02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1163 í B-deild Alþingistíðinda. (1765)

120. mál, jarðræktarlög

Frsm. 1. minni hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil, áður en ég sný mér að þeim brtt., sem eru bornar fram af okkur hv. 2. þm. N.-M., víkja nokkuð að því, sem hv. frsm. 2. minni hl., þm. A.-Húnv., sagði um þetta mál við 2. umr. Hann bar það á landbn., að hún hefði sýnt hina mestu frekju við afgreiðslu málsins, þar sem hún hefði ekki leitað álits búnaðarfélagsins, áður en hún afgr. málið. Ég vil ekki ganga inn á, að það sé nein frekja, ekkert öðruvísi en gerist yfirleitt í n., þegar þær klofna. En við héldum því fram, að það væri rétt og skylt að taka tillit til eða athuga það, sem búnaðarfélagið legði til málanna, en álitum, að rétt væri að gera það fyrir 3. umr. Nú er álit búnaðarfélagsins komið, og á því er ekki annað að græða en að tveir stjórnarnefndarmennirnir leggja til, að málinu sé frestað.

Þá fór hv. þm. hörðum orðum um þá frekju, að ætla sér að taka félagsskapinn til slíkrar gerbreyt. Ég þóttist sýna fram á það í framsöguræðu minni við 2. umr., að félagsskapinn sjálfan er ekki verið að taka til neinnar gerbreyt. Búnaðarfélaginu er eftir sem áður stjórnað af stj. búnaðarfélagsins, sem búnaðarþingið kýs til að fara með sín mál, og gerir ályktanir um mál búnaðarfélagsins. Eingöngu þau umboðslegu störf, sem búnaðarfélagið fer með í umboði stj., eru sett undir ráðh., og að því hefi ég leitt rök, að það er eðlilegt og sjálfsagt, ef alvarlegur ágreiningur kemur upp milli búnaðarfélagsins og landbrh. um þau umboðslegu störf, að landbrh. hafi þar úrskurðarvaldið. Ég ætla, að þannig líti fleiri menn á, sem þó hafa lagzt á móti afgreiðslu málsins. Kemur það m. a. fram í blaði Bændafl., sem út hefir komið í dag og fjallar mjög ýtarlega um þetta mál. Svo er að sjá, að þeir, sem þar skrifa um frv., hafi skilið það þannig, að öllum ágreiningsmálum búnaðarfélagsins ætti að skjóta undir landbrh., eða með öðrum orðum öllum málum búnaðarfélagsins sjálfs, en þar sem því er yfir lýst, að það sé ekki meiningin, og komin er fram brtt., þar sem skýrt er tekið fram, að hér sé aðeins átt við þau mál, sem félagið fer með í umboði ríkisvaldsins, þá er hin fyrri till. um það efni fallin niður. — Um þetta segir blaðið svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þótt telja verði alveg fordæmanlega þá takmarkalausu heimild, sem frv. gefur búnaðarmálastjóra, þá verður að telja það sjálfsagt og eðlilegt, að hann hafi heimild til að skjóta undir úrskurð ráðh. ágreiningi, er verða kann milli hans og félagsstjórnar um skilning á jarðræktarlögum og öðrum lögum, er búnaðarfélagið hefir eða kann að taka að sér umsjón með framkvæmd á. Og það ætti einnig að vera opin leið fyrir þá, sem framkvæmdin kemur fram við, að skjóta sínu máli undir úrskurð ráðh., ef þeir þykjast órétti beittir af félaginu.“

Með öðrum orðum, þarna kemur fram í blaði þessa flokks, sem á að sanna þessa frekju í garð búnaðarfélagsins, sama skoðun og kemur fram í brtt. n., sem hér liggja nú fyrir, og þetta er það, sem hefir verið gert að aðalágreiningsatriði. Í þessum brtt, er það undirstrikað, að það sé ekki verið að setja mál búnaðarfélagsins sjálfs undir ráðh., heldur aðeins þau mál, sem það fer með í umboði stj.

