02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1181 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

120. mál, jarðræktarlög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég skal vera afarstuttorður, vegna þess að mikið af því, sem sagt hefir verið móti frv. þessu, er þess eðlis, að því þarf engu að svara.

Hv. þm. Borgf. talar hér sem reyndur þm. Hann þekkir það af reynslu sinni, að hjá honum er það vond samvizka, sem knýr hann til að flytja brtt. Og því heldur hann okkur eins og þrástagast nú á okkar vondu samvizku. Slíkt er ekki svara vert. Það þekkja allir málsháttinn: „Margur heldur mann af sér“.

Það þarf engu að svara hv. þm. V.- Húnv., sem var að tala um fjárhagslegt sjálfstæði bænda í sambandi við það ástand, sem nú væri, og það er margt fleira hjá þessum hv. þm., sem engu þarf að svara. En það var eitt atriði, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, og það voru ummæli, sem féllu um 17. gr. frv.

Það hefir komið fram, að mér hefir skilizt, og þó alveg sérstaklega hjá hv. þm. Borgf., að aðalþyrnir í hans augum, og kannske fleiri, væri 17. gr. og ákvæðið um 5 þús. kr. hámarksstyrk til býlis. Ég vildi því fara nokkrum orðum um 17. gr. og benda á, hver tilgangur jarðræktarlaganna var, er og á að vera. Annarsvegar er hann sá, að ýta undir bændur landsins um að gera framkvæmdir á jörðum sínum, og sá tilgangur hefir náðst, framkvæmdirnar hafa vaxið, þó að betur hefði mátt vera. Þetta er annar tilgangurinn. En hinn er sá að tryggja það, að vegna þeirra framkvæmda, sem unnar eru á jörðinni, þá verði þeim, sem á henni búa — ekki aðeins þeim, sem býr á henni í dag, heldur líka þeim, sem á eftir koma —, gert kleift að búa betur á jörðinni en verið hefir. Þessum tilgangi hefir ekki verið náð, vegna þess að jarðraktarstyrkurinn hefir orðið beinn styrkur til þess, sem jörðina átti, og hann hefir því hlotið tvennun hagnað. Því að þegar jörðin hefir verið seld, þá hefir hann notið verðhækkunar, selt jarðabæturnar líka. Sá, sem keypti, hefir því orðið að kaupa jarðræktarstyrkinn og greiða vexti af honum; aðstaða hans til að búa á jörðinni hefir því ekkert batnað.

17. gr. er tilraun til að tryggja, að framkvæmdirnar komi ekki bara einum að gagni, heldur öllum, sem á jörðinni búa í framtíðinni. Ég get skilið það, að þeir menn, sem eru þröngsýnir, sjái ekki þetta, því að þeir sjá ekki út yfir líðandi stund, og mér þykir mannlegt, þótt hv. þm. hér í þessari d., sem eiga margar jarðir en það eru sérstaklega þeir, sem talað hafa hér móti frv., vilji fá hækkun á leigujarðir sínar fyrir umbætur leiguliðanna og styrk ríkisins.

Annað aðalatriðið er að fella niður styrk til þeirra býla, sem búin eru að fá 5 þús. kr. Þegar allar jarðir á landinu eru búnar að fá 5 þús. kr. í styrk, nemur það um 33 millj. kr., styrkurinn allur, en fasteignamat allra jarða er 27–28 millj. kr., svo að þá ætti fasteignamatsverð þeirra að vera orðið allmikið. Og ég lít svo á, að framleiðslumöguleikar hverrar jarðar hafi þá vaxið allverulega. Nú er framfleytt á meðaljörð 3,9 kúm og 86 fjár, en þegar sú jörð er búin að fá í þús. kr. styrk, þá má framfleyta á henni h. u. m. helmingi meira búi en nú.

Hvort ætli sé nú meira virði fyrir þjóðarheildina að koma öllum jörðunum í þetta horf sem fyrst eða verja þessu fé til þess að gera fáar einstakar jarðir ennþá betri, sem þegar eru komnar langt fram úr. Ég hika ekki við að fullyrða, að það á að koma öllum jörðum landsins í það horf, sem þær geta komizt með 3 þús. kr. styrk, og það á að keppa að því að ná því takmarki. Þess vegna á að takmarka styrkinn við þá, sem eru efstir, en ekki hina, sem skammt eru komnir, og þess vegna er sjálfsagt að setja hámark. Þegar bornar eru saman jarðirnar, sem búnar eru að fá hæstan styrk, við meðaljörðina, þá er munurinn ákaflega mikill, og hv. þm. Borgf. ætti að geta skilið þetta, því að hans jörð er að komast í hámark, og þess vegna ætti hann að þekkja muninn, sem verður á jörðinni. En þess vegna er hann kannske líka svona harður á móti þessu ákvæði!

Ég tel þessar tvær brtt. svo stórfelldar og mikils virði, að þótt engar aðrar breyt. yrðu gerðar, þá ætti frv. að ná fram að ganga, og því fyrr, því betra.

Hv. þm. V.-Húnv. var eitthvað að tala um, að ég væri að grafa undan bændum. Ég get sagt honum það, að ég hefi borið þetta undir mína kjósendur. Ég hefi sagt þeim, að þetta þyrfti að gera, og ég er í fullu samræmi við þeirra vilja hér í hv. d., þegar ég er að koma þessu máli áleiðis.

Það er ekki fleira, sem ég hefi að segja. En ég vil að lokum undirstrika það, að ég tel þetta tvennt mest um vert til að gera bændum kleift að bæta jarðir sínar, og ég vænti þess, að hv. þd. samþ. þetta frv. sem fyrst, og það helzt í dag.