30.04.1936
Neðri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

120. mál, jarðræktarlög

Frsm. 1. minni hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Til viðbótar því, sem segir í nál. um afgreiðslu málsins, skal ég geta þess, að fundur sá, er þar um ræðir, í stj. Búnaðarfélags Íslands hefir verið haldinn, og gat stj. búnaðarfélagsins ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. stj. vildi ekki ræða einstök atriði frv., en lét bóka svofellda ályktun frá form. félagsins, Magnúsi Þorlákssyni. Var hún samþ. af meðstjórnanda okkar, Svavari Guðmundssyni, eftir að hún hafði verið lesin upp fyrir honum í síma. Þessi yfirlýsing hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem frv. til jarðræktarlaga, er nú liggur fyrir Alþingi, skerðir stórkostlega félagsréttindi Búnaðarfélags Íslands og gengur inn á alger einkamál þess og rýrir mjög vald félagsins og ákvörðunarrétt um málefni landbúnaðarins, en dregur hinsvegar að sumu leyti mjög úr framlögum ríkisins til jarðræktarinnar og felur auk þess í mikilsverðum atriðum í sér grundvallarbreyt. á jarðræktarlögunum, þá skorar stj. Búnaðarfélags Íslands fastlega á Alþingi að fresta afgreiðslu málsins á þessu þingi, en krefst þess, að frv. verði sent til umsagnar búnaðarsambandanna og búnaðarþings, er saman á að koma um líkt leyti og næsta reglulegt Alþingi, og væri þá ágæt aðstaða til að vinna að úrlausn þessara mála og athuga þær breyt., er til bóta gætu orðið á núverandi löggjöf, og þá um leið gæti búnaðarþing gert þær breyt. á lögum Búnaðarfélags Íslands, sem nauðsynlegar kynnu að verða.

Búnaðarfélag Íslands, 29. apríl 1936.

Þ. Magnús Þorláksson,

Pálmi Einarsson,

(eftir umboði Svavars Guðmundssonar).

Ég er, eins og hv. þm. vita, í stjórn Búnaðarfélags Íslands, og ég gat ekki orðið sammála meðstjórnendum mínum um þessa ályktun. Með því að ég mun í þeim orðum, er ég tala um þetta, komast inn á það efni, þá sé ég ekki ástæðu til að lesa upp þá grg., er ég færði fyrir því í stj. Ég skal að vísu segja það strax, að mér þykir leitt að verða að finna að því, að svo mikill dráttur hefir orðið á undirbúningi þessa máls, að ekki hefir verið hægt að leggja það fyrir þingið, fyrr en svo er orðið áliðið, að ekki eru tök á að senda það til búnaðarsambandanna og fleiri, en það hefði mátt gera, ef frv. hefði komið fram snemma á þinginu. Það gátu vitanlega verið einstök „teknisk“ atriði, er betra var, að farið væri yfir af sem flestum kunnugum mönnum. Það hefði getað flýtt fyrir afgreiðslu málsins og lagað ýmsa agnúa, sem kunna að vera á þessum lagabálki fram yfir það, sem við sjáum í fljótu bragði. Hitt er ég sannfærður um, að um þau atriði frv., sem aðallega valda ágreiningi, hefðu ekki orðið nein skoðanaskipti hjá hv. þm., hvert sem álit búnaðarþingsins hefði orðið. Ég segi þetta af þeirri reynslu, sem ég hefi fengið á undangengnum þingum. Hér hafa oft legið fyrir einróma áskoranir frá búnaðarþinginu um breyting á lögum þess í vissum atriðum, og þing eftir þing hefir þetta verið flutt af sömu hv. þm. Það er ekki af fjandskap við Búnaðarfélag Íslands, að þessar brtt. hafa verið felldar, heldur af því að þær hafa ekki verið álitnar vera til bóta. Sama er ég sannfærður um, að mundi eiga sér stað nú, þó að búnaðarþingið féllist á og mælti með þeim höfuðtill., sem í frv. felast, þá mundu þeir, sem eru á móti málinu og hafa talað hér gegn því, ekki breyta neitt afstöðu sinni eftir því; og eins þótt búnaðarþingið legðist á móti því, þá mundi það á sama hátt ekki hafa nein veruleg áhrif á skoðanir þeirra manna, sem nú þegar eru búnir að taka afstöðu með málinu. Þannig mundi það að fresta málinu og vísa því til búnaðarþings ekki hafa neitt annað að þýða en frestun þess í eitt ár. Ég segi þetta ekki af því, að ég telji, að búnaðarþingið sé þeim mun lægri stofnun í þjóðfélaginu en Alþingi, að Alþingi geti ekki beygt sig fyrir ályktunum, sem þaðan koma, heldur af hinu, að ég veit, að það meta svo margir sína persónulegu skoðun á málinu meira en álit, þó að það sé jafnvel frá svo virðulegri stofnun sem búnaðarþinginu.

