30.04.1936
Neðri deild: 60. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1761)

120. mál, jarðræktarlög

*Emil Jónsson:

Eins og nál. 2. minni hl. landbn. ber með sér, klofnaði n. þegar á því atriði, hvort bíða skyldi eftir áliti B. Í. Minni hl. n., þeir hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv., vildu ekki taka afstöðu til frv. fyrr en álitið væri komið frá búnaðarfélaginu, sem öll n. var sammála um að fá. Okkur, sem mynduðum meiri hl., fannst þetta svo merkilegt og þýðingarmikið mál, að ekki mætti tefja það. Þó að vísu væri sjálfsagt að fá umsögnina, vildum við láta málið ganga áfram sinn gang og taka þær aths., sem fram kynnu að koma, til greina við 3. umr. Af þessum ástæðum klofnaði n. Við 3 fórum svo í gegnum frv., ath. það og gerðum nokkrar brtt. Hinsvegar vildi ég gjarnan athuga sumt nokkuð gerr og skrifaði því ekki undir nál. með þeim, er með mér unnu að brtt. En ég get gjarnan tekið fram það sama og í landbn., áður en hún klofnaði, að ég vil ekki, að málið tefjist af þessum sökum. Og þó ég vilji athuga gerr nokkur ákvæði — þau eru ekki mörg —, þá get ég látið það bíða til 3. umr.

Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í að öðru leyti, hvað þetta er, því að hv. frsm. 1. minni hl., hv. þm. Mýr., hefir lýst aðalatriðunum, sem við erum sammála um að breyta og koma fram sem till. meiri hl., því að satt að segja er mín afstaða einnig bundin við það, að ég vil ekki verða til að tefja málið, og geri ég ráð fyrir, að svo sé um flokksmenn mína hér í þessari hv. d.

Vænti ég, að vel verði tekið í þetta mál af hv. d. og afgreiðslu þess ekki hindruð eða tafin að óþörfu.