hækkaðan framræslustyrk, og um styrk til grjótnáms ætla ég, að sé aðstöðumunur, sem ekki er gott að jafna.

Þá vék hv. þm. að þýðingu ræktunarinnar. Ég skal ekki fjölyrða um það; ég er honum sammála um, að hún skiptir þjóðfélagið miklu. Og ég efast ekki um, að jafngreindur og greinagóður maður og hv. þm. Borgf. er, hlýtur að sjá það, hve varhugavert væri eða gæti verið að hlynna að þeim mönnum, sem langbezta aðstöðu hafa til að auka framleiðsluna takmarkalaust, a. m. k. meðan framleiðslu- og markaðsástandið er eins og ég hefi áður lýst. Þeir ættu að vera komnir á þann rekspöl, að þeir geta vissulega haldið áfram sínu starfi við ræktunarumbætur á jörðum sínum, og ég vil vona, að þeir haldi því starfi áfram. Mér dettur ekki í hug að halda, að þessir menn hætti öllum umbótum, þó að þeir njóti ekki til þess styrks úr ríkissjóði, sérstaklega þeir, sem langt eru komnir. — Hv. þm. vék að því, að með þessu væri verið að gera upp á milli manna. Það er rétt, að það er að ýmsu leyti gert, en það er ekkert sérstakt við þessa löggjöf eða um þessi atriði; þetta er gert í flestum lögum, og ég fullyrði, að það sé hér fullkomlega réttlætanlegt.

Þá vék hann og að því, að þetta skyti skökku við og væri í ósamræmi við vilja þeirra manna, sem báru fram lög þessi upphaflega. Ég vil benda á, að þegar jarðræktarlögin voru sett, voru allar aðstæður mjög á annan veg en nú er, og viðhorfið því allt annað. Ég vil fullyrða, að þessir sömu menn hefðu nú viljað setja sömu skorður og hér er farið fram á, ef þeir hefðu borið fram jarðræktarlögin á þessum tíma. Ég get ekki fallizt á, að takmörkuð verði notkun manna á stórvirkum jarðvinnslutækjum einmitt nú, þegar röðin er komin að þeim mönnum, sem skemmra eru komnir áleiðis með ræktunina. og vil ég vissulega, að þau verði notuð.

Ég hefi skrifað hér hjá mér nokkuð mörg atriði, en ég sé ekki, að þau skipti miklu máli, svo að ástæða sé til að rekja þau öll.

Hv. þm. Borgf. minntist á hátt jarðarverð. Það er ekkert efamál, að það er mesta böl. Danmörk er mikið landbúnaðarland, og þar býr vel mennt þjóð, með vel ræktað land, en hennar böl er, hvað landið er dýrt, og kvarta þeir mjög undan háa jarðarverðinu bæði í ræðu og riti. Ef það gæti tekizt með ákvæðum þessara laga að hindra hækkun jarðarverðsins, tel ég það alls ekki óþarft.

Þá vék hv. þm. Borgf. að Eimskipafélagi Íslands og jafnaðarmönnum og taldi, að þetta ákvæði væri komið frá þeim. Ég get ekkert um það sagt, hver þeirra afstaða er, en ég býst við, að þeir vilji ekki hátt jarðarverð. — Hv. þm. var að átelja okkur framsóknarmenn fyrir, hve þeir væru fjölmennir á þingi nú. Ég held, að hann ætti fremur að líta í eiginn barm og síns flokks, því að fjölgun þeirra stafar af kosningalagabreyt. og stjórnarskrárbreyt., sem þessir flokkar stóðu saman að. En við framsóknarmenn stóðum gegn, og sér hann nú, til hvers sú breyt. leiddi; má hann því kenna sér um og sínum flokksbræðrum, hversu fjölmennir þeir eru nú hér á þingi.