Ég skal þá fara nokkrum orðum um þær höfuðbreyt., sem í þessu frv. felast frá þeim lögum, sem nú eru í gildi. Fyrsti kaflinn ræðir um stjórn búnaðarmálanna og aðstöðu ríkisvaldsins til þeirra. Því hefir verið mjög haldið á lofti af hv. stjórnarandstæðingum, að með þessu væri verið að rýra vald búnaðarfélaganna í landinu. Mér finnst þetta á misskilningi byggt. Menn verða að gera sér grein fyrir því, að Búnaðarfélag Íslands hefir tvennskonar starfsemi. Annarsvegar er það „prívat“ félagsskapur bænda landsins, og svo hinsvegar er búnaðarfélagið aðili, sem hefir á hendi einskonar framkvæmdarstarfsemi fyrir ríkið á málum, sem í flestum öðrum löndum falla undir landbúnaðarráðuneyti hvers ríkis. Búnaðarfélag Íslands hefir með höndum flestar veigamestu og stærstu lagaframkvæmdir ríkisins í landbúnaðarmálum, s. s. framkvæmd á jarðræktarlögunum, búfjárræktarlögunum, sandgræðslunni o. fl. Nú eru komnar upp þær skoðanir, og þeim er að aukast fylgi, að við eigum að aðskilja þessi 2 verkefni, láta búnaðarfélagsskapinn afskiptalausan með sín „prívat“ mál, og láta hann fá einhvern styrk frá ríkisvaldinu, en taka öll umboðsstörf af því og setja undir ríkisstjórnina, og væri þá meiningin að mynda þar sérstaka skrifstofu fyrir þau mál hliðstætt vegamálaskrifstofunni. Ég er á móti því, að þetta samband, sem nú er milli búnaðarfélagsskaparins og framkvæmdarvaldsins, sé rofið. Mér finnst eðlilegast, að sú þróun, sem orðið hefir hér á landi í þessum málum, að fela búnaðarfélagsskapnum framkvæmdir í þessum málum, haldist. Ég er sannfærður um, að það er styrkur bæði fyrir búnaðarfélagsskapinn og framkvæmdarvaldið sjálft. Ég álít, að þessu sé bezt þann veg farið, að bændurnir sjálfir eða fulltrúar þeirra á búnaðarþingi hafi með höndum og ráðstafi að nokkru leyti í samráði við ríkisstj. þeim búnaðarmálum og lagaframkvæmdum, sem landbúnaðinn varða, fylgist með því og ráði þar um eftir því, sem þeir kynna sér þau mál. Ég er líka sannfærður um, að það er mikill styrkur fyrir hvern landbrh. að hafa slíkan ráðunaut við höndina. Ég er viss um, að framkvæmd þessara mála er ekki eðlilegri á neinn annan hátt en þennan. Hitt er mér ljóst, að það hefir vantað í þessum málum, að ekki skyldi hafa verið sett löggjöf um þetta starf og markaðar línur milli búnaðarfélagsins og ríkisvaldsins um þessi umboðsmál. Það má segja, að eins og er, þá sé þetta allt í lausu lofti og getur hæglega valdið ágreiningi, og hlýtur raunar að gera það, ef eitthvað ber á milli, svo framarlega sem ekki verða sett skýr lagaákvæði um það. Slíkir árekstrar mundu verða fyrst og fremst til þess, að þetta samband yrði rofið og málin tekin af búnaðarfélaginu. Ég tel því, að einmitt með því að setja l. um þetta, verði tryggt betur en ella, að hið eðlilega samband haldist í þessum málum. Og verð ég að segja, að þær till. um þessa lögþvinguðu samvinnu milli ríkisstjórnarinnar og búnaðarfélagsins eru mjög eðlilegar og sjálfsagðar. Ef að þessum till. verður horfið, þá kemur búnaðarmálastjóri til að fela í sér 2 störf, annarsvegar framkvæmdarstjórastarf fyrir búnaðarfélagsskapinn og framkvæmdarstjórastarf fyrir framkvæmd landbúnaðarmála. Búnaðarmálastjórnin ræður búnaðarmálastjóra, en samþykki ráðh. verður að koma til. Hinsvegar getur ráðh. ekki skipað neinn mann á móti vilja félagsins. Þetta vil ég kalla lögþvingaða samvinnu milli þessara 2 stofnana, sem ég tel nauðsynlega. Þá eru í 3. gr. ákvæði um það, að þegar búnaðarmálastjóra og stjórn búnaðarfélagsins greinir á, þá megi skjóta málinu til ráðh. Ég kann ekki við málsgr. eins og hún er í frv., því að það má skilja það svo, að þetta nái til allra mála, sem búnaðarfélagið hefir með höndum. Þess vegna