Þá var hv. þm. að gefa í skyn, að þegar ég flutti þing eftir þing erindi búnaðarþingsins um að breyta þannig til um stj. búnaðarfélagsins, að færa kjör meiri hl. stj. búnaðarfél. í hendur félagsins sjálfs, þá mundi það ekki hafa verið af heilindum gert hjá mér, þar sem málið hefði ekki náð fram að ganga, þó að sá flokkur, sem ég er í, og sambandsfl. hans hefðu meiri hl. á Alþ. Ég neita því, að ég hafi sýnt nokkur óheilindi í því máli. Ég fylgdi því þing eftir þing, en hv. þm. ætti að vera það kunnugt, að fyrst og fremst var það ekki flokksmál, og auk þess var Sjálfstfl. að nokkru klofinn í málinu; ýmsir fylgdu því, en aðrir voru á móti því. Alþfl. stóð á móti því sem einn maður. Því var það, að þótt málið væri flutt af fyllstu heilindum, þá tókst ekki að fá meiri hl. fyrir því á þingi.

Hv. þm. segir, að sú breyt., sem nú er lagt til að gera á stj. búnaðarfélagsins, takmarki frelsi þess margfalt meira en áður var, meðan landbn. Alþingis höfðu rétt til að ráða meiri hl. í stj. félagsins. Þetta álít ég hreina og beina fjarstæðu. Hv. þm. verður að athuga, að þegar búnaðarfélagið hafði ekki vald til að kjósa nema einn af stjórnarmönnum sínum, þá var engin trygging fyrir, að stj. búnaðarfélagsins færi eftir vilja búnaðarþingsins við framkvæmd í sérmálum B. Í. En með þeirri breyt., sem þetta frv. gerir, hefir búnaðarfélagið og stj. þess full og óskoruð umráð yfir sérmálum félagsins og framkvæmd þeirra mála eftir því, sem búnaðarþingið ályktar. Þetta er höfuðmunurinn á því gamla fyrirkomulagi og þessu, ef að l. verður.

Hv. þm. segir, að það sé höfuðkrafa sín, að ekkert sé gert í þessu máli nema með samþykki búnaðarfélagsins. Eins og ég hefi tekið fram áður, er það afaróeðlilegt, að mál, sem í eðli sínu falla undir starf ráðuneytisins, þó að búnaðarfélaginu hafi verið falið að fara með þau, og eru mjög mikilsverð löggjafaratriði, að þeim sé alveg skilyrðislaust frestað, án þess að ríkisvaldið hafi nokkurn hlut um það að segja, á hvaða tíma sem vera skal, einungis ef BÍ. vill svo vera láta. En ég er sannfærður um, að ef þessi lögþvingaða samvinna verður lögleidd, þá mun búnaðarfélagið oftast ráða, þó að þessi málskotsréttur sé gefinn undir vissum kringumstæðum. Ég er líka sannfærður um það og mér þykir það eðlilegt, að þótt búnaðarfélagið samþ. eitthvað í þessu efni, þá muni það ekki koma til með að hafa áhrif á skoðun hv. þm., og mér finnst líka eðlilegt, að þeir afgr. málið eins og þeir álíta bezt, en fari ekki að binda sig fyrirfram við ákvarðanir búnaðarfélagsins, enda er ég sannfærður um, að hvor skoðunin, sem væri uppi hjá búnaðarfélaginu, þá mundi það ekki breyta skoðun þeirra hv. þm., sem hafa sett sig inn í málið og látið í ljós skoðun sína um það við umr.

Þá var hv. þm. að tala um, að það væri óheppilegra en nokkuð annað að draga úr jarðræktarstyrknum. Það væri æskilegt, að þeir tímar væru framundan og sú geta hjá ríkissjóði, að hægt væri að veita slíkan styrk óhindrað. En við verðum að horfast í augu við staðreyndirnar, sem eru þær, að við vitum ekki, hvað fljótlega skórinn kann að kreppa að fæti þingsins yfirleitt og verði stórlega að draga úr þessum styrk og öðrum nauðsynjastyrkjum. Ég álít því, að sé alveg sjálfsagt að reyna þá að draga þannig úr styrknum, að að því verði svo lítill skaði sem verða má, en það álít ég, að sé gert með því að veita þeim helzt styrk, sem minnst hafa fengið, en takmarka við þá, sem hafa fengið ríflegar upphæðir úr ríkissjóði og geta nú orðið stundað heyskap á ræktuðu landi, en frádrátturinn verði sem minnstur hjá þeim, sem ennþá hafa ekki búið sig undir að geta stundað heyskap á ræktuðu landi.

