02.05.1936
Neðri deild: 61. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

120. mál, jarðræktarlög

*Ólafur Thors:

Hæstv. forseti sagðist yfirleitt taka fullt tillit til óska þm. um frestun atkvgr., en ég vil þá minna hann á það, að ég hefi áður farið fram á það á þessu þingi, að atkvgr. yrði frestað, án þess að það yrði gert, en hinsvegar hefir atkvgr. verið frestað hvað eftir annað dögum saman, þegar stjórnarliðar hafa ekki mætt.

Ég veit ekki, hvort hv. 2. þm. Reykv. er svo magaveikur, að hann getur ekki haldizt við inni í d., þó að hann kunni að vera í húsinu, en víst er það, að hann sést mjög sjaldan hér í d. Og þegar hann ber mér það á brýn, að ég sé oft fjarverandi, þá mælir hann gegn betri vitund. því að svo miklu leyti sem hann veit yfirleitt, hverjir mæta hér, ætti hann að vita, að ég er að öllum jafnaði annaðhvort hér í d. eða inni í ráðherraherberginu.

Ég vænti þess annars, að hæstv. forseti viðurkenni það, að það hefir komið fyrir hvað eftir annað, að Alþfl. hefir vantað allan, og það er skjalfest í þingtíðindunum, að hér situr oft einn eða enginn alþýðuflokksmaður, þegar umr. standa sem hæst.

Hæstv. forseti vill fallast á að gefa hlé, en ég tel það ekki nægilegt; samt mun ég reyna að sætta mig við úrskurð hæstv. forseta.