hefir minni hl. borið fram brtt. um, að þetta nái eingöngu til þeirra mála, sem búnaðarfélagið fer með í umboði ríkisvaldsins. Ég hefði frekar kosið, að þessi 1. eða þessi drög til að leggja undirstöðu að búnaðarfélaginu hefðu verið borin fram sem sérstakt frv., þar sem verið hefðu lögð drög að einskonar stjórnarskrá, sem búnaðarfélagið byggði ofan á. En hinsvegar sé ég ekki, að það sé neitt aðalatriði, þó að þetta sé tengt hér við jarðræktarlögin. Það eru ákvæði um það í gömlu jarðræktarl., að allir, sem styrks njóta, séu skyldir til að vera starfandi félagar í hreppabúnaðarfélögum. Þetta er gert til þess að knýja sem flesta inn í þetta samstarf. Það eru ýmsir, sem hafa látið þau orð falla, að það væri óheppilegt að knýja menn nauðuga inn í hvaða félagsskap sem er, og þeir hafa haldið því fram, að með því kæmi of mikið af áhugalausum mönnum inn í félagsskapinn. Ég er á allt annari skoðun um þetta. Það er nauðsynlegur styrkur fyrir hvern þann félagsskap, sem á að verða almennur, að fá sem flestu meðlimi. Sömuleiðis vil ég segja það, að það gildir vitanlega alveg sama regla um þetta eins og þjóðfélagið sjálft, að það verða áhugamennirnir, sem bera uppi starfið bæði fyrir sig og hina, sem minni áhuga hafa. Þetta er hliðstætt, að bændur séu lögþvingaðir inn í búnaðarfélagsskapinn, eins og einstaklingarnir eru þvingaðir inn í þjóðfélagið. — 7. gr. frv. er um það, á hvern hátt skuli kjósa fulltrúa á búnaðarþing. Núna er það svo, eins og mönnum er kunnugt, að það eru búnaðarsamböndin, sem kjósa fulltrúa á búnaðarþing, en samkv. þessum till. eiga það að vera búnaðarfélögin, sem kjósa beint inn á búnaðarþing framhjá samböndunum. Ég álít þetta ekki stórt atriði, og ég hefi ekki getað fundið neitt verulega við það að athuga, þó að kosningin væri óbein, eins og verið hefir. Hinsvegar viðurkenni ég, að þetta hefir nokkurn kostnað í för með sér, en það hefir líka þann kost, að það verða fleiri menn úr stétt bænda, sem koma til með að fjalla um þessi mál, og getur það vitanlega orðið til bóta. Það hefir einnig þann kost, að ég tel, að með því áliti bændur sig komast í beinna og nánara samband við búnaðarþingið heldur en gegnum þær tvöföldu kosningar. Ég hefi þá trú, að þetta verði til að auka fjör og starfsemi í félagsskapnum frá því, sem verið hefir. En hinsvegar geri ég ekki ráð fyrir, að það muni verða neitt hæfari menn, sem koma til með að sitja á búnaðarþingi, þó að þetta verði lögfest. Það hefir alltaf verið svo, að það hafa verið aðaláhugamennirnir, sem hafa verið kjörnir á búnaðarþing, og það mun verða eins fyrir þessu. Ég er hinsvegar sannfærður um, að með beinni kosningu fulltrúanna og þeirri fjölgun, sem samkv. frv. á að gera, er komið á meira lífrænu sambandi milli búnaðarþings annarsvegar og bændanna hinsvegar. Ég álít því, að þessi breyt. verði til bóta, og er því fylgjandi, að hún verði gerð.