Þá skal ég snúa mér að þeim viðbótarbrtt., sem við hv. 2. þm. N.-M. berum fram á þskj. 485. Það er þá fyrst brtt. við 8. gr. Hv. þm. A.-Húnv. fór nokkrum orðum um 8. gr. og vildi leggja í hana þann skilning, sem ég skal játa, að má, ef löngun er til þess, að ef búnaðarfélagið afsalaði sér að fara með framkvæmd þessara mála, þá ætti landbrh. að sjá um framkvæmdina, þangað til önnur skipun yrði á gerð, sem honum sjálfum þóknaðist. Til þess að gera gr. svo skýra að ekki verði hægt að snúa út úr henni á þennan hátt, þá leggjum við til, að niðurlag gr. orðist svo: „skal þá landbrh. sjá um framkvæmd þeirra á þann hátt, sem hann telur bezt henta, unz önnur skipun er þar á gerð.“ Þetta orðalag held ég, að verði naumast misskilið.

Þá er brtt. við 11. gr., um hinar misjöfnu styrkveitingar. Við nm. höfum orðið varir við, að nokkur af þessum ákvæðum muni valda óvinsæld í framkvæmd, þar sem styrkurinn yrði svo ójafn, eins og hann yrði samkv. gr. Við leggjum því til, að það býli, sem hefir fengið innan við 1000 kr. heildarstyrk, skuli fá 20% viðbótarstyrk, en lækka um 20% við þau býli, sem hafa fengið samtals 4000–5000 kr. styrk, en heildarhámarkið, sem ákveður, hvenær styrkur skuli falla niður, skuli vera eins og í frv. 5000 kr. Þetta er mest framkvæmdaratriði, það er einfaldara eftir brtt., en verður vinsælla og hefir ekki áhrif á heildarstyrkinn, svo að það gjald, sem ríkið kemur til með að greiða, verður hvorki hærra né lægra fyrir það.

Þá er viðbótarákvæði, að þau nýbýli, sem stofnuð hafa verið áður en nýbýlalögin öðluðust gildi og koma því ekki undir þau l., skuli ekki sæta lækkun á styrk og hámarksstyrkhæð til þeirra skuli vera7000 kr., og nálgast þau þá að njóta þeirra hlunninda, sem nýbýlin verða aðnjótandi samkv. nýbýlalögunum.

Þá voru ákvæði um styrk til verkfærakaupa, sem voru í eldri l., en felld niður í lagafrv., tekin upp aftur, en þó hækkaðar nokkuð þær styrkgreiðslur, sem ákveðnar voru í l.

Þá kemur 1. brtt., sem er við brtt. á þskj. 165 frá n„ sem er umorðun á till. Það var álitið af ýmsum hv. þm., að sú brtt., er n. flutti þá, væri til bóta, en hún væri ekki nægilega skýrt orðuð. Hefir því orðið að samkomulagi að orða hana um. Er það álit ýmissa hv. þm., sem hafa athugað hana, að þar komi það skýrar fram, sem vakir fyrir flm., en í brtt., sem er á hinu fyrra þskj.

Þá er að lokum lagt til, að við bráðabirgðaákveðin bætist tvær nýjar málsgr. Hin fyrri er svo hljóðandi:

„Ákvæði a- og b-liðs 11. gr., svo og ákvæðin um heildarhámarksstyrk, koma fyrst til framkvæmda við útborgun jarðræktarstyrks árið 1938.“

Með öðrum orðum er hér lagt til, að hinn breytilegi styrkur og sömuleiðis hámarksákvæðið komi ekki til framkvæmda fyrr en 1938, enda er sýnt, að það er ekki hægt að koma því í framkvæmd fyrr, því að áður en hægt er að framkvæma þessi ákvæði, verður að semja nákvæma spjaldskrá um allan veittan styrk til allra býla á landinu, og ekki líklegt, að hægt sé að upplýsa það fyrr en á árinu 1938, enda virðist n. sjálfsagt, að á þær jarðabætur, sem unnar eru á þessu ári, sé veittur styrkur samkv. gildandi lögum.

Þá leggjum við til, að ákvæði 17. gr. komi fyrst til framkvæmda eftir að fasteignamat 1940 hefir öðlazt gildi og nái aðeins til þess jarðræktarstyrks, sem greiddur hefir verið frá gildistöku þessara laga.

Þetta var komið inn í brtt., sem við bárum fram, en svo var horfið að því ráði að setja það inn í bráðabirgðaákvæðin. En þó að okkur þyki sjálfsagt, að ekki megi selja eða veðsetja jarðræktarstyrkinn, þá getur það ekki náð til þess styrks, sem þegar hefir verið greiddur, þar sem búið er að veðsetja hann og því verður ekki kippt aftur.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ég þarf að taka fram um þessar brtt.