Þá vék hv. þm. þeirri fyrirspurn til mín viðvíkjandi styrk til vélakaupa, hvort ekki mundi mega verja þeirri innieign, sem vélkaupasjóðirnir eiga nú, til styrkja svo sem verið hefði. Þetta atriði barst ekki í tal milli okkar, sem að þessu verki unnum, en ég get lýst því yfir fyrir mitt leyfi, að ég teldi það ekki óeðlilegt, en að sjálfsögðu þarf að taka það fram, svo að ekki verði misskilið, og mun þá n. að sjálfsögðu gera brtt. þar um.

Hv þm. minntist á búferlaflutninginn, og er það alveg rétt, að það ákvæði getur verið tvíeggjað, en það er nú svo um mörg mál í framkvæmdinni. En ég vil vona, að BÍ. og þeir menn, sem eiga að sjá um framkvæmd þessara laga — til þess kjörnir trúnaðarmenn —, hafi fullkomna forsjá í starfi sínu, og vænti ég þess, að þá hverfi sú hin verri eggin. Og ég vænti þess, að hv. þm. Borgf. sé sammála um, að það sé hin mesta óforsjálni og fásinna ein, að styrkja þau býli, sem af náttúrunnar völdum eða öðrum ástæðum eru óheppileg til búskapar og sýnt er, að munu leggjast í eyði.

Ég skal þá víkja örfáum orðum að hv. þm. A.-Húnv., en um hann get ég verið mjög stuttorður. Hann vék að því, að góðu jarðirnar, sem lítið hefðu verið ræktaðar, ættu nú að fá hækkaðan styrk. Þetta var okkur ljóst, og þetta er alveg rétt, en ég vil benda á, að í jarðræktarlögunum hefir ekki verið metin slík aðstaða til búskapar, og eru þau í þessu efni ólíku verri en þetta frv.

Hv. 7. landsk. þm. vildi enn halda því fram, að með frv. þessu væru völdin færð í hendur landbrh. Ég held, að það sé ósköp lítið, en ákveðið er, eins og hefir verið, að hann sé æðsti maður þessara mála, og þó þetta sé sett inn um val búnaðarmálastjóra, hefir svo verið áður, og afskipti hans af ágreiningi eða málum félagsins ná ekki lengra en til þeirra framkvæmda, sem félagið hefir með höndum fyrir ríkið.

Þá minntist þessi hv. þm. á S. Í. S. Ég vil benda honum á, að til er löggjöf þar að lútandi. og mér er ekki ljóst, að nein ósk hafi komið fram frá bændum um, að þau lög þyrftu breyt. við, en lesi menn þau 1., sjá þeir, hvað þar er áskapað. og ég vil benda hv. 7. landsk. á, að í jarðræktarl. er nú skipað fyrir um margt.

Og þannig er í öllum siðuðum þjóðfélögum, sem byggja á samstarfi þegnanna, að ýms fyrirmæli er sett, og það er ekkert sérstakt um þessa löggjöf. Mér finnst það broslegt hjá hv. þm., að treysta ekki bændum til að velja sjálfir sína fulltrúa á búnaðarþing á sama hátt og þeir velja okkur til þings. Ég held, að þetta sé meir sagt til gamans en að það sé meint í alvöru, og ég viðurkenni ekki, að þetta sé óþarft.

Ég tel það til bóta, að búnaðarþing verði fjölmennara og starfi lengur en verið hefir, og orsökin eða ástæðan til að vera á móti því, getur ekki verið fjármálin. Ég held, að okkur hv. 7. landsk. greini ekki á um, að hér sé um svo þýðingarmikla stofnun að ræða, er fjalli um svo mikilsvert málefni bændastéttarinnar, að ef kostur er að auka nytsemi þessara starfa, þá sé þeim fjármunum vel varið, er til þess ganga, a. m. k. er það mín sannfæring og mín trú.

Þá hefi ég vikið nokkrum orðum að þeim aths., sem komið hafa fram, og sé ég ekki ástæðu til að hafa þau fleiri. Er eðlilegt, að ýmsar aths. komi fram, en mér þykir ánægjulegt, hvað þessar umr. hafa verið bundnar við málið sjálft.