Þá er eitt aðalatriði, sem er í 9. gr. frv. og er það að festa mælikvarða fyrir styrknum í lögunum, í stað þess, sem hefir verið, að hann væri ákveðinn í reglugerð. Þetta hefir bæði kosti og galla. Gallinn er sá, að ef agnúar koma í ljós, sem þörf er á að bæta, þá er ekki hægt að breyta með einfaldri reglugerðarbreytingu, og verður því svifaseinna; en þetta hefir þann kost, að stjórnin getur ekki, hver sem hún er, gert á þessu breyt, á eindæmi, t. d. stækkað eininguna, þ. e. dagsverkin, sem lögð er til grundvallar í lögunum, nema leita til þess samþykkis Alþingis. Þess vegna fæst trygging og nokkurt öryggi um þennan mælikvarða með því að lögfesta hann.

Þá er eitt atriði, sem ég vil minnast á í sambandi við stjórnarkosninguna, það er, að hver félagi er skyldaður til að halda félagsblaðið Frey. Það er svo í ýmsum félagsskap, að meðlimirnir eru skyldaðir til að kaupa félagsritið, og tel ég sjálfsagt að lögfesta þetta atriði á sama hátt og í þeim félögum, þannig að allir bændur haldi eitt tímarit, sem ræðir þeirra áhugamál. Enda er ekki á annan hátt auðveldara að gera blaðið ódýrt en að stækka upplagið, og með þessu kemst verðið í 3 kr., og ég er sannfærður um, að það mun hverjum bónda þykja góð kaup.

Þá kem ég að einni höfuðbreyt., sem er ákvæðið um hámarksstyrkinn. Ég skal játa, að ef þeir tímar væru nú, að við gætum horft fram á það að hafa nóg fé milli handa til að styrkja jarðræktina, mundi ég ekki vera með þessu ákvæði. En þegar vitanlegt er, að hagur ríkissjóðs fer versnandi og við horfum fram á síminnkandi tekjur vegna örðugleika þess atvinnuvegar, sem gefið hefir aðaltekjurnar, og miklar líkur eru til, að draga þurfi saman útgjöldin á mörgum sviðum, þá kæmi vitanlega að því, að stöðva þyrfti jarðræktarstyrkinn. Og þá er ég ekki í neinum vafa um, að rétt er að stöðva greiðslu til þeirra, sem mest hafa fengið, en láta hina halda styrknum, sem minnst hafa fengið. Því vitanlega er það rétt að gera sem flest býli hæf til búrekstrar, og ég verð að telja, að lífvænlegt sé orðið á þeim býlum, sem búin eru að fá 5 þús. kr. styrk. Hitt er meiri vafi, hvort ákvæði frv. um lækkun styrksins af síðustu jarðabótum sé að öllu leyti heppilegt; um það skal ég ekki segja nú, en mun athuga það til 3. umr. Sama er að segja um, að ég er ekki sérstaklega hrifinn af því að auka útborgun á fyrstu dagsverkin. Ég veit það að vísu, að fjöldi manna býr á örreytiskotum, en hafa ekki notið styrks, og þeim er mikil þörf á að fá styrkhækkun til að koma þeim af stað. Hinsvegar eru til margir bændur, sem ekki hafa lagt í ræktun á jörðum sínum, vegna þess að það eru góðar engjajarðir t. d., og þeir hafa búið við góða aðstöðu í ýmsu öðru, en á milli þeirra verður ekki greint. Ég mun því vegna þeirra manna, sem verst eru settir, verða fylgjandi þessu ákvæði, þó að aðrir menn kunni að slæðast með, sem hafa minni þörf fyrir hækkun.

Þá kem ég að því atriði, að jarðræktarstyrkurinn sé og verði eign þjóðarinnar, en ekki einstakra manna. N. hefir athugað þetta og leggur til, að því verði breytt eins og brtt. bera með sér. Ég skal játa, að það er ekki nema eðlilegt, að mönnum komi til hugar, að sú skipun þurfi að verða á, að jarðræktarstyrkurinn verði ekki eign einstakra manna, er síðan geti selt hann, og hann verði þannig til að hækka jarðarverðið, heldur ætti þessi styrkur að verða til þess að bæta afkomumöguleika allra þeirra bænda, er á jörðinni búa í framtíðinni, og yrði hann því sem gjafahluti ríkisins til ábúandans á jörðinni. En ég tel mjög mikið vafamál, að þetta takist fyllilega og að þetta ákvæði nái tilgangi sínum, en það er þó tilraun í rétta átt, og mun ég fylgja því, ef brtt. n. verður samþ.

