02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1182 í B-deild Alþingistíðinda. (1770)

120. mál, jarðræktarlög

Frsm. 1. minni hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Margt af því, sem fram hefir komið í ræðum þeirra hv. þm., er síðast hafa talað, er aðeins endurtekning á því, sem þeir hafa áður sagt, og get ég því farið fljótt yfir sögu. Þó eru nokkur atriði, sem ég tel rétt að svara frekar en gert hefir verið.

Því hefir verið haldið á lofti, að með því að kveða nokkuð á um, hvernig kjósa bæri til búnaðarþings, þá væri verið að færa B. Í. í viðjar og hefta sjálfræði þess. Ég get ekki séð, að þetta hafi neitt að segja um almennt félagsfrelsi eða frelsisskerðingu B. Í. Ég sé ekki betur en að í ýmsum 1. séu ákvæði um félagsskap og ákveðið fyrirkomulag, og því nánar er ákveðið, sem félagsskapurinn er þýðingarmeiri. Ég veit ekki betur en að til séu l. um samvinnufélög. (JS: Hvaðan komu þau?). Þau voru sett af Alþingi. (JS: Þau voru búin til af bændunum sjálfum). Vitanlega voru þau lög sett af Alþingi, og það eru til fleiri lög um félagsskap, eins og t. d. um hlutafélög, og lengur mætti telja. Alþingi hefir sett löggjöf um allan þann félagsskap, er sérstaklega snertir þjóðfélagið. Það er því ekkert undarlegt, þó að fram komi lög, er snerta B. Í., og jafnvel þó fyrr hefði verið. B. Í. fer að miklu leyti með framkvæmdavaldið hvað snertir löggjöf um íslenzkan landbúnað. Og ég vil segja, að þótt það sé lögfest, þá er það frekar til að tryggja viðgang þess en eyðileggja. — Eins og ég tók fram í minni fyrstu ræðu, þá hefði ég frekar kosið, að um þetta atriði hefðu komið ein sérstök lög en úr því að þetta er komið fram sem einn kafli í jarðræktarlögunum, þá sé ég ekki ástæðu til annars en samþ. það þar. — Og hvað er nú þetta, sem ákveðið er um kosningu til búnaðarþings? Það er ekki annað en það, að öllum jarðræktarmönnum í landinu er áskilinn réttur til að kjósa til búnaðarþings, alveg á sama hátt og þeir hafa rétt til að kjósa beint til Alþingis. Ég sé ekki, á hvern hátt er verið að skerða þeirra rétt, þó að búin sé til einskonar stjskr. til að byggja félagsskapinn upp eftir.

Hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv. töluðu mikið um hámarksstyrkinn og það ranglæti, sem í honum fælist. Ég verð að segja það, sem ég hefi áður tekið fram, að ef útlit væri á, að Alþingi hefði fullar hendur fjár, þá sæi ég ekki, að því fé væri á annan hátt betur varið en til þess að styrkja jarðræktarframkvæmdir í landinu og aðrar umbætur á jörðunum. En þegar maður horfir á þá staðreynd, að atvinnurekstur, sem gefið hefir mestar tekjur í ríkissjóð, er alveg lamaður, þegar aflasamar veiðistöðvar afla aðeins 1/3 af því, sem venjulegt er, og þegar litið er á markaðserfiðleika þessa atvinnuvegar, þá sést, að tekjuvon ríkissjóðs af þessum rekstri hlýtur að verða miklu minni en áður. Og þegar svo er komið, sé ég ekki, að hægt sé að ráðstafa þessum styrk, sem Alþingi ræður yfir, á heppilegri hátt með öðru en því að láta hann ganga til þeirra manna, sem skemmst eru á veg komnir, en takmarka hann við þau býli, sem mest hafa hlotið. Hér er ekki um að ræða neina árás, á þessa menn. En þegar styrkurinn er kominn upp í 5000 kr. og gera má ráð fyrir, að menn hafi þá að jafnaði varið 20 þús. kr. til jarðabóta, þá verður að telja auðveldara fyrir þá að halda í horfinu en hina, að byggja allt upp frá grunni. Og þó að ég verði einn af þeim, sem þetta kemur niður á, tel ég það eins sjálfsagt réttlætismál fyrir því. Ég býst við, að hv. þm. Borgf., ef hann vildi ræða þetta mál með sanngirni, hlyti að segja slíkt hið sama, að þar sem hann er einn þeirra, sem búnir eru að koma mörgu í framkvæmd hjá sér og komnir upp hámark, þá hljóti hann að álíta rétt að tryggja styrkinn kjósendum sínum, sem ekki eru komnir eins langt.