Um búferlaflutninginn vil ég segja það, að um það hefir verið rætt mikið á síðari árum, að nauðsyn bæri til að gera upp á milli jarða og draga þær jarðir úr ábúð, sem líkur eru til, að fari í eyði á næstu árum af einhverjum orsökum, landfræðilegum eða af náttúruvöldum. Frv. gerir tilraun í þessa átt, með því að ákveða, að meta skuli undir vissum kringumstæðum, t. d. ef jörð liggur undir skemmdum vegna sandfoks, vatnságangs eða annars, eða henni er sérstaklega illa í sveit komið, hvort greiða beri jarðræktarstyrk eða ekki, og ef ákveðið er, að styrkur skuli ekki greiddur, þá hjálpa ábúendum að fá jarðnæði annarsstaðar eða gera ráðstafanir til þess, að svo megi takast. Vitanlega er það höfuðmisskilningur, sem hefir komið fram, að þjóðinni væri til bóta að færa saman alla byggðina í fleiri þorp og leggja meginhluta landsins í auðn. Er vitanlegt, að ýmis afdalabýli og útnesjakot eru góð til búskapar og mönnum hefir búnazt þar ágætlega. Hinsvegar eru til jarðir, sem fara í auðn innan skamms, og þeim mönnum, sem þar búa, þarf að hjálpa til jarðnæðis annarsstaðar.

Ég þykist þá hafa rætt aðalatriðin og skal víkja að brtt. þeim, sem minni hl. leggur fram. Er þá fyrsta brtt., við 2. gr. frv., um að orðin „og viðhald“ falli burtu. Við sjáum ekki, hvernig BÍ. á að geta komið við eftirliti með viðhaldi jarðabótanna, og teljum, að þetta mundi verða dauður bókstafur. — 2. brtt. okkar er við síðustu mgr. 3. gr., að skýrra sé tekið fram um það, að sá ágreiningur, er kann að verða milli stj. og búnaðarmálastjóra og skjóta megi til ráðh., sé aðeins hvað snertir þau mál, sem B. Í. fer með í umboði ríkisvaldsins. Gr., eins og hún var áður, gat að okkar dómi ekki staðizt, enda kom það fram í umr., að ekki var meiningin önnur en þessi. –Þá er brtt. við 7. gr., við ákvæði um það, hvernig kjósa skuli til búnaðarþings. Fyrst er ákvæði um, að kjósa skuli 1 fulltrúa fyrir hverja 300 félagsmenn, en síðar í gr. er ákvæði um atkv. fyrir 20 ha.; er það um þá menn, sem hafa minna land og þurfa því að safna atkv. sínum saman, þó að þeir séu félagsmenn. Þykir okkur sjálfsagt, að atkv. séu miðuð við þessa landstærð, og þess vegna viljum við breyta þessu þannig, að í staðinn fyrir „félagsmenn“ komi: félagsmannaatkvæði, o. s. frv. Sömuleiðis var gert ráð fyrir, að einn fulltrúi yrði kosinn fyrir hverja 300 og einn fyrir brot úr hundraði, þannig að ef eitthvert félagið eða búnaðarsambandið teldi 301 meðlim, átti það rétt á 2 fulltrúum. Þetta álítum við hæpið ákvæði, sem gæti orðið til þess að fjölga meðlimum búnaðarþingsins úr hófi fram og gæti valdið talsverðu ranglæti. Við leggjum því til, að rétturinn til að kjósa annan fulltrúa komi ekki fyrr en fullt hundrað meðlima sé framyfir 300, þannig að þau búnaðarsambönd, sem telja 400–600 meðlimi, fá 2 fulltrúa, o. s. frv.

5. brtt. er við 15. gr. og er ekki annað en orðabreyt., sem ekki raskar efni. — Þá er stærsta breyt., við 17. gr. Eins og gr. liggur fyrir, er ákveðið, að færa skuli sérstakan dálk í fasteignamatsbók yfir allan jarðræktarstyrk, sem jörðin hefir þegar hlotið, og ef jörðin er seld, skuli draga hann frá söluverðinu, þar sem ekki má selja hann, heldur skoða sem vaxtalaust tillaga. Nú er það vitanlegt, að jarðir hækka hér um bil aldrei að sama skapi í verði og í þær er lagt; þess vegna álítum við ekki réttlátt, að verðfallið komi eingöngu niður á bóndanum, en ríkið haldi sínu. Álítum við því réttmætt, að metið sé, hvernig skipta beri verðhækkuninni hlutfallsleg, milli bóndans og ríkisins. Þá tökum við það fram í brtt., að þetta ákvæði komi ekki til framkvæmda fyrr en eftir gildistöku laga þessara; er vitað, að búið er að selja og veðsetja margar þessara jarða, og er gagnslaust og þýðingarlaust að ætla að láta þau verka aftur fyrir sig. — 7. brtt. er við 20. gr. Við sjáum enga ástæðu til að breyta hámarksstyrknum til einstaklinga; þess vegna gerum við ráð fyrir, að síðasti málsliður falli burtu. — Við 25. gr. er brtt., þar sem skýrt er ákveðið, hverskonar hestaverkfæri til jarðvinnslu megi styrkja úr verkfærakaupasjóði. Er vitanlegt, að mörg þau verkfæri, sem notuð eru við kornyrkju, eru ekki hestaverkfæri, og þess vegna er þessi liður orðaður um. Sömuleiðis leggjum við til, að bætt verði við 25. gr. ákvæði um hámarksstyrk til sama manns; hefir það af vangá fallið niður, því að ákvæði er um 300 kr. hámark í gildandi lögum en við leggjum til, að það verði 400. — Þá er brtt. við 29. gr. Okkur finnst óviðkunnanlegt að ákveða í l. þessum, að vissum starfsmanni B. Í. séu falin viss störf, en þegar félaginu er falin framkvæmdin og það snertir peningamál, þá leiðir af sjálfu sér, að það lendir á gjaldkeranum. — 15. brtt., við 47. gr., er í þá átt að þrengja heimildina til að taka land eignarnámi, sem gefin er í 46. gr., er svo hljóðar: „Nú er land í námunda við kaupstað, kauptún eða þorp, sem hæft er til ræktunar, og íbúana skortir land til afnota, skal þá hlutaðeigandi bæjarstjórn eða hreppsnefnd hlutast til um að fá landið. Nú takast samningar ekki um kaup eða leigu á landinu, og er þá bæjarstj. eða hreppsn. heimilt að taka landið leigu- eða eignarnámi, ef Búnaðarfélag Íslands mælir með því.“

Svo segir aftur í 47. gr.:

„Heimild sú til eignarnáms, sem gefin er í 46. gr., nær ekki til þess lands, sem eigandi hefir tekið til ræktunar eða léð öðrum og er þeim nauðsynlegt til bjargræðis að dómi Búnðarfélags Íslands.“

Við viljum ekki binda þetta eingöngu við land til ræktunar, ef það er notað til bjargræðis. Þess vegna leggjum við til að orða þetta um, þannig að upphafið sé sama, en í stað orðanna „eða léð öðrum“ o. s. frv. komi: „né þess lands, sem eigandi hefir léð öðrum til ræktunar eða notar sjálfur á annan hátt, ef það telst þeim eða honum nauðsynlegt til bjargræðis.“

Þetta er, eins og hv. þm. sjá, heldur til þess að þrengja eignarnámsheimildina, og álít ég það sanngjarnt. — Síðasta brtt. er um að 58. gr., er ræðir um, hvernig fara skuli með mál út af lögum þessum, skuli falla niður, en í stað hennar sé því bætt við 56. gr. Eftir lögfræðilegum upplýsingum, sem við höfum fengið, þá er það eina gr., sem þetta getur átt við um, en að öðru leyti yrðu lagabrotin einkamál.

Ég hefi þá minnzt nokkrum orðum á þær brtt., sem við minni hl. landbn. berum fram. Hinsvegar höfum við, eins og tekið er fram í nál., áskilið okkur rétt til að koma fram með brtt, við 3. umr., bæði eftir að við höfum athugað frv. nánar og eftir að hafa fengið þær bendingar, sem fram kunna að koma við þessa umræðu.