Hv. þm. A.-Húnv. taldi það ranglæti, að ef tveir menn byggju saman á býli, sem búið væri að fá þennan hámarksstyrk, þá fengju þeir ekki meira. Þetta er vafalaust rétt, ef mennirnir búa saman. En ég álít, að stefna beri að því, að þegar búið er að koma ræktun á einhverju býli vel áleiðis og býlið búið að fá hámarksstyrk, þá verði því skipt í tvennt. Annars er í þessu eitt atriði, sem eflaust er til bóta: Þegar bændur vita, að styrkurinn er takmarkaður, leggja þeir meiri áherzlu á að leysa jarðabæturnar betur af hendi en áður.

Þá er 17. gr., sem hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Borgf. töluðu mikið um, en hv. 2. þm. N.-M. hefir að nokkru leyti svarað. Þeir voru nokkuð ósammála um tilganginn með jarðræktarl. Hv. þm. A.-Húnv. skildi þau svo sem þessi styrkur ætti að vera óafturkræft framlag til jarðarinnar, en hv. þm. Borgf. vildi láta hann vera eign þess manns, er hann fengi. Hvað, sem vakað hefir upphaflega fyrir þeim mönnum, er l. sömdu, þá er það aðalatriðið, að styrkurinn sé óafturkræft framlag til býlisins, en ekki fyrst og fremst til þess manns, er þar býr.

Hv. þm. Borgf. sagði það kaldhæðni örlaganna, að ég, sem væri fulltrúi bænda í tvennum skilningi, skyldi flytja þetta frv. Hann sagðist jafnframt vona, að íslenzkur landbúnaður ætti sér mikla framtíð og að hér gæti, er tímar liðu, þrifizt blómlegur búrekstur. Ég verð nú að segja, að ég álít ekki, að hann hafi einkaleyfi til að lýsa yfir þessu hér. Ég get t. d. gert þessi orð hans að mínum. Ég get lýst yfir því, að ég er jafnsannfærður um, að ég er að vinna landbúnaðinum gagn með mínum till., og hann er sannfærður um, að hans till. séu landbúnaðinum til gagns. En reynslan verður svo að skera úr um það, hvor okkar sér betur.

Hv. þm. dró inn í þessar umr. jarðakaup ríkisins, sem koma málinu í rauninni ekkert við. Ég get sagt í þessu sambandi, að fyrir mér er það ekkert trúaratriði, að betra sé, að bændur eigi jarðirnar sjálfir. Eftir að síðasta þing setti l. um erfðaábúð og óðalsrétt, verð ég að segja, að mér er nokkurnveginn sama, hvor stefnan verður ofan á í þjóðfélaginu. En eins og nú er, verður bændum ekki hjálpað með öðru en því, að ríkið hlaupi undir bagga.

Í sambandi við það, sem hv. þm. A.-Húnv. sagði um málið, vil ég taka það fram, að fyrir mér er það aðalatriði að tryggja með löggjöf, að búnaðarfélagið fari með framkvæmdavald fyrir stj. á málum þeim, sem það hefir nú. Og ég álít það ekki verða tryggt öðruvísi en með löggjöf. Ef það verður, hefir Alþingi skorið úr um að vísa á bug þeirri stefnu, sem hér hefir verið uppi, að taka undan félaginu ýms mál, sem nú heyra undir það.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta mál. En mér þótti hart, að hv. þm. Borgf., sem mér heyrðist vera þeirrar skoðunar, að brtt. n. væru allar til bóta, skyldi vera svo fullur af geðillsku, að hann fór að hreyta ónotum í n., sem borið hefir þessar brtt. fram. Hann kallaði þetta undanhald o. s. frv. En það er örðugt að gera þeim mönnum til hæfis, sem skamma mann eins fyrir það, sem vel er gert, og hitt, sem illa er gert að þeirra dómi. Þegar umr. eru komnar inn á það svið, er enginn hagur að því að halda þeim